Góðan daginn!
Við viljum bjóða öllum ungmennum á aldrinum 18–30 ára hjartanlega velkomin í opið hús hjá Hugarafli vikuna 25.–29. nóvember!
Fræðsluvikan er tileinkuð geðheilbrigðismálum, valdeflingu og bata.
Við bjóðum upp á fjölbreytta dagskrá sem inniheldur fyrirlestra, vinnustofur og opnar umræður þar sem hægt er að fræðast, spyrja og ræða mikilvæga þætti sem snerta andlega heilsu.
Við hverju má búast?
- Fræðslur og umræður um geðheilbrigði og hvernig við getum stutt hvort annað.
- Kynningar á úrræðum og félagasamtökum sem leggja áherslu á bætt lífsgæði.
- Reynslusögur frá félagsmeðlimum sem hafa gengið bataveginn.
- Vinnustofur um valdeflingu, sjálfsvörn og fjármálalæsi.
Veitingar í boði og þátttaka er ókeypis.
Við erum staðsett í Hugarafli, Síðumúla 6, Reykjavík. Þú þarft ekki að skrá þig fyrirfram (nema á einn viðburð, nánar í viðburðalýsingu) – bara mæta og taka þátt í því sem þér þykir áhugavert!
Hér fyrir neðan má sjá dagskrána með tímasetningum og lýsingum á hverjum viðburði.
Við hlökkum til að sjá ykkur!
Nánari lýsingar á dagskránni:
Mánudagur 25. nóvember
Bati – Grétar Björnsson
Grétar starfar við stuðning og fræðslu í Hugarafli. Hann er menntaður geðheilsufélagsfræðingur sem nýtist honum í starfinu en hann notar einnig eigin reynslu af andlegum áskorunum í starfi sínu.
Í fyrirlestrinum verður farið ítarlega í hugmyndafræði Bata, sem Hugarafl vinnur eftir, gildi samtakanna og þær áherslur sem þau starfa eftir.
Drekasmiðja – Thelma Ásdísardóttir
Thelma er sérfræðingur í afleiðingum áfalla og ofbeldis og nýtir einnig eigin reynslu í starfi sínu í Hugarafli.
Thelma mun ræða tengsl áfalla og ofbeldis við afleiðingar auk þess sem hún mun kynna fyrir okkur starfið sem fer fram í Drekasmiðju, en það er hópur sem Thelma stýrir í Hugarafli.
Valdefling – Auður Axelsdóttir
Auður mun fjalla um valdeflingu sem er hugmyndafræði Hugarafls. Valdefling er að mati Auðar lífsstíll sem m.a. byggir á hugsjónabaráttu, mannréttindum og virðingu fyrir okkur sjálfum og hverjum og einum samferðamanni okkar. Fræðist um áherslur og mikilvægi valdeflingar í lífi okkar allra.
Kynning og reynslusögur – Unghugar Hugarafls
Við bjóðum ykkur velkomin í kynningu á Unghuga starfsemi Hugarafls, þar sem við munum fara yfir markmið hópsins og hvernig hann styður ungt fólk í átt að bættri geðheilsu.
Að kynningunni lokinni verður opið spjall, þar sem þátttakendur geta spurt út í hvað sem er tengt hópnum, starfseminni eða þeim úrræðum sem við bjóðum upp á.
Við munum einnig deila reynslusögum félagsfólks sem hafa gengið bataveginn og segja frá því hvernig þátttaka í hópnum hefur hjálpað þeim í lífinu.
Komdu og taktu þátt í samtali um valdeflingu, bata og möguleikana sem Unghugar bjóða upp á!
Þriðjudagur 26. nóvember
Bjarkarhlíð
Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið er að veita stuðning, ráðgjöf og fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis.
Bjarkarhlíð býður áfallamiðaða ráðgjöf, stuðning og upplýsingar fyrir þolendur ofbeldis af öllum kynjum, 18 ára og eldri.
