Ég hef verið að skoða og kynna mér nýja háskólasjúkrahúsið. Þetta nýja háskólasjúkrahús á að vera mjög flott og standast nútímakröfur. Þar er meðal annars talað um að allar sjúkrastofur verði einstaklingsherbergi með sér baðherbergi og aðgengi út á skjólsæla þakgarða sem snúa vel við sólu þar sem rækta má rósir og lækningajurtir.
Þetta hljómar mjög vel og finnst mér þetta vera góð þróun. Það sem stakk mig þegar ég var að skoða teikningaranar er að geðsviðið á ekki að færast inn í nýja háskólasjúkrahúsið. Það á að halda áfram starfssemi í núverandi geðdeildarbyggingu. Ég fór að lesa mér til og skoða eins mikið af gögnum í sambandi við nýja háskólasjúkrahúsið eins og ég komst yfir. Ég sá að í upphafi ferlisins var hugmyndin að geðsviðið fengi aukið húsnæði en samkvæmt nýjustu skýrslum og teikningum er svo ekki. Það er samt talað um að endurbæta húsnæðið en ekki stækka það. Ég sé því ekki hvernig hægt sé að bæta aðstöðuna mikið því byggingin er nú þegar sprungin. Oft þarf að vísa sjúklingum frá eða útskrifa þá of snemma vegna skorts á plássum. Það er því ekki hægt að fjölga herbergjum til að allir fá eins manns herbergi, eða bæta við aðstöðu inn á deildum fyrir til dæmis iðjuþjálfun.
Af hverju fá geðsjúkir ekki sömu aðstöðu og aðrir sjúklingar? Ég persónulega hef legið inn á geðdeild og finnst aðstaðan þar vera óviðunandi. Flest herbergin eru tveggja manna sem getur verið mjög erfitt því sjúklingar eru í mismunandi ástandi. Ég hef oft lent í því að herbergisfélagi minn hefur haldið fyrir mér vöku eða truflað mig á annan hátt. Þetta er mjög slæmt þar sem margir sjúklingar hafa átt erfitt með svefn og þurfa nauðsynlega að komast í ró og næði. Hreinlætisaðstaðan er líka slæm, upp að 5 sjúklingar nota sama baðherbergið og sömu sturtuna. Þeir geta verið af báðum kynjum og í misjöfnu ástandi. Þetta aðstöðuleysi hefur áður verið í umræðunni og kallað hefur verið eftir úrbótum frá sjúklingum, starfsfólki og aðstandendum án mikils árangurs.
Það má samt nefna að flytja á bráðamóttöku geðsviðs inn í nýja háskólasjúkrahúsið þar sem verður sameinuð bráðamóttaka fyrir allt sjúkrahúsið. Að sumu leyti er það jákvætt og væntanlega verður þar mun betri aðstaða en er á núverandi bráðamóttöku. Það eru samt ekki allir sammála um kosti þess að hafa eina sameinaða bráðamóttöku, ég veit til dæmis um einstaklinga sem finnst það hræðileg tilhugsun að þurfa að fara á svona stóra bráðamóttöku þegar því líður svona illa. Það má líka nefna að á teikningu fyrir annan áfanga er sýnd möguleg stækkun geðdeildar. En því miður er það bara framtíðarmöguleiki eftir að annari áætlaðri uppbyggingu er lokið.
Mér og félögum mínum í Hugarafli finnst það mjög alvarlegt mál að verið sé að mismuna geðsjúkum í heilbrigðiskerfinu á Íslandi árið 2010! Eru þetta fordómar? Eru geðsjúkdómar annars flokks sjúkdómar í heilbrigðiskerfinu?
Elín Ósk Reynisdóttir