Skip to main content
Greinar

Sjónarmið notenda upp á yfirborðið

By febrúar 20, 2014No Comments

Starfshópurinn Hugarafl vinnur að gæðaeftirlitsverkefninu Notandi spyr Notanda

Starfshópurinn Hugarafl, sem skipaður er fólki sem átt hefur við geðsjúkdóma að stríða en er á batavegi og tveimur iðjuþjálfum með áralanga reynslu af geðsviði, vinnur um þessar mundir að gæðaeftirlitsverkefninu Notandi spyr notanda.

STARFSHÓPURINN Hugarafl, sem skipaður er fólki sem átt hefur við geðsjúkdóma að stríða en er á batavegi og tveimur iðjuþjálfum með áralanga reynslu af geðsviði, vinnur um þessar mundir að gæðaeftirlitsverkefninu Notandi spyr notanda. Markmið verkefnisins, sem er að norskri fyrirmynd, er að auka gæði þeirrar þjónustu sem veitt er á geðdeildum með því að fá sjúklinga, þ.e.a.s. notendur þjónustunnar, til þess að segja álit sitt á viðkomandi deild. Þá er stefnt að því að efla áhrif notenda á geðdeildunum þannig að þeir fái einhverju um það ráðið hvernig þjónusta er veitt. Sjúklingar á þremur deildum Landspítala – háskólasjúkrahúss taka þátt í verkefninu en u.þ.b. tíu manns frá Hugarafli sjá um fundina. Undirbúningur og úrvinnsla gagna er unnin í samvinnu við tvo nema í iðjuþjálfun fráHáskólanum á Akureyri.

Bergþór Grétar Böðvarsson og Jón Ari Arason, talsmenn verkefnisins, segja að vel hafi gengið að fá sjúklinga til þess að mæta á fundi og þeir hafi fengið jákvæð viðbrögð hjá starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar vegna verkefnisins. „Þetta verkefni er unnið í samstarfi við deildirnar og við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar tekur vel í þetta og telur að það hafi verið þörf á slíku verkefni,“ segir Bergþór Grétar og bætir því við að starfsfólk deildanna vilji gjarnan fá ábendingar um það sem megi betur fara og þetta sé góð leið til þess að koma þeim á framfæri en einnig undirstrika það sem vel er gert. Þá hefur undirbúningur verkefnisins, sem tók einungis rúman mánuð, gengið vonum framar en fundir hófust 28. júní og áætlað er að síðustu fundir verði haldnir 23. júlí. „Þetta hefur gengið vel og við erum nú þegar búin að halda 10 fundi af 18,“ segir Jón Ari.

Verkefnið er unnið á þann hátt að aðstandendur verkefnisins halda fundi með sjúklingum viðkomandi deilda þar sem þeir ræða upplifun sína af deildinni. Engum persónulegum spurningum er beint til þátttakenda og trúnaður ríkir um það sam fram fer á fundunum. Þær upplýsingar, sem fram koma á fundunum, verða settar í skýrslur sem afhentar verða sviðstjórum geðsviðs og yfirmönnum viðkomandi deilda til leiðbeiningar. Sviðstjórar verða inntir eftir því hvernig þeir muni bregðast við þeim upplýsingum sem fram koma. Heilbrigðisráðherra mun einnig fá afhentar niðurstöður könnunarinnar. Þá verða teknar saman niðurstöður í bæklingsformi og afhentar þeim sem taka þátt í þessu verkefni þar sem þeir geta séð hvernig þeirra upplýsingar eru notaðar til að auka gæði geðdeildanna. Stefnt er að því að ofangreindar skýrslur verði afhentar í byrjun september.

Markmiðið að virkja sjúklinga

Aðspurðir segja þeir Bergþór Grétar og Jón Ari að skort hafi á að sjúklingar hafi fengið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. „Fundirnir eru opnir og á þeim ríkir þægilegt andrúmsloft. Við leyfum fólkinu að tala og það hefur mikið að segja að geta talað við þá sem hafa verið í sömu sporum,“ segir Bergþór Grétar. „Fólkið er opnara við okkur en starfsmenn deildanna vegna þess að það finnur fyrir því að það getur sagt hvað sem er. Við reynum að vera ekki leiðandi í umræðunni heldur er þetta líkt og hugflæði. Sumir koma þarna til þess að létta aðeins á sér en við erum ekki með neinar persónulegar spurningar. Þá er það einnig markmið okkar að virkja fólkið, opna það og fá það til þess að hafa áhrif. Þegar fólkið sér að það hefur áhrif þá verður það virkara í kjölfarið,“ segja þeir Bergþór Grétar og Jón Ari en á fundunum skapast gott andrúmsloft og þar er oftar en ekki hlegið og gert að gamni sínu. Hugarafl fékk til liðs við sig tvo nema í iðjuþjálfun og hlaut vegna þess styrk frá Nýsköpunarsjóði og heilbrigðisráðuneytinu. „Nemarnir hafa hjálpað okkur gríðarlega mikið og hafa kennt okkur margt. Þá hafa þeir flýtt fyrir ferlinu með því að gefa okkur þjálfun í viðtalstækni,“ segja þeir Bergþór Grétar og Jón Ari en auk þess styrkti Íslandsbanki verkefnið með því að leggja til fartölvu.

Aukin samvinna sjúklinga og starfsfólks geðdeilda.

Aðspurðir segja þeir Bergþór Grétar og Jón Ari að verkefnið muni án efa hafa góð áhrif á þá sjúklinga sem taka þátt í því og vonast til þess að samvinna sjúklinga og starfsfólks deildanna aukist í kjölfarið. „Slík samvinna sparar eflaust mikil útgjöld,“ segja þeir og benda á að svipað verkefni í Noregi hafi gengið mjög vel og hafi orðið til þess að bæta bæði skipulag og þjónustu. „Það hefur vantað upp á það að fólk geri sér grein fyrir því að sjúklingarnir geta haft skoðanir, miðlað eigin reynslu, verið fyrirmyndir og sagt til um hvort þjónustan komi til móts við þarfir þeirra. Þetta verkefni styrkir sjúklingana og þeirra sjálfsmynd,“ segir Bergþór Grétar. Jón Ari tekur undir það og bætir við að ávallt hafi skort á svörun hjá notendum þjónustunnar en bendir einnig á að þessi nálgun geti verið dýrmætt verkfæri stjórnvalda til að skoða hvort fjármagni sé rétt varið. „Sjónarmið notenda ættu að komast meira upp á yfirborðið og einnig ætti að örva fólk til þess að taka ábyrgð á sínum sjúkdómum og sýna fram á það að fólk geti haft áhrif,“ segja þeir félagar að lokum.