Skip to main content
Fréttir

Ályktun aðalfundar Iðjuþjálfafélags Íslands vegna GET

By apríl 5, 2018No Comments

Aðalfundur IÞÍ, haldinn 27.3.2018, lýsir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) að leggja niður GET – Geðheilsu – Eftirfylgd, samfélagslega geðþjónustu þar sem teymi fagfólks og notenda sinnir batahvetjandi stuðningi við einstaklinga og fjölskyldur. Forvarnir, endurhæfing, eftirfylgd, vinna með aðstandendum, fræðsla og ráðgjöf í bataferli hafa verið áherslur í þjónustu GET frá upphafi árið 2003 og hverjum einstaklingi er mætt út frá eigin forsendum. GET hefur starfað samhliða frjálsu félagasamtökunum Hugarafli. Hugarafl var stofnað í júní 2003 af iðjuþjálfa með víðtæka reynslu af geðheilbrigðismálum og notendum í bata. Geðheilsa-Eftirfylgd og Hugarafl starfa samkvæmt hugmyndafræði valdeflingar (empowerment) og batamódels (PACE, personal assistance in community existence). Lögð er áhersla á að greina hvað virkar í bataferlinu og hvað ekki, vinna á forsendum hvers og eins einstaklings, ásamt því að byggja upp tengslanet sem styður við notandann. Þjónustan er opin og einstaklingur getur tekist á við bataferli sitt í þann tíma sem þarf.

Fundurinn harmar að þessi faglega uppbygging, nýsköpun og frumkvöðlastarf sem borið hefur góðan árangur og hefur hlotið verðskuldaða viðurkenningu og athygli innanlands sem utan, sé nú að engu gert með því að leggja GET niður. Ekki er hægt að sjá að með þeirri starfsemi sem áformað er að komi í staðinn sé með sama hætti gert ráð fyrir endurhæfingu og þjónustu iðjuþjálfa, né virku samstarfi við notendur og uppbyggingu styðjandi tengslanets. Fundurinn hvetur stjórnvöld til þess að tryggja að GET starfi áfram og að GET og Hugarafl fái tækifæri til að vinna áfram saman undir öðru rekstrarformi. Hér er kjörið tækifæri fyrir stjórnvöld að standa við orð sín um að lögð verði áhersla á geðheilbrigðismál.