Skip to main content
Greinar

Umhyggjurík samskipti

By desember 29, 2015No Comments
Eva Dís Þórðardóttir skrifar:

Í júlí mánuði 2013 fékk ég lífsreynslu sem breytti lífi mínu algerlega, gaf mér stefnu og vissu og í dag fæ ég að taka þátt í ferli og samskiptum sem gefur mér meira innihald og næringu í lífinu en ég hélt að væri hægt.

Áður en ég fer út í að lýsa betur hvað það var vil ég aðeins segja frá því hvar ég var stödd í lífinu á þessum tíma.

Ég hafði komið heim nokkrum árum áður eftir vægast sagt stormasama sambúð erlendis, fósturmissi og fall í skóla, beint í hrun og brostnar forsendur hér heima. Eftir nokkurn tíma á sófanum hjá mömmu hafði ég náð að púsla mér saman, kynnst góðum manni og var búin að vinna mig upp í góða stöðu við starf sem ég hafði mikinn áhuga á. Á innan við ári endaði sambandið, faðir minn svipti sig lífi, ég missti vinnuna í kjölfar tveggja umferðarslysa sem skildu mig eftir heilsulausa og vinkonurnar létu sig hverfa.

Þar sem þessir atburðir gerðust á ári en ekki mánuði hafði ég gripið alla þá hjálp sem ég gat fengið. Farið í samtalsmeðferð hjá presti, sálfræðingi, farið á námskeið og í sjálfshjálparhóp í kjölfarið hjá Lausninni, talað við ótal ráðgjafa, lækna, lögfræðinga, sem betur fer, annars veit ég ekki hvar ég hefði endað. Í öllu þessu ferli hafði ég kynnst fólki og stofnað til vinasambanda sem eru mér ómetanleg í dag.

En á þessum tíma leið mér eins og ég væri að deyja og það kom síðan í ljós að það var rétt hjá mér. 16 mánuðum eftir slysin komu í ljós innvortis meiðsli. Það var ekki hægt að tengja þau beint við slysin en læknarnir áttu erfitt með að ímynda sér hvernig annars þetta hefi getað gerst. Blóðæxli hafði myndast á brisinu og komið í það ofvöxtur þannig að það óx inn í maga, milta, ristil, þind og þarma. Þegar æxlið finnst er það farið að valda ofþrýstingi sem olli því að mér var að blæða út í gegnum magann. Það þurfti að taka æxlið og töluvert af öllum þessum líffærum sem það var vaxið inn í. Við tók endurhæfing og síðar meiri spítalavist vegna sýkinga sem voru eiginlega erfiðari en æxlið. Ég var meira kvalin og döpur.

Nokkrum vikum eftir útskrift frá Landspítalanum heyri ég hjá vinum mínum að nokkur þeirra séu að fara á námskeið hjá kennara sem væri að koma frá Þýskalandi að kenna Umhyggjurík samskipti. Án þess að hafa hugmynd um hvað það væri eða hvað ég myndi læra ákvað ég að fara með. Aðallega vegna þess að ég myndi njóta nærandi samvista við góða vini eftir svona langa einangrun. Ekki hafði ég hugmynd um að þessi helgi og þessi undarlega magnaða litla kona myndu umbreyta lífi mínu á þann hátt sem þau hafa gert. Það er ekki hægt að útskýra í einni lítilli grein en ég get kannski gefið þér smá hugmynd um það.

Allt mitt líf hafði einkennst af sjúklegri stjórnsemi, meðvirkni og ofurábyrgð. Mín lífsgleði hafði algerlega stjórnast af því að verða öðrum að gagni og helst vera alveg ómissandi fyrir aðra því ég vildi öllum svo vel. Málið var bara að það voru ekkert allir tilbúnir að leyfa mér að stjórna útkomunni og ég var alveg skíthrædd. Ég var fullviss um að ef ég gæti fengið að ráða þá yrði allt svo frábært. Ef fólk skildi það ekki þá notaði ég aðrar aðferðir til að ráða og stýra hlutunum í farveg. Stjórnsemi, manipúleringar, tiltölur, ráðGJÖF (já, þú þurftir sko ekki að biðja mig um ráð, þau helltust yfir þig hvort sem þú vildir þau eða ekki) ég var tilbúin að nota það sem gat virkað. Það sem ég ekki sá var þessi svakalega hræðsla sem stjórnaði mér.

Innst inni hélt ég að ef ég gæti ekki stjórnað og ráðið útkomunni þá færi bara allt til andskotans. Lamandi óttinn barði mig áfram í brjálaðri stjórnsemi og skapsveiflum. Til að útskýra betur þá var þetta ástand sem hafði skapast strax í barnæsku vegna uppeldis í vanvirkum alkahólískum aðstæðum. Ég fann ekki óttann. Ég var algerlega samdauna honum. Hann var orðinn svo mikill hluti af mér að ég hefði ekki vitað hver ég væri án hans hvað þá að vita að hann er ekki ég.

Svo þarna sat ég á námskeiði sem var yfir helgi úti á landi og ég komst ekki neitt, fyrir framan konu með svo undraverða nærveru að mér fannst hún stórskrýtin, og fékk að heyra að ég bæri ekki ábyrgð á neinum nema sjálfri mér. Vá, þetta hljómar alltof einfalt en þarna léttist ég um samtals alla einstaklinga í mínu lífi og utan þess líka.

Umhyggjurík samskipti ganga út á samkennd og samkennd getur þú ekki veitt ef þú átt hana ekki fyrst handa þér. Með því að axla algerlega ábygð á sjálfri mér gat ég sleppt tökunum á öllum öðrum. Það var fargi af mér létt. Ég ber ábyrgð á að mínum þörfum sé sinnt með því að taka ákvaðanir sem koma til móts við þær eða biðja aðra um að koma til móts við mig.

Ef ég þarf að biðja aðra reyni ég að gera það þannig að ég geti verið þess fullviss að mér sé mætt af fúsum vilja en ekki skyldutilfinningu, sektarkennd, greiðastarfsemi eða öðru en bara gleðinni sem hinn aðilinn fær út úr því að vera til staðar fyrir aðra manneskju. Ég hélt áfram að stunda þessi fræði (non-violent communication) bæði í æfingahóp, þegar kennari kom að utan og vorið 2014 fór ég á námskeið í Bandaríkjunum og er nú í ferli sem heitir certifiation candidate til að fá rétindi til að kenna kennurum. Ég er nú þegar með réttindi til að halda námskeið og fyrirlestra á vegum Umhyggjuríkra samskipta.

Það er fátt sem gefur mér meira innihald en að fá að deila þessum upplifunum mínum með öðrum og gefa öðrum tækifæri á að kynnast því frelsi sem að ég er að upplifa. Óttinn bankar enn upp á hjá mér annað slagið en ég er farin að geta litið á hann sem vin. Vin sem kemur í heimsókn til þess að láta mig vita að það er eitthvað hjá mér sem er óuppfyllt. Einhver þörf innra með mér sem ég þarf að sinna. Stundum þekki ég hann ekki alveg strax og sekk í vanlíðan en um leið og ég átta mig get ég farið í sjálfs-samkennd og gert mér grein fyrir því hvað það er sem mig vantar. Ég á ótakmarkaðan kærleika handa sjálfri mér í dag og uppsker alla þá hamingju sem honum fylgir.

 

Þeir sem vilja setja sig í samband Við Evu Dís Þórðardóttur geta gert það í gegnum netfangið eva@1.is