Skip to main content
Fréttir

Útrýma ofbeldi í garð geðsjúkra

By janúar 22, 2014No Comments

hugaralf fundur 2

Eva Bjarnadóttir Fréttablaðinu/visir.is skrifar:

Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og varaformaður Geðhjálpar, telur að nauðung og ofbeldi eigi ekki rétt á sér í meðferð geðsjúkra. Hann var sjálfur nauðungarvistaður fjórum sinnum á níunda áratugnum. Hann vonar að ráðstefna Geðhjálpar geti orðið fyrsta skrefið í átt að því útrýma ofbeldi og niðurlægjandi meðferð í garð geðsjúkra.

„Nú er orðið langt um liðið síðan ég upplifði þetta síðast eða nærri 30 ár. Það var í janúar 1985,“ rifjar Sveinn Rúnar upp. „Við komuna á deildina var ekkert talað við mig heldur strax kallaðir til sex til sjö gæslumenn af öllum deildum. Þeir tóku mig strax með valdi, felldu mig í gólfið og sprautað var í mig lyfi. Skammtarnir af Haldoli voru fjórfaldir á við það sem nú þykir ráðlegt,“ segir hann.

Sveinn Rúnar segir að þótt margt hafi breyst til batnaðar viðgangist þetta ofbeldi enn, þvinguð lyfjagjöf, þegar sjúklingar neita þeirri lyfjagjöf sem læknar ákveða. Með sérhæfðri þjálfun þyki nú nóg að láta þrjá til fjóra starfsmenn halda sjúklingi.

Á þessum árum gerðu lög ráð fyrir að geðsjúkir þyrftu að vera hættulegir sjálfum sér eða öðrum svo réttlæta mætti nauðungarvistun. „Ég hef aldrei slegið til nokkurs manns eða gert tilraunir til þess að skaða sjálfan mig. Þannig að lögin áttu aldrei við um mig,“ útskýrir Sveinn Rúnar. Lögunum var síðar breytt og nú nægir að einstaklingur sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða sé í ástandi sem jafnist á við alvarlegan geðsjúkdóm.

Sveinn Rúnar segist sannfærður um að vilji sé til breytinga, en ólík sjónarmið séu um hvort hægt sé að koma algerlega í veg fyrir nauðung í geðlækningum. „Ég tel að með breyttri löggjöf, viðhorfum og þjálfun sé hægt að útiloka nauðung og ofbeldi í geðheilbrigðiskerfinu,“ segir Sveinn Rúnar, sem vonar að ráðstefna Geðhjálpar geti orðið til þess að efla mannréttindi og mannvirðingu, sem er grundvöllur góðrar meðferðar.

Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI.
Engin vísindi sem styðja nauðung
Geðhjálp heldur ráðstefnu um sjálfræðissviptingar, nauðung og valdbeitingu í heilbrigðisþjónustu á Grand Hóteli á fimmtudag. „Við höldum ráðstefnuna svo fólki verði ljóst hvernig þessum málum er háttað. Þetta er ekki einhliða mál kerfisins, og það eru engin vísindi sem styðja þessar aðferðir. Hins vegar er til fjöldi rannsókna sem sýna hversu slæm áhrif nauðung hefur,“ segir Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar, sem kallar eftir breyttum vinnubrögðum og segir að nýta megi betur reynslu þeirra sem gengið hafa í gegnum nauðungarvistun.