Skip to main content
Greinar

ÁFÖLL – SKIPTA ÞAU MÁLI?

By maí 13, 2016No Comments

Þekkingu fleygir fram um áhrif áfalla á heilsu og velferð einstaklinga, ekki aðeins sálræna heilsu heldur einnig líkamlega. Þessi áhrif áfalla hafa misjafnt vægi eftir eðli áfallsins og aldri þess sem lendir í því, auk þess sem viðbrögð við áfallinu og stuðningur við þolanda gegnir lykilhlutverki. Rannsóknir sýna að úrvinnsla eftir áfall skiptir gríðarlegu máli til að koma í veg fyrir eða minnka neikvæð áhrif á heilsufar þolandans.

Gunnlaug Thorlacius
Gunnlaug Thorlacius
Anna María Jónsdóttir
Anna María Jónsdóttir

Þegar rætt er um áföll dettur mörgum í hug válegir atburðir eins og náttúruhamfarir eins og eldgos og jarðskjalftar, slys eða ofsaveður. Á vefsíðu Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra kemur fram að:

„Rannsóknir hafa sýnt að börn sem upplifa válega atburði áður en þau ná 11 ára aldri eru allt að þrisvar sinnum líklegri til að þróa með sér sálræn einkenni heldur en börn sem upplifa slíka reynslu í fyrsta sinn á táningsaldri eða síðar á ævinni.“

En áföll eins og Ríkislögreglustjóri skilgreinir þau eru ekki í hópi algengustu áfalla sem fólk verður fyrir í bernsku.

ACE rannsóknin, Adverse Childhood Experiences,  sem gerð var í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna á árunum 1995-1997, er ein umfangsmesta rannsókn á afleiðingum áfalla í bernsku sem gerð hefur verið. Niðurstöður hennar sýndu að 10 algengustu áföll sem fólk verður fyrir í bernsku eru áföll sem barn verður fyrir í nánum tengslum og innan veggja heimilisins (sjá:http://www.cdc.gov/violenceprevention/acestudy/about.html). Áföll s.s. heimilisofbeldi, fíknisjúkdómur eða geðrænn sjúkdómur í fjölskyldum, skilnaðir foreldra, fangelsun, tilfinningaleg eða líkamleg vanræksla, tilfinningalegt, líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi, eru öll á listanum yfir þessi 10 algengustu áföll í bernsku. Rannsóknir sýna einnig að börn yngri en þriggja ára eru líklegust til að verða fyrir ofbeldi. Þetta hefur verið kallað hinn þögli faraldur.

Þessi rannsókn hefur nú verið endurtekin með stærra úrtaki í Bandaríkjunum (440 þúsund einstaklingar)  og í fleiri löndum sem staðfestir línulegt samband milli fjölda slíkra áfalla í bernsku og geðræns og líkamlegs heilsufarsvanda síðar á ævinni.

Sem dæmi um afleiðingar þess að hafa orðið fyrir 4 eða fleiri slíkum áföllum í bernsku þá aukast líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, langvinnum lungnasjúkdómum, áhættuhegðun, geðröskunum og ótímabærum dauða. Ef áföllin eru 6 eða fleiri styttist ævin um 20 ár.

Því er ljóst að áföll hafa ýmiskonar langtímaáhrif og hafa djúpstæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu, jafnvel þó áfallið sjálft sé gleymt eða ekki í meðvitund einstaklingsins.  Atburðir í daglegu lífi geta verkað sem kveikja og valdið því  þessi áföll, sem hafa veikt viðkomandi, geta opnast upp eins og kvika og valdið miklu sálarangri sem fólk á erfitt með að takast á við. Sorg vegna ástvinamissis eða jafnvel sambandsslita geta því framkallað djúpan sársauka frá því í bernsku og birst í mikilli vanlíðan sem í fyrstu gæti virst mun meiri en tilefnið í fljótu bragði virðist gefa tilefni til  og í litlu samræmi við (og mun meira en)  það áfall sem viðkomandi hefur orðið fyrir.

Það er mjög mikilvægt að starfsmenn heilbrigðiskerfisins séu vakandi fyrir þessu og taki það alvarlega þegar fólk leitar sér aðstoðar eftir hvers konar áfall. Þau viðbrögð sem fólk sýnir við áfalli geta átt sér djúpar rætur og valdið miklum sársauka þrátt fyrir að síðara (og nýlegra) áfallið virðist ekki gefa tilefni til þess.

Það er dýrkeypt fyrir samfélagið og einstaklinga/börn innan samfélagsins að taka ekki alvarlega afleiðingar áfalla, sérstaklega þeirra sem verða á barnsaldri.

Snemmtæk inngrip þurfa ekki að vera flókin eða dýr fyrir samfélagið. Það hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að ef heilbrigðisstarfsfólk mætir skjólstæðingum sínum af skilningi og samúð og gefur þeim tíma til að tjá sig um vandann eða áfallið, minnkar þörfin fyrir dýrari meðferð, s.s. bráðaþjónustu og innlagnir.

Á meðan nauðsynlegt er að halda hugtökum eins og áfallastreitu til haga og passa að gjaldfella þau ekki þá er ekki síður mikilvægt að huga að þeim ómeðvituðu sálrænu ferlum sem geta átt sér stað innra með fólki þegar áföll úr bernsku eru endurvakin. Áhugi blaðamanna á áfallasögum fólks hefur verið að aukast á undanförnum árum og svo virðist sem harmur almennings sé orðinn söluvara. Þó svo að sögur af persónulegum áföllum selji blöð er ekki þar með  sagt að allar harmsögurnar eigi erindi  við almenning. Best er að aðgengi að sérfræðiþjónustu sé gott þar sem hægt er að vinna með áföllin í tilfelli hvers og eins. Mikil vakning hefur átt sér stað undanfarið undir formerkjunum „ég er ekki tabú“ þar sem yngra fólk hefur lagt áherslu á að opna umræðuna um áföll og hvers konar misbeitingu. Kynslóðin sem bar harm sinn í hljóði gæti kannski lært sitthvað af þeim sem kjósa að vera ekki tabú.

Eftir Gunnlaugu Thorlacius félagsráðgjafa og Önnu Maríu Jónsdóttir geðlækni.