Fréttir

Unghugar ljúka námskeiði í andlegri endurlífgun (eCPR)

By maí 11, 2016 No Comments
1-IMG_7819

Einar og Fríða með öflugum Unghugum í lok eCPR námskeiðsins.

Það hefur verið gríðarmikill kraftur í starfi Unghuga á undanförnum vikum og mánuðum í Hugarafli.  Margir tóku virkan þátt í undibúningi og framkvæmd á Darkness Into Light göngunni og gáfu mikið af sér í þeirri vinnu.  Á mánudag mætti flottur hópur Unghuga á námskeið í andlegri endurlífgun sem Einar Björnsson og Málfríður Hrund Einarsdóttir stóðu fyrir.  Einar og Fríða hafa ekki setið aðgerðarlaus frekar en Unghugarnir og eru nýkomin frá Skotlandi þar sem þau voru þjálfarar á eCPR námskeiði.

ECPR eða andleg endurlífgun eins og við höfum kosið að kalla aðferðina á íslensku, er nálgun sem nýtist til að veita öðrum stuðning sem eru að ganga í gegnum andlega erfiðleika eða krísu.  Aðferðin er þróuð af fólki sem hafði sjálft lært að komast í gegnum andlega erfiðleika og hefur samþætt þá reynslu í dýpri skilningi á sjálfu sér og öðrum. Samkvæmt eCPR er litið á krísuástand sem verðmætt tækifæri:  Í gegnum erfiðleikana getum við endurskoðað háttalag okkar í heiminum og endurskipulagt líf okkar svo að við séum í meiri takt við okkar dýpstu gildi. Þeir sem hafa lagt sitt af mörkum til Andlegrar endurlífgunar hafa lært hvað er hjálplegast þegar til lengri tíma er litið og einning hvernig snúa megi tilfinningalegum erfiðleikum í persónulegan þroska. Andleg hjartahnoð krefst velheppnaðara sýnikennslu á tenglsum, valdeflingu og endurlífgun. Í gegnum samræður og hlutverkaleiki sköpum við umhverfi þar sem allir verða hluti af ,,námssamfélagi‘‘.

Meðlimir Hugarafls kynntust eCPR í gegnum Daniel Fisher sem hélt meðal annars námskeið hér á landi á síðasta ári.  Síðan þá hafa Einar og Fríða haldið námskeið með Daniel, meðal annars í Skotlandi og Póllandi.  Unnið var að þýðingu eCPR bókarinnar í Hugarafli á liðnum vetri og hefur hún nú nýst vel á tveimur námskeiðum sem haldin hafa verið í Hugarafli.  Auður Axelsdóttir kláraði sína þjálfun nýverið í Skotlandi þannig að nú eigum við þrjá þjálfara í eCpr hér heima og verður það að teljast nokkuð gott.

Fjölmörg spennandi og gefandi verkefni bíða nú Unghuga í Hugarafli.  Framundan er Geðveikt kaffihús sem haldið verður í Hinu húsinu 1. júní.  Rætt hefur verið að halda upp á afmæli Hugarafls á sama tíma og hafa Unghugar tekið að sér stórt hlutverk í þeim undirbúningi.  Unghugahópurinn  hittist á miðvikudögum klukkan 12:00 – 14:00 og á föstudögum frá 11:00 – 13:00.  Þar fá allir tækifæri til að gefa af sér, láta rödd sína heyrast og taka virkan þátt í starfinu.