Skip to main content
Greinar

Bylting í bata – Raunhæfur möguleiki

By febrúar 20, 2014No Comments

Björg Torfadóttir og Berglind Nanna Ólínudóttir skrifa um geðheilbrigðismál: „Er ekki kominn tími til að skoða aðrar leiðir sem eru betur fallnar til að hvetja notendur til bata?“

ÞESSA dagana er umræða um geðheilbrigðismál ofarlega á baugi í íslensku þjóðfélagi. Margt hefur verið skrifað um þennan málaflokk og margt sýnist mörgum.
Umræðan úti í hinum stóra heimi hefur snúist um bataferli, hvað hvetur og letur bata hjá geðsjúkum, hvort hið læknisfræðilega módel sem vestræn ríki hafa unnið eftir sé hið eina sanna og svo mætti lengi telja. Þá hefur umræða um lyfjamál verið ríkjandi. Eins og kerfið á Íslandi er í dag er ekki um margar leiðir að ræða í bataferli. Við eigum nokkrar ágætar geðdeildir en því miður virðast þær framleiða fleiri sjúklinga en þær lækna þar sem fólk annaðhvort festist þar inni eða fer inn og út af geðdeild um óákveðinn tíma. Fólk þiggur lyf og bíður eftir að batinn banki upp á. Hér höfum við ekki val um úrræði í samfélaginu eins og nágrannalöndin okkar bjóða upp á. Hér hafa notendur heldur ekki áhrif á þá þjónustu sem þeir fá innan stofnana og þaðan af síður hafa þeir val um meðferðaraðila sinn.
Hugarfarsbreytingar er þörf hjá notendum sem og fagaðilum. Notandinn þarf að gera sér grein fyrir því að til þess að ná bata verður hann að vilja vinna að honum sjálfur. Flestar sálfræðilegar meðferðir stefna að því að notendur lækni sjálfa sig en því miður eru sálfræðingar ekki hluti af hinu almenna heilbrigðiskerfi. Að þessu leyti er það að greinast með alvarlegan geðsjúkdóm svipað því að vera alkóhólisti, þú verður sjálfur að leggja þitt af mörkum til að ná bata.
Hér á landi hefur kostnaður ríkisins og TR aukist ár frá ári vegna lyfja og eru upphæðirnar orðnar óhugnanlegar. Hins vegar sjáum við ekki samsvarandi fækkun öryrkja vegna geðsjúkdóma, heldur sjáum við þær tölur rísa ár frá ári samhliða auknum lyfjakostnaði. Er ekki kominn tími til að skoða aðrar leiðir sem eru betur fallnar til að hvetja notendur til bata, betur fallnar til að skila virkum einstaklingum út í þjóðfélagið og fækka sjúklingum og öryrkjum?
Það má ekki líta framhjá því að reynsla þessara einstaklinga er dýrmæt og er í raun vannýtt auðlind í þjóðfélaginu. Reynsla notenda hefur nýst afar vel í geðheilbrigðisgeiranum annars staðar í heiminum og því ekki hér?
Við höfum tækifæri til að byggja upp frábært geðheilbrigðiskerfi hér á landi ef við stöndum rétt að málunum.
Það hefur sýnt sig að þar sem samfélagið tekur ábyrgð og virkan þátt í geðheilbrigðismálum fækkar innlögnum og lyfjakostnaður lækkar. Samfélagið í heild nýtur góðs af því að hafa þessa einstaklinga virka og reynsla þeirra og þekking á veikindum og bataferli er nýtt á jákvæðan hátt. Þessi þekking veitir tækifæri til að grípa fyrr inn í þegar fólk veikist af geðsjúkdómum í fyrsta sinn og hjálpar einstaklingum í bataferlinu.
Hver þekkir betur hvernig það er að líða illa, að lenda í sálarkreppu eða andlegum erfiðleikum, en einstaklingur sem hefur upplifað það sjálfur?
Í Hugarafli höfum við haft þessa hugsjón að leiðarljósi og höfum unnið eftir hugmyndafræði valdeflingar. Valdefling (empowerment) miðar að því að efla einstaklinginn og hlutverk hans í samfélaginu; efla áhrif hans á eigið bataferli og sýna honum fram á að hann er meira en bara samansafn af einkennum. Einstaklingurinn er ekki sjúklingur um ókomna tíð, heldur getur hann náð fullum bata og orðið fullgildur þátttakandi í samfélaginu ef hann fær tækifæri til þess. Áhrifanna er nú þegar farið að gæta. Notendur eru byrjaðir að hafa áhrif á geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi en betur má ef duga skal.
Hugarafl stendur fyrir ráðstefnu dagana 24. og 25. ágúst næstkomandi. Yfirskrift ráðstefnunnar er Bylting í bata og þar verður fjallað um bata og valdeflingu. Rósin í hnappagatinu verður Judi Chamberlin, bandarískur frumkvöðull í geðheilbrigðismálum. Einnig munu flytja erindi m.a. Þórólfur Árnason, Óttar Guðmundsson og Styrmir Gunnarsson. Ráðstefnunni lýkur með opnum borgarafundi þar sem pallborðsumræður verða undir yfirskriftinni: Er geðheilbrigðiskerfið hugmyndafræðilega gjaldþrota?
Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja alla sem vettlingi geta valdið að mæta á þennan fund. Fundurinn hefst kl. 14.30 föstudaginn 25. ágúst og aðgangur er ókeypis. Þarna fær almenningur tækifæri til að kynna sér nýjustu straumana í geðheilbrigðismálum Íslendinga. Nánari upplýsingar um Hugarafl, ráðstefnuna og borgarafundinn má finna á heimasíðu Hugarafls, www.hugarafl.is eða í síma 414-1550.
Fyrsta stig í bata er að viðurkenna vandann, og vera tilbúinn að leggja eitthvað af mörkum til að ná heilsu að nýju. Annað stig í bata er að taka meðferð og þiggja þá læknisfræðilegu hjálp sem með þarf til að ná tökum á tilverunni. Það þýðir ekki að fólk eigi að gegna skilyrðislaust hverju sem því er sagt að gera, heldur að vinna með fagaðila í því að finna bataleið sem virkar fyrir viðkomandi og sem einstaklingurinn velur og er tilbúinn að vinna eftir.
Vantar túlk!
Höfundar eru starfandi meðlimir í Hugarafli.