Skip to main content
Greinar

Sigurboði: „Það er enginn sem vaknar einn daginn og ákveður að taka eigið líf uppúr þurru“

By janúar 14, 2016No Comments

Lýsir eigin sjálfsvígshugsunum – „Augnaráðið mitt verður ískalt og algerlega tilfinningalaust“ – Vill vekja fólk til umhugsunar

„Þegar ég fer í þetta ástand þar sem ég ætla að taka eigið líf þá er ég óþekkjanlegur. Ég verð fölur og einbeittur, stuttorður og ör.“ Sigurboði Grétarsson er 24 ára gamall listamaður úr Hafnarfirði sem hefur ritað opið bréf þar sem hann tjáir sig opinskátt um tilraunir sínar til sjálfsvígs. Vill hann koma reynslu sinni á framfæri til allra þeirra sem þekkja einhvern sem glímir við andleg vandamál, í von um að þeir þekki einkennin þegar hættuástand er í gangi. Í samtali við DV.is segir Sigurboði að hann vilji vekja fólk til umhugsunar. „Þetta er mikilvægt að fólk viti þetta, því það gæti komið í veg fyrir dauða,“ segir hann en hann kveðst sjálfur vera á góðum stað í lífinu og fái bæði þá fagmannlegu og félagslegu hjálp sem hann þarf á að halda.

Sigurboði byrjar bréfið á því biðja þann sem les að hugleiða hvernig það sé að langa til að taka eigið líf. „Ég er einstaklingur með geðsjúkdóma sem eru martröð líkast og ég þekki vel sjálfsmorðshugleiðingar.“

„Þegar ég fer í þetta ástand þar sem ég ætla að taka eigið líf þá er ég óþekkjanlegur. Ég verð fölur og einbeittur, stuttorður og ör. Augnaráðið mitt verður ískalt