Geðveikt kaffihús í dag – Hugarafl kynnir starfið
Í dag 2. maí opnar Hugarafl Geðveikt Kaffihús í Hinu húsinu við Pósthússtræti 3-5. Kaffihúsið verður aðeins starfandi kl. 13-17 í dag og er ætlað að vekja athygli á starfsemi Hugarafls ásamt því að afla fjár til starfseminnar.
Boðið verður uppá skemmti- og tónlistaratriði ásamt að selt verður kaffi, gos, vöfflur með rjóma og sultu, kökur og ýmiss konar gúmmelaði á vægu verði.
Hugað að unga fólkinu
Auður Axelsdóttir er iðjuþjálfi og starfar fyrir Hugarafl. Hún segir samtökin reyna eftir megni að minna á sig og að viðburður dagsins sé einnig mikilvæg fjáröflun. „Við reynum eftir megni að vera sýnileg í samfélaginu og halda viðburði. Við erum með öflugt innra starf en núna erum við sérstaklega að styrkja þann hluta starfsins sem snýr að ungu fólki á aldrinum 18-30 ára.“ Hópurinn kallast unghugar, en þar hittist fólk og ræðir reynslu sína af geðröskunum og miðlar hvert til annars ýmsu sem styður bata. Auður segir mikilvægt að kynna fyrir unga fólkinu að það þurfi ekki að vera eitt og einangrað með sína vanlíðan.
„Það reynist stundum erfitt fyrir þau að trúa því að vanlíðanin geti farið. Við leggjum líka áherslu á að minnka þann ótta sem ríkir í samfélaginu gagnvart geðröskunum. Um leið og við getum rætt málin og sýnt þeim fyrirmyndir sem hafa farið í gengum þetta verður útlitið allt annað.“
Hugarafl sinnir jafnframt geðfræðslu í 8-9 bekk grunnskóla og í framhaldsskólum. „Það er magnað að um leið og krakkarnir sjá okkur og fá að heyra um reynslu fólks fjúka fordómarnir út um gluggann.“
Dagskrá dagsins á Geðveika kaffihúsinu:
13:00 – Atli Steinn og Árni Steingríms Hugareflingar slíta strengi og þrusa geðveik lög.
13:30 – Atli Valur (atlaskipting við Atla Stein) og Árni Steingríms (hinn eini og sá sami og áður) ásamt Theodóru Grímu trylla geðveika kaffihúsgesti og hina líka.
14:00 – Skúli Mennski sturlast og stekkur uppá svið til að trufla lýðinn við kaffidrykkju.
14:30 – Skáldið Hylur Hörður Þóruson ljóðast allur upp og hreytir út úr sér ljóðum úr bók sinni „Myrkrið var haft fyrir rangri sök“.
15:00 – María Ólafssdóttir ásamt hressum félögum missir sig með silkimjúkri rödd sinni til að afstressa kaffigesti.
16:00 – Héðinn Unnsteinsson bregður sé í úlfslíki og les kafla úr hinni nýútkomnu bók sinni „Vertu Úlfur“.
Ragnheiður Eiríksdóttir
ragga@dv.is
14:02 › 2. maí 2015