Samtökin 78
Samtökin ’78 eru félag hinsegin fólks á Íslandi. Samtökin eru hagsmuna- og baráttusamtök og málsvari hinsegin fólks á Íslandi. Samtökin ’78 sinna einnig umfangsmikilli fræðslustarfsemi, starfrækja fjölbreytt félagsstarf og félagsmiðstöð fyrir ungt fólk sem og ráðgjafaþjónustu og stuðningshópa fyrir hinsegin fólk og aðstandendur þeirra.
Í erindinu verður fjallað um hinseginleikann og ólíka hópa undir hinsegin regnhlífinni. Við útskýrum helstu hugtök og förum yfir orðnotkun og hinseginleika í tungumálinu. Loks skoðum við saman uppbyggingu fordóma, hvað við getum gert og þjónustu Samtakanna ’78 auk þess að hafa góðan tíma fyrir umræður og spurningar.
Slagtog – fyrri hluti (skráning)
Slagtog eru femínísk félagasamtök stofnuð árið 2019 sem kenna konum og hinsegin fólki femíníska sjálfsvörn. Þeir leggja áherslu á að gera sjálfsvörn að hluta af baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og mismunun.
Námskeiðið er haldið í tveimur pörtum, á þriðjudag og föstudag. Æskilegt er að þau sem skrá sig mæti í bæði skiptin.
ATHUGIÐ að það þarf að skrá sig á námskeiðið, sendið póst á hugarafl@hugarafl.is
Miðvikudagur 27. nóvember
Píeta samtökin
Píeta samtökin veita þjónustu fyrir fólk með sjálfsvígshugsanir, sjálfsskaða og aðstandendur. Fræðslan fjallar um hugmyndafræði Píeta samtakanna, meðferðina sem boðið er upp á, mikilvægi sjálfsvígsforvarna, áhættuþætti og viðvörunarmerki fyrir sjálfsvíg ásamt hjálplegum bjargráðum.
Félagslegir töfrar
Við fáum góða heimsókn frá Viðari Halldórssyni, prófessor í félagsfræði. Hann verður með fyrirlestur um félagslega töfra, mikilvægi tengsla og áhrif tæknivæðingar á félagsleg samskipti.
Fimmtudagur 28. nóvember
Fjármálalæsi
Inga Jóna Óskarsdóttir, viðurkenndur bókari, leiðir fræðslu um fjármálalæsi með áherslu á tekjuskatt, persónuafslátt, lífeyrissjóði, vaxtavexti, og fleira. Fræðslan byggist á virkri þátttöku og er hönnuð til að hjálpa þátttakendum að skilja og stjórna eigin fjármálum.
Stígamót – Sjúkást
Stígamót fjalla um heilbrigð og óheilbrigð sambönd með áherslu á ofbeldi, kynferðisofbeldi, mörk og samþykki. Fræðslan snertir afleiðingar ofbeldis og leiðir til stuðnings við brotaþola og betri menningu í samfélaginu.
Föstudagur 29. nóvember
Geðhjálp
Geðhjálp fjallar um mikilvægi þess að horfa til þess hvaðan fólk kemur frekar en að einblína á „hvað sé að“. Fræðslan leggur áherslu á hvernig hægt er að styðja einstaklinga í átt að bættri líðan með skilningi og aðstoð.
Slagtog – seinni hluti (skráning)
Slagtog eru femínísk félagasamtök stofnuð árið 2019 sem kenna konum og hinsegin fólki femíníska sjálfsvörn. Þeir leggja áherslu á að gera sjálfsvörn að hluta af baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og mismunun.
Námskeiðið er haldið í tveimur pörtum, á þriðjudag og föstudag. Æskilegt er að þau sem skrá sig mæti í bæði skiptin.
ATHUGIÐ að það þarf að skrá sig á námskeiðið, sendið póst á hugarafl@hugarafl.is