Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

Hafrún læsti hurðum og var viss um að barnið væri látið: Opnar sig um alvarleg veikindi

By ágúst 24, 2015No Comments
HafrúnHafrún Kristín Sigurðardóttir er hörkudugleg ung kona sem hefur komist yfir margar hindranir í lífinu. Í æsku glímdi Hafrún við mikinn athyglisbrest og ofvirkni og leið skólaganga hennar fyrir það. Hún upplifði sig sem utanveltu og fékk þau skilaboð frá kennurum sínum að hún væri ómögulegur nemandi sem myndi aldrei geta neitt.

„Námslega var ég alltaf út úr, sama hvað ég reyndi, þá tókst mér það ekki. Ég lít svo á að skólakerfið hafi brugðist mér.“

Með þessi skilaboð fór Hafrún út í lífið, haldandi að hún myndi aldrei geta lært neitt eða orðið neitt. Um tvítugt þegar Hafrún eignaðist sitt fyrsta barn var farið að kenna á veikindum hjá henni, hún fékk alvarlegt fæðingarþunglyndi sem á tímum jaðraði við sturlun. Hún átti erfitt með að tengjast barninu sínu og var alltaf hrædd um það.

Steig varla út fyrir hússins dyr

 

Hún lokaði gluggum, læsti hurðum og var viss um að barnið væri látið þegar hún sá gamla menn. Hún fór að loka sig meira og meira af og að lokum steig hún varla út fyrir hússins dyr. Hafrún segir sjálf að hún hafi hreinlega verið heima hjá sér í sjö ár.

Hún glímdi við mikla vanlíðan og sótti í mat sem huggun og  borðaði yfir tilfinningar sínar eins hún lýsir sjálf, þar til hún var komin með mikla matarfíkn. Með vanlíðaninni og þunglyndinu fór einnig að bera á einkennum maníu og Hafrún greindist fljótlega með geðhvörf þar sem hún sveiflaðist á milli geðlægðar/þunglyndis og geðhæðar/maníu.

Hafrún Kristín Sigurðardóttir
Hafrún Kristín Sigurðardóttir

 

Með þessa þrjá kvilla, ADHD, geðhvörf og matarfíkn sat Hafrún heima hjá sér, vissi ekki hvar hjálp var að fá og hélt áfram að  upplifa sjálfa sig sem utanveltu í þjóðfélaginu, að hún væri ekki jafn góð og aðrir. Lukkulega fór svo að Hafrún sótti sér hjálp, hún fór í 12 spora samtök þar sem hún fékk aðstoð við að taka á matarfíkninni og vorið 2010 fann hún Hugarafl, samtök fyrir fólk með geðraskanir þar sem hún kynnist fóki sem glímdi við svipaða eriðleika.

Blendnar tilfinningar

 

Hafrún fór einnig í skóla hjá Hringsjá, um haustið 2011, þar sem hún fékk loksins þá aðstoð og þau verkfæri sem hún þurfti til að getað lært og í ljós kom að þarna var bráðgreind kona á ferð með mikla hæfileika til náms. Hún var þá búin að greinast með ADHD og tekið var á hennar námi með það fyrir augum. Hafrún segir að í fyrstu hafi hún upplifað blendnar tilfinningar við að vera þar, en með því að gefa sér tíma, þá fór að ganga vel:

„Loksins trúði einhver á mann, einhver gaf sér tíma til að hjálpa mér og kenndi mér námsaðferðir sem virkuðu fyrir mig. Loksins gat ég stundað einstaklingsmiðað nám.“

Hafrún kláraði tíma sinn í Hringsjá í desember árið 2012 með toppeinkunnir. Þaðan fór hún í Fjölbrautarskólann í Breiðholti og hélt áfram að standa sig vel í náminu. Hún mun útskrifast með stúdentspróf af listnámsbraut fata og textíl FB næsta vor og hyggur á frekara nám í framtíðinni. „Í dag fæ ég alla þá hjálp í námi sem ég þarf og bið um.“, en Hafrún er dugleg við að nýta sér þau úrræði sem í boði eru fyrir hana, bæði í skólanum og í Hugarafli.

Hafrún er búin að taka tvisvar þátt í Reykjavíkurmaraþoninu áður og er þetta því þriðja skiptið sem hún hleypur í maraþoninu, og hleypur nú í annað skiptið fyrir Hugarafl.

„Ég ætla að hlaupa fyrir Hugarafl þar sem þessi samtök hafa bjargað lífi mínu á svo margan hátt. Með þeirra hjálp fékk ég tækifæri til að komast aftur út í lífið, verða ég sjálf og þora að láta mig dreyma um góða og bjarta framtíð.“

Hafrún hefur miklar skoðanir á því hvað mætti betur fara í meðferð fólks með geðraskanir og lítur svo á að geðraskanir séu ekki einkamál, heldur eitthvað sem snertir alla á lífsleiðinni og mikil þörf sé á að ræða hlutina opinskátt.

Einnig telur hún að það vanti meiri skilning í garð fólks sem glímir við geðraskanir, að það sé ekkert sem heiti að „fara bara að hreyfa sig og þá mun þetta batna“, heldur að þarna búi meira undir: „Ég er ein þeirra sem hef oft fengið að heyra þegar ég á þunglyndistímabil ég þurfi bara að hreyfa mig þá muni mér líða betur. Þegar ég fer niður í þunglyndi er nógu erfitt bara það eitt að anda og vera til..“

Það er alltaf von

Hafrún er sprelllifandi dæmi um það hvað hægt er að gera með réttu hjálpinni, að þó að fólki virðist öll sund lokuð, þá er alltaf von. Þó að hún glími stundum við einkenni geðrænna erfiðleika, þá nýtir hún sér þau úrræði sem henni standa til boða, sem og það sem hún hefur lært með vinnu sinni í Hugarafli og annars staðar.

Í dag er Hafrún á fullu í námi,  er dugleg að  stunda hreyfingu og mætir í Hugarafl, ásamt því að vera gift með tvö börn og kött. Hún hefur notið góðs stuðnings eiginmanns síns og telur það nauðsynlegt að ræða veikindi við fjölskylduna og hafa allt uppi á borðinu.

Leyndarmál og þöggun eitra út frá sér, börn finna strax á sér ef eitthvað er að. Feluleikur er hættulegur. Talið upphátt, segið frá, ekki þegja. Hlutunum verður ekki breytt nema að talað sé um þá. Hættum að tipla á tánum og vinnum saman að betra samfélagi“

Að lokum vill Hafrún koma eftirfarandi á framfæri við þá sem glíma við svipaða erfiðleika: „Ekki gefast upp. Þetta er hægt, það er von. Það þarf að hafa fyrir þessu, en með réttri hjálp eru manni allir vegir færir.“

Við hvetjum fólk til að styrkja starfsemi Hugarafls með því að heita á Hafrúnu og fleiri sem hlaupa fyrir félagið.

Höfundur greinarinnar er Sigrún Halla Tryggvadóttir

pressan.is