Skip to main content
GreinarMælt með

Sjúkdómsvæðing tilfinninga.

By nóvember 12, 2019No Comments

Auður Hugaraflskona ræðir mikilvægt málefni:

Kæru vinir.
Ég er djúpt snortin eftir að hafa horft á þessa mynd. Á sama tíma er ég hrygg yfir stöðu mála á Íslandi þegar kemur að geðlyfjamálum og viðmóti í okkar geðheilbrigðiskerfi, sem því miður virðist of oft gleyma mennskunni og sjálfsögðum mannréttindum.

„Lykkepillen“: Arene i psykiatrien var tortur. En sykepleier endret alt.

Ég hvet ykkur einlæglega til að horfa á þessa raunsönnu mynd ungrar konu; Silje Marie, sem verður í raun fórnarlamb geðheilbrigðiskerfisins vegna þunglyndis. Hún upplifði útskúfun og einelti í skólanum og svo fer að henni fer að líða mjög illa og leggst inn á geðdeild í fyrsta skipti 16 ára gömul. Hún er sett ótal þunglyndislyf og 12 tegundir af geðrofslyfjum, fékk einnig rafmeðferð 18 sinnum, ECT. Henni leið verr og verr, íhugaði sjálfsvíg oftar en einu sinni, fékk fleiri greiningar og lokaðist inni á sjúkrahúsi þar til hún hitti hjúkrunarfræðing sem gaf henni von og vildi vinna með henni og leit á hana eins og einstakling sem gæti lifað eðlilegu lífi utan stofnunar. Ferli Silje Marie í geðmeðferðarkerfinu tók 10 ár. Eftir að því ferli lauk náði hún að trappa sig niður af lyfjunum og lifir án þeirra í dag og án sjúkdómsgreininga. Silje Marie fer nú um allan heim til að segja sögu sína sem er því miður ekki einsdæmi.

Þegar Silje Marie hitti Peter Götzsche geðlækni frá Danmörku til að leita skýringa(professor in clinical research design and & analysis, and að specialist in internal medicine), fékk hún að vita að það væru yfirgnæfandi líkur á að sjálfsvígshættan, geðrofið sem hún fór í gegnum og ranghugmyndirnar væru aukaverkanir lyfjanna. Þetta væru þekktar alvarlegar aukaverkanir og væru hreint ekki léttvægar eins og þær virðast hafa verið kynntar fyrir Silje Marie. Hann sagði henni jafnframt að það væru fáir geðlæknar sem gætu horfst í augu við þessa staðreynd en fleiri og fleiri vísbendingar og rannsóknir hefðu komið fram undanfarin ár sem sýndu fram á þetta.

Ég þekki þessa sögu allt of vel frá starfi mínu sem fyrrverandi forstöðumaður geðteymis innan geðheilbrigðiskerfisins og með Hugarafli. Og ég finn það daglega að breytinga er þörf. Hvenær viljum við horfast í augu við að kerfið/þjónustan verður að taka breytingum og mæta einstaklingum sem líður illa með gæsku og virðingu?? Við verðum að fara í algjöra endurskoðun og snúa þjónustunni við svo hún sé hönnuð til að mæta einstaklingi sem leitar hennar, að hún sé ekki hönnuð til að viðhalda sjúkdómsmódeli sem hvetur til þess að einstaklingur sé gerðir að viðfangsefni læknavísindanna. Kerfið okkar verður að horfa á hverja lífssögu sem einstaka sögu og leggja áherslu á að koma auga á bjargráð einstaklinga og styrkleika til að komast í gegnum þjáningu, í stað þess að horfa á veikleika og líta á þá sem sjúkdóm sem þurfi að meðhöndla með inngripum sem geta haft alvarlegar afleiðingar.

Viðkvæm manneskja eins og Silje Marie, sem líður þjáningar 16 ára gömul þarf ekki lyf. Hún þarf viðmót sem mætir henni þannig að hún viti strax að það er ekkert að henni og hún er ekki með sjúkdóm þrátt fyrir mikla vanlíðan. Hún þarf öryggi, hlýju og vitneskju um að hennar viðbrögð eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Ef við gefum einstaklingi von um að líðanin sé tímabundin og að sjálfsvinna geti skilað betra lífi og auknum lífsgæðum og möguleikum til að lifa án þjáningar, eru líkur á að bataferlið hefjist fyrr og takist vel. Sjálfsvinnan er ekki létt og það geta komið bakslög en sé hún tekin alvarlega aukast líkur á árangri.

Ábyrgð kerfisins og fagfólksins sem mætir einstaklingi í þessari stöðu ætti fyrst og fremst að vera sú að skoða með viðkomandi hvaða möguleikar séu í stöðunni, hvernig sé hægt að komast í gegnum þjáninguna, hvaða persónulega styrkleika sé að finna og eins í nánasta umhverfi, hvernig sé hægt að vinna með tengslanetinu og finna leiðir sem geta hjálpað. Lyfin sjá ekki um þessa nálgun og eru oft skaðleg í tilfellum sem þessum. Þau geta í raun skyggt á bjargráðs einstaklingsins sjálfs og fjölskyldu hans. Ef einblínt er um of á lyfin getur einstaklingurinn smám saman orðið sannfærður um að hann sé ómögulegur, geti ekki einu sinni orðið betri af öllum þessum lyfjum og kennir sér um. Það er hætturlegur staður að vera á.

Við sem samfélag verðum að horfast í augu við að lyfin ættu að vera síðast valkostur ekki sá fyrsti. Þegar viðkomandi versnar og versnar „þrátt fyrir“ alla lyfjameðferðina verðum við að horfast í augu við að það getur ekki bætt ástandið að bæta lyfjum við og stækka skammta.
Lífssagan segir oftast það sem segja þarf og gefur vísbendingar um hvernig sé hægt að vinna að valdeflingu og bjargráðum sem einstaklingurinn sjálfur hefur yfir að ráða, en hefur í þjáningunni ekki komið auga á eða gleymt. Þegar fagmaður eins og Lone sem hittir Silje Marie fyrir tilviljun, þá breytist ferlið og vonin dúkkar upp. Vonin er lífsnauðsynleg og gerir í raun það að verkum að Silje Marie getur snúið til baka til lífsins í samstarfi við manneskju sem virðir hana.

Geðheilbrigðiskerfið veitir oftar en ekki þær upplýsingar að tilfinningaleg vanlíðan byggist á sjúkdómi sem sé kominn til að vera, að lyfin verði að taka restina af ævinni og það sé nauðsynlegt að vera alla ævi undir handleiðslu fagfólks, aðeins þá geti batinn mögulega komið. Með þessu viðmóti er verið að gefa falskar vonir. Falskar vonir sem byggja á röngum upplýsingum sem byggjast á ótta og sjúkdómsnálgun.

Ef einstaklingur fær hins vegar að vita frá upphafi að það sé hægt að komast í gengum þjáninguna, að hún sé tímabundið ástand sem þurfi að vinna með þannig að lífið sé kallað fram á forsendum viðkomandi, þá er verið að gefa von sem getur bjargað lífi. Að ástandið sé ekki óeðlilegt heldur í raun eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum, þá getum við stutt viðkomandi til að finna sín bjargráð til að lifa eðlilegu lífi, að finna vilja sinn og drauma.

 

Birt með leyfi Auðar Axelsdóttur https://auduraxels.wordpress.com/2019/11/10/sjukdomsvaeding-tilfinninga/?fbclid=IwAR0c9GFuKKBjqjThcLUlJzI06x7pc2jmZ7r1wbN8bL6WevzKl3PWX5oRKeo