Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

Bataskóli: nýju fötin keisarans?

By október 18, 2016No Comments
Opið bréf frá stjórn Hugarafls í kjölfar ráðstefnu Geðhjálpar 11. október sem bar heitið „Hver er galdurinn?“

hugaraflÁ ráðstefnu Geðhjálpar var bataskóli kynntur til sögunnar og sagt frá áætlunum Geðhjálpar, Námsflokka Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar til að stofna slíkt úrræði hérlendis. Hugarafl fagnar allri umræðu um bata af geðrænum veikindum en vill jafnframt varpa ljósi á mikilvæg atriði sem mega ekki gleymast í umræðunni. Bati af geðrænum veikindum er einstaklingsbundið ferli og ólíkt hjá hverjum aðila. Mikilvægt er að virða sjálfræði einstaklingsins, taka mið af sérþekkingu hans á eigin lífi, miðla von og starfa á jafningjagrundvelli. Við þurfum öll frelsi til að velja okkar leið í batanum og eiga fjölmarga spennandi valkosti sem henta okkur.

Bataskólanum er ætlað að vera eitt þessara úrræða þar sem fólk getur sótt námskeið um ýmis málefni tengd bata í tvær annir, 3x í viku og 2 tíma í senn. Okkur þykir miður að í kynningu á bataskólanum voru merki um forræðishyggju og ýmislegt sem vert er að athuga frekar áður en ráðist er í framkvæmdir. Orðræðan var á þann veg að nemendur myndu læra inn á veikindi sín og vinna með sjúkdómseinkenni í skólanum. Einnig átti fólk víst að eiga auðveldara með að sækja þjónustu í skóla í stað þess að leita í aðra hefðbundna þjónustu. Eitt markmiða skólans var að „námið hjálpi fólki“. Hér þykja okkur stofnendur bataskóla á Íslandi vera á villigötum.

Hugarafl hefur starfað samkvæmt batamódeli og valdeflingu í rúm 13 ár og við höfum umtalsverða reynslu af starfi á jafningjagrundvelli. Fólk með reynslu af geðrænum veikindum þarfnast ekki hjálpar miskunnsamra samverja. Notendur búa yfir ómældri innsýn í eigin aðstæður og áskoranir. Einstaklingurinn þarfnast þess ekki að læra sérstaklega inn á sjúkdómsgreiningar heldur fá tækifæri til að endurskilgreina jákvæða sjálfsmynd, leggja áherslu á styrkleika sína og rækta von fyrir framtíðinni. Í hefðbundinni þjónustu hefur verið lögð rík áhersla á veikindi og ýmsa stimpla. Því er oft lykilatriði í bataferli hvers og eins að endurheimta lífssögu sína og losna undan sjúklingshlutverkinu. Okkar reynsla er sú að sjúkdómssaga verður oft til trafala í bataferlinu.

Hugarafl hefur opnað umræðu um fordóma og ranghugmyndir um geðræn veikindi. Fólk á öllum stigum lífs getur veikst og náð bata. Við höfum lagt áherslu á að fólk eigi greiðan aðgang að þjónustu í samfélaginu án þess að þurfa að fara í felur með veikindin. Við viljum samfélag þar sem auðvelt er að leita í þjónustu og einstaklingar þurfi ekki að fara huldu höfði í sérstakan „bataskóla“ til að fela dýrmæta sjálfsvinnu sína.

Einstaklingar með reynslu af geðrænum veikindum eru ekki minni máttar sem fallegt er að hjálpa! Við viljum virðingu en ekki vorkunn. Mikil reynsla er af batamiðaðri nálgun, valdeflingu og starfi á jafningjagrundvelli hérlendis. Af hverju er því sótt í hugmyndir frá Bretlandi sem eru komnar skammt á leið í stað þess að byggja á umtalsverðri reynslu hérlendis? Af hverju ættum við að vilja sérstakan „bataskóla“ í stað þess að fólk leiti sér einstaklingsmiðaðrar þjónustu og stundi svo nám sitt í hefðbundnu skólakerfi líkt og allir aðrir? Viljum við afmarka bataferli einstaklinga við tvær annir og örfá námskeið? Er verið að einfalda og gera lítið úr þeirri gríðarlegu vinnu sem hver einstaklingur hefur lagt á sig til að ná bata?

Við teljum að ráðist hafi verið í stofnun bataskóla án þess að horfa gagnrýnum augum á hugmyndina. Á Íslandi eru fjölmargir aðilar sem starfa samkvæmt hugmyndafræði bata, valdeflingar og jafningjagrunns. Á málþinginu var batamiðaðri nálgun hampað sem glænýrri hugmynd og bataskóli átti að vera hin nýja lausn á geðrænum veikindum. Umræðan minnti einna helst á söguna um nýju föt keisarans þar sem enginn vildi vera sá fyrsti til að benda á hvernig var raunverulega í pottinn búið. Hreint út sagt eru Íslendingar komnir lengra á veg með batamiðaða nálgun og í upprætingu fordóma fyrir geðrænum veikindum. Við viljum ekkiafturhvarf til fyrri tíma.

Fyrir hönd stjórnar Hugarafls,

Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður
Nanna Þórisdóttir, gjaldkeri
Auður Axelsdóttir
Árni Steingrímsson
Eysteinn Sölvi Guðmundsson
Sigurborg Sveinsdóttir
Þóra Kristín Stefánsdóttir