FjarfundirFréttir

Heimsókn til Hugaraflsfélaga

Langar þig að kíkja í heimsókn til Hugaraflsfélaga?

Staðan í samfélaginu hefur takmarkað ferðir okkar og breytt leiðum til að halda í þýðingarrík tengsl og samskipti. Við í Hugarafli búum svo vel að eiga fjölda hæfileikaríkra félaga sem eru reiðubúin til að bjóða alþjóð í rafræna heimsókn. Hugmyndin er að veita smá krydd í tilveruna með tónlist, söng, handverki eða annarri sköpun.
Við munum senda út í beinu streymi á likesíðu Hugarafls þriðjudaginn 21. apríl kl. 14 og reikna má með að heimsóknin vari í tæpan hálftíma.

Í þetta skiptið býður Jódís Eva Hugaraflsfélagi ykkur í heimsókn. Jódís segir stuttlega frá sér og hlakkar til að heyra frá ykkur í beina streyminu á þriðjudag.

Hér er like síða Hugarafls: https://www.facebook.com/Hugarafl/

————————–

Jódís Eva:
„Það er ekki langt síðan ég byrjaði að mæta í Hugarafl en ég sá strax að þetta var flokkurinn minn, loksins fundinn. Sérstaklega fann ég mig í tónlistargleðinni sem þar ríkir á föstudögum og í fyrsta sinn í mörg mörg ár fékk ég að spila með öðru tónlistarfólki og syngja eins hátt og ég vildi, meira að segja í microphone! Enda voru börnin mín farin að hafa á því orð hvað ég kom alltaf skellandi kát úr Lágmúlanum, syngjandi langt fram á kvöld.

Það að taka þátt í svona Live-heimsókn er alveg svakalega stórt skref fyrir mig og mína baráttu við félagskvíða og ég er sérstaklega þakklát Lindu Hugaraflskonu sem hélt svo yndislegt Live fyrir okkur í þar síðustu viku, fyrir að hvetja mig áfram og setja akkúrat rétt magn af pressu á mig, og sérstaklega fyrir að bjóðast til að vera með mér – því þrátt fyrir að ég hafi nýlega tekið stórt og mikið stökk áfram hvað varðar hamingju og von, er ég eiginlega bara á fyrstu skrefunum ennþá hvað varðar að actually fara út fyrir öryggisvegginn sem kvíðinn eyddi svo mörgum árum í að byggja og styrkja, og ég þarf að fá lánað smá af hennar öryggi og flæði til að takast það… og það er bara gott, vonandi get ég stigið svona fram fyrir einhvern annan seinna meir ♥

Upprunalega þegar við byrjuðum að spá í að láta vaða með annað live, fór ég í gegnum mörg hundruð allskonar lög í leit að einhverju góðu, og var svosem komin með ágætis lista sem ég var byrjuð að æfa, en svo um páskana, eftir stórt og mikið nostalgíuferðalag um frumskóga Youtube með vini mínum, rakst ég á Eninga Meninga og þá var ekki aftur snúið, ég varð að læra að spila þessi lög! Platan kom út 10 árum áður en ég fæddist og hún var til á heimilinu frá því áður en ég man eftir mér, í reglulegri spilun, en það er langt langt síðan ég hlustaði á hana síðast og ég var búin að gleyma hvað lögin eru yndislega absúrd og merkilega djúp og skörp til skiptis. Og ég sá að þau væru í raun fullkomin fyrir svona live af því hvað þau höfða vel til bæði barna og fullorðna, sérstaklega þeirra fullorðna sem muna eftir þeim frá því í gamla daga.“