ÞAÐ VERÐUR að teljast athyglisvert að geðlæknar létu ekki sjá sig á málþinginu,“ segir Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi hjá Hugarafli, um málþing sem haldið var nýverið og fjallaði um þróun samfélagsgeðþjónustu á Íslandi. Auður segir þátttökuna hafa verið gríðarlega góða og að miklar umræður hafi skapast.
„Það kom saman blandaður hópur aðstandenda, notenda, fagfólks og ráðamanna til að ræða þessi mál en auk þess miðlaði fagteymi frá Danmörku af reynslu sinni,“ segir Auður, en Jóhanna Erla Eiríksdóttir, iðjuþjálfi, hinn skipuleggjandi málþingsins, stýrir því fagteymi í Kaupmannahöfn.
„Danirnir sögðu aðdáunarvert hversu vel hefði tekist til hjá Hugarafli við að vinna á jafningjagrundvelli og af virðingu gagnvart skjólstæðingunum,“ segir Auður. Hugarafl er hluti af eftirfylgdarstarfi við geðheilsumiðstöð sem heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og styðst við svokallaða „empowerment“ hugmyndafræði, eða valdeflingu. Sú hugmyndafræði miðast við að styrkja sjálfstraust einstaklingsins, efla hann í ákvarðanatöku og valdi á eigin aðstæðum. Taka þarf tillit til þarfa skjólstæðinganna, að þeir fái tækifæri til að velja leiðir til bata á eigin forsendum og hafna öðrum ef þeir vilja.
„Það er engin ein leið í bataferli og sveigjanleiki er nauðsynlegur. Við verðum að fara út úr rammanum og brjóta reglurnar!“ segir Auður. Hún segir að valdabarátta fagstéttanna sé enn of mikil og að slíkt henti alls ekki í vinnu með geðsjúkum eða aðstandendum þeirra. Mikilvægt sé að henda fagkápunni, hætta að hólfa fagstéttirnar niður og fara að ræða meira saman um leiðir til bættrar þjónustu. „Því þjónustan snýst ekki um okkur fagfólkið, heldur gæði og samstarf við þá sem þurfa hjálpina,“ segir Auður.
Heilsugæslan útskrifar ekki „Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af hugmyndafræði valdeflingarinnar og hún er í samhljómi við forsendur heilsugæslunnar,“ segir Lúðvík Ólafsson, lækningaforstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem sat málþingið.
Lúðvík segir aðferðir frumþjónustunnar nokkuð öðruvísi en aðferðir á öðrum stigum heilbrigðiskerfisins, „þú útskrifast aldrei úr heilsugæslunni og heildarmyndin er því til í bakgrunninum. Það virðist kannski ekki dramatískur munur á því hvort farið er upp á geðdeild Landspítalans eða á heilsugæslustöðina í hverfinu til að leita sér aðstoðar. Munurinn er þó töluverður,“ segir Lúðvík.
Hann segir mikilvægt að margir og fjölþættir aðilar komi að geðheilbrigðismálum, „þó ekki sé grundvöllur fyrir að hafa slíkt á hverri heilsugæslustöð, en þó á einhverjum þeirra,“ segir Lúðvík. Tekist hafi að skapa eitt þverfaglegt teymi í heilsugæslunni í Grafarvogi auk þess sem sálfræðingar starfi með læknum og hjúkrunarfræðingum annarsstaðar. „Þetta er grundvallaratriði varðandi geðfötlun því vandamálin verða svo fjölþætt og snerta m.a. fjölskylduna, atvinnu og vinnustað, vandinn er mun fjölþættari en þegar um aðra sjúkdóma er að ræða,“ segir Lúðvík.
Fagfólk allt af vilja gert„Það er gott þegar fólk sest niður og ræðir saman, slík vinna skilar alltaf miklu,“ segir Soffía Gísladóttir, verkefnisstjóri Straumhvarfa, eflingar þjónustu við geðfatlaða, á vegum félagsmálaráðuneytisins.
„Ef við fellum fagmúrana þá erum við alltaf að vinna með skjólstæðinginn í huga,“ segir Soffía.
Hún segir að áhersla á þverfaglega vinnu færist í aukana, mikilvægt sé að fólk festist ekki á sínu sviði. „Fagfólk er allt af vilja gert og við höfum séð múra falla í auknum mæli á síðustu árum,“ segir Soffía. Hún segir jafnframt að vaxandi áhersla sé á að aðstoða fólk í eigin umhverfi „við í Straumhvarfa-verkefninu erum enn í „steypuvinnunni“ þ.e. að koma fólki í hús. Þegar þeirri vinnu lýkur munum við horfa á samfélagsuppbygginguna og virkni geðfatlaðra þar og í þeirri vinnu munum við vissulega taka tilliti til hugmynda valdeflingarinnar sem hefur gefið góða raun,“ segir Soffía.
Í hnotskurn:
» Í vinnusmiðjum málþingsins kom m.a. fram að nýta þyrfti þekkingu notenda og aðstandenda við stefnumótun.
» Þjónustan þyrfti í auknum mæli að fara fram á heimavelli, hún yrði að vera aðgengileg og einföld.
» Vinna þyrfti á fordómum heilbrigðisstétta í garð geðsjúkra og stofna þverfagleg teymi.