Skip to main content
Greinar

Hjálp til sjálfshjálpar

By febrúar 20, 2014No Comments

Undirritaður var þjónustusamningur milli ríkis og borgar síðastliðinn fimmtudag sem felur í sér að Reykjavíkurborgin sinni allri stoðþjónustu við 44 geðfatlaða einstaklinga og sjái um að útvega húsnæði fyrir þá.

Jórunn Frímannsdóttir skrifar:

Undirritaður var þjónustusamningur milli ríkis og borgar síðastliðinn fimmtudag sem felur í sér að Reykjavíkurborgin sinni allri stoðþjónustu við 44 geðfatlaða einstaklinga og sjái um að útvega húsnæði fyrir þá.

Þessi þjónustusamningur er fyrsta skrefið í þá átt að færa alla ábyrgð á þjónustu við geðfatlaða frá ríki til borgar en heilbrigðisráðherra og borgarstjóri hafa lýst yfir vilja til þess að takast á við það verkefni. Borgin yfirtekur með þessu átaksverkefni Straumhvarfa uppbyggingu húsnæðis og þjónustu í borginni. Framkvæmdum verður flýtt um eitt ár og lýkur á næsta ári. Samhliða undirritun þessa samnings var undirrituð yfirlýsing þess efnis að stefnt sé að því að borgin taki að sér framkvæmd allrar þjónustu við geðfatlaða í byrjun næsta árs.

Í dag eru aðrar kröfur til búsetuhátta en áður tíðkaðist. Verið er að hverfa frá herbergjasambýlum sem voru á ábyrgð ríkisins og áhersla lögð á að einstaklingar hafi sína eigin íbúð í tilgreindum búsetukjörnum. Þetta þýðir að skyldur sveitarfélaga aukast mikið og því mikilvægt að góð samvinna eigi sér stað á milli sveitarfélaga og ráðuneytisins í þessum efnum.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar samþykkti 11. júní síðastliðinn hugmyndafræði og stefnu sem meðal annars byggist á valdeflingu, notendasamráði og hjálp til sjálfshjálpar. Aukin áhersla verður lögð á að meta færni og þjálfun í daglegri iðju. Með stuðningi við daglegt líf verður stuðlað að auknu sjálfstæði og unnið með bjargráð sem finnast hjá einstaklingnum og í umhverfi hans.

Mikil vinna er framundan og má þar nefna undirbúning sjö nýrra búsetukjarna, og tryggja að hugmyndafræði og stefna velferðarsviðs einkenni þjónustu og verklag hennar. Undirbúa þarf aukið hlutverk þjónustumiðstöðva, og tryggja að kynning og fræðsla verkefnisins nái til allra og fjölmargt annað. Núverandi landslag hefur verið skoðað og verður byggt á því sem sterkast er, með það að leiðarljósi að veita heildstæða þjónustu fyrir notendur sem miðar að auknum lífsgæðum og hjálp til sjálfshjálpar.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins