Skip to main content
Fréttir

Yfirlýsing frá Unghugum í Hugarafli

By mars 4, 2018mars 7th, 2018No Comments

Við erum virkur hópur ungs fólks á aldrinum 18-30 ára í Hugarafli.

Hugarafl er eitt af fáum úrræðum á Íslandi sem er okkur algjörlega að kostnaðarlausu, þar sem enginn biðtími er eftir fullri þjónustu og engar kröfur eru gerðar um einhverskonar geðgreiningu til þess að fá aðgang að þjónustu og virkni.

Í Hugarafli fáum við tækifæri til þess að vinna í okkar bata í kraftmiklum hópi, þar sem jafningagrunnur er í algjöru fyrirrúmi og unnið er eftir batamiðaðri og valdeflandi nálgun. Þar sem Hugarafl eru notendastýrð félagasamtök fáum við tækifæri til þess að hafa áhrif á og móta starfsemina sem lið í bataferlinu okkar.

Fjölmargir Unghugar hafa nýtt sér þjónustu Geðheilsu – Eftirfylgdar (GET) samhliða því að stunda virkt starf innan Hugarafls. GET og Hugarafl starfa einstaklega vel saman og hafa skilað verulega miklum árangri! Raunverulegum bata! Búið er að ákveða að leggja GET niður. Þetta þykir okkur mikill missir því hvergi á landinu er til sambærileg þjónusta.

Einnig skal tekið fram að þau okkar sem hafa lögheimili annarsstaðar en á höfuðborgarsvæðinu eða erum skráð Óstaðsett í húsi í þjóðskrá, föllum á milli kerfa annarsstaðar og munum ekki hafa aðgang að sambærilegri þjónustu.

Einnig mun þessi ákvörðun hafa alvarleg áhrif á rekstrargrundvöll Hugarafls þar sem að við missum húsnæðið og höfum ekki fengið fjármagn til að leigja húsnæði annarsstaðar. Að auki höfum við ekki fengið tryggt rekstrarfé, getum ekki ráðið inn starfsmenn né viðhaldið núverandi starfsemi í óbreyttri mynd.

Hvað þýðir það fyrir okkur ef Hugarafl lokar?

  • Við missum jafningastuðning og félagsskap
  • Þeir sem eru á endurhæfingalífeyri og eru að byggja sig upp til að halda áfram í skóla eða vinnu, munu missa endurhæfingasamninga!
  • Fjölmörg ungmenni verða skilin eftir í óvissu sem mun hafa alvarleg áhrif á bataferli þeirra
  • Dregur kjark og þrek úr nýjum notendum
  • Verulega íþyngjandi fyrir einstaklinga í sínu bataferli og getur valdið alvarlegum bakslögum
  • Stór fjöldi okkar hefur reynt ýmiss úrræði áður innan geðheilbrigðiskerfisins en ekki fundið árangur sem skyldi fyrr en komið var í Hugarafl!
  • Sum okkar nýtum okkur einnig flotta þjónustu annarsstaðar en sú þjónusta hefur virkað vel vegna samstarfs og stuðnings Hugarafls.
  • Við fáum ekki sambærileg tækifæri sem okkur hefur boðist í Hugarafli annarsstaðar. Til dæmis að fá að leiða hópa, taka þátt í geðfræðslu Hugarafls, skipuleggja erlend verkefni, mæla á málþingjum og ráðstefnum, leiða og skipuleggja vinnustofur og margt fleira þar sem við nýtum okkar hæfileika og reynslu til góðs.

Eins og staðan er í dag, þá erum við á milli ráðuneyta og enn hefur engin verið reiðubúin til að grípa Hugarafl og GET og taka ábyrgð.

Okkur langar að auðvelda ykkur þessa ákvörðun til að tryggja framtíð uppbyggjandi starfsemi fyrir ungt fólk sem og aðra Íslendinga.

Við viljum því bjóða Alþingismönnum, ráðherrum og samstarfsaðilum þeirra velkomna á Unghugafund til að kynna sér það valdeflandi starf sem fer fram innan Hugarafls.

Vinsamlega hafið samband, þegar þið viljið grípa þetta tækifæri og koma á fund. Hægt er að senda tölvupóst á Formann Unghuga, Fanneyju Ingólfs í fanney@hugarafl.is eða óska eftir henni í síma Hugarafls 414-1550.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Virðingarfyllst,
Unghugar

Unghugar í Hugarafli taka vel á móti gestum! Á myndinni eru borgarstjóri og þjálfarar á vegum Erasmus+ ásamt öflugum hópi Unghuga.