Skip to main content
Greinar

Að vera barn á BUGL

By júní 23, 2014No Comments

Tveimur mánuðum fyrir 15 ára afmælið mitt fékk ég heiftarlegt kvíðakast og þufti að leggjast inn á geðdeild í fyrsta skipti. Þar sem kvíðakastið átti sér stað um kvöld þá var ég send á fullorðinsgeðdeildina eina nótt. Þetta var árið 2005.

Á fullorðinsgeðdeildinni var reynt að hughreysta mig. Mér var bent á gamla konu sem ráfaði um ganginn og mér sagt að þessi kona kæmi til þeirra tvisvar á ári og væri á geðdeildinni nokkrar vikur í senn. Mikið var reynt til að sannfæra mig um að það væri fínt líf að vera kippt út úr samfélaginu reglulega til að eyða stund á geðdeild. Ég sannfærðist ekki betur en svo að ég svaf ekki dúr um nóttina, lá uppi í rúmi í kápunni hennar mömmu og skalf og grét úr hræðslu. Mér fannst lífinu lokið á þessari stundu.

Eldsnemma um morguninn komu tveir starfsmenn af BUGL og náðu í mig og færðu mig yfir á BUGL. Ég var ekki búin að dvelja þar nema í um tvær klukkustundir þegar mér var rétt seroquel.

Í lyfjabókinni stendur m.a. um þetta lyf:

Lyfið er sefandi og er notað til að meðhöndla geðklofa. Það hefur áhrif á mörg boðefni í heila eins og serótónín og dópamín. Lyfið er óvenjulegt sefandi lyf og notkun þess fylgja vægar hreyfitruflanir sem líkjast einkennum parkinsonsveiki og ósjálfráðra hreyfinga. Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 18 ára!

Á þeim tíma sem ég var á BUGL voru flestir sem voru vistaðir þar settir á þetta lyf þrátt fyrir að allir sem þar dvelja séu undir 18 ára aldri.

Eins og gefur að skilja þá versnuðu mín einkenni um leið, enda algengar aukaverkanir af lyfinu skapstyggð, óeðlilegir draumar, martraðir, sjálfsvígshugsanir og -hegðun, ofhiti, breytt andlegt ástand, vöðvastífni og ósjálfráður óstöðugleiki. Þegar þessi einkenni aukast er það undantekningarlaust tengt því að sjúkdómurinn sé að versna hjá viðkomandi barni.

Það er ekki að því er virðist hugsað til þess að þetta séu hugsanlega aukaverkanir lyfja. Lausnin er í mörgum tilfellum aukin lyfjaskammtur og fleiri tegundir af lyfjum til að sporna við ,,þróun sjúkdómsins“.

Einnig hafa flest geðlyf á markaðnum aukaverkunina, aukin matarlyst, sem leiðir nánast undantekningarlaust til aukinnar þyngdar.

Það að vera 15 ára, þyngjast um rúmlega 20 kíló á 10 mánuðum var ekki til að auka á vellíðan mína. Ég var öll í húðslitum vegna þess að ég þyngdist svo hratt. Maginn var slitinn eins og ég hefði gengið með þrjú börn, handleggirnir, lærin og brjóstin voru öll í slitum og mér leið eins og skrímsli á þessum tíma. Það tók mig mörg ár og þrotlausa vinnu að losna við hatrið sem ég byggði upp gagnvart mínum eigin líkama.

Á BUGL fór fram meðferð sem gagnaðist sumum en því miður ekki öllum. Jú, við vorum vakin og látin fara í skólann, borða morgunmat og gerðum ýmis verkefni og fórum í vettvangsferðir, horfðum á sjónvarp og fórum einstaka sinnum í bíó. Sálfræðitímar voru ekki margir en það var reyndar misjafnt eftir einstaklingum. Sumir fengu að fara í listmeðferð en alls ekki allir. Ég var ein af þeim sem vildi slíka meðferð en fékk ekki þar sem læknarnir töldu mig ekki geta nýtt mér þá meðferð (því gat ég aldrei verið sammála).

Á hverjum degi vorum við send í grúppu þar sem við vorum látin sitja í hring og ræða verkefni sem okkur höfðu verið úthlutuð deginum áður. Þessi verkefni voru þess eðlis að á hverjum degi þurftum við að opinbera okkar innstu tilfinningar fyrir öllum þeim krökkum sem voru inná BUGL-i þá stundina.

Ef við gerðum það ekki fengum við ekki að færast upp um stig. Eftir því sem við færðumst upp um stig fengum við aukið „frelsi“. Ég get ekki sagt að frelsið hafi verið mikið á efsta stigi enda lagði ég mig aldrei sérstaklega fram um að komast þangað.

Lyfjagöf virtist vera vinsælust í meðferð okkar barnanna sem voru inni á BUGL. Nú myndi einhver segja að það sé ekki hægt að neyða neinn til lyfjatöku en það er bara ekki rétt. Aðferðin sem þau notuðu til að þröngva lyfjunum upp á mann var svívirðileg að mínu mati. Ef þú tókst ekki lyfin fékkstu ekki að taka þátt í dagskránni!

Þú neyddist þá til að hanga inni í herbergi eða einn inni á deild ef eitthvað var í gangi, útivera var semsagt óhugsandi ef þú vildir ekki taka lyfin sem læknirinn skrifaði upp á.

Ég man ekki eftir því að hafa hitt lækninn oft á meðan ég var í innlögn en þrátt fyrir það tók hann sér það leyfi að hækka skammtinn á lyfjunum, jafnvel þótt hann hefði ekkert hitt mig frá því hann hækkaði skammtinn við mig síðast.

Hann fékk vitneskju sína um „versnun“ í gegnum rapport þau sem starfsmenn skrifuðu eftir hverja vakt.

Eftir útskrift var þeim sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu boðið uppá svokallaða „eftirmeðferð“, mér var aldrei boðið upp á hana þar sem ég bjó út á landi.

Ég var send heim með stórt box af lyfjum og sagt að bíta á jaxlinn og koma á hálfsmánaðar fresti í bæinn og hitta sálfræðing í hálftíma. Í þessum tímum fékk ég oftar en ekki að vita að læknirinn hefði hringt og beðið um hækkun á lyfjaskammti. Enn þann dag í dag get ég ómögulega skilið hvaðan læknirinn fékk þá vitneskju að unglingur sem hann hitti nánast aldrei hefði þörf fyrir meiri lyf.

Því miður urðu innlagnir mínar á BUGL heldur margar þar sem mér versnaði með hverju skiptinu sem ég lagðist þar inn. BUGL er ekki alslæmt, þar vinnur fólk sem virkilega reynir að hjálpa þeim börnum sem þangað koma en til þess að geta sinnt þeim eins og best er á kosið skortir fjármagn og betra skipulag. Því miður er hópurinn sem fer verr út úr veru sinni þar heldur stór. Margir hafa aldrei náð sér en það má ekki gleyma að þeir eru fjölmargir sem ná fullri heilsu eftir veru á BUGL.

Það sem ég er að reyna segja er það, að setja öll þau börn sem koma inná BUGL á lyf, getur þó ekki verið rétt. Miðað við fjöldann af börnum sem fara í gegnum þessa stofnun og biðlistana sem sífellt lengjast þá getur tölfræðin ekki staðist. Það skortir fleiri úrræði og læknar hafa ekki alltaf rétt fyrir sér.

Rétt áður en ég varð 21 árs tók ég ráðin í mínar hendur og sagði stopp á frekari lyfjagjöf. Fyrir mig var það rétti hluturinn í stöðunni þar sem ég hafði reynt lyf í 6 ár en sífellt hrakað. Þrátt fyrir að ég hafi tekið þessa ákvörðun dreg ég ekki í efa að það eru margir sem þurfa á lyfjameðferð að halda til að ná sér og lifa eðlilegu lífi.

Linda Björg Arnheiðardóttir

http://kvennabladid.is/2014/06/23/ad-vera-barn-a-bugl/