Í dag var skrifað undir nýjan samning við Hugarafl af Willum Þór heilbrigðisráðherra. Þetta eru mikil tímamót og það er sannarlega fagnað í Hugarafli í dag. Samningurinn er tilraunaverkefni og kveður á um aukna áherslu hjá Hugarafli á endurhæfingu og starfsendurhæfingu hjá samtökunum. Hugarafl hefur sinnt endurhæfingu í tæp 22 ár og reynslan er gríðarleg sem byggt er á hér og árangur góður. Hugarafl sinnir notendum og aðstandendum af allri landsbyggðinni.
Willum ásamt stjórn og framkvæmdastjóra Hugarafls.
Samningurinn byggir á auknum stuðningi við endurhæfingu notenda sem ganga í gegnum geðrænar áskoranir. Lögð verður áhersla á þrjá hópa, þ.e. notendur sem eru að stíga sín fyrstu skref í endurhæfingu, notendur sem eru lengra komin í endurhæfingu og notendur sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkað eða í nám. Þetta áhugaverða verkefni er viðbót við innra starf Hugarafls og er efling valmöguleika notenda sem ganga í gegnum geðrænar áskoranir.
Willum Þór heilbrigðisráðherra og hans samstarfsfólk hafa sýnt það í verki síðustu ár að skilningur er á mikilvægi grasrótar með áherslu á valdeflingu, bata og aukin mannréttindi. Willum Þór hefur af alúð fylgst vel með innra og ytra starfi samtakanna og tekið þátt í ýmsum viðburðum hjá Hugarafli, svo sem opnun nýs húsnæðis og 20 ára afmæli samtakanna. Samtalið hefur alltaf verið virkt á milli heilbrigðisráðherra og Hugarafls. Willum Þór hefur oftsinnis ítrekað mikilvægi Hugarafls í íslensku samfélagi. Í gegnum samstarf við Willum Þór og hans ráðuneyti höfum við mætt virðingu og mennsku. Það er afar mikilvægt í okkar starfi að eiga gott samstarf við stjórnsýsluna sem sinnir þessum stóra og á sama tíma viðkvæma málaflokki.
Auður Axelsdóttir framkvæmdastjóri Hugarafls, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Málfríður Hrund Einarsdóttir formaður Hugarafls skrifa undir samninginn.
Stjórn Hugarafls sendir bestu þakkir fyrir samstarfið og sendir góðar kveðjur inn í komandi vikur með áherslu á að allir aðilar hlúi að geðheilsu sinni í kosningabaráttunni.
Bestu kveðjur,
Auður Axelsdóttir, framkvæmdastjóri Hugarafls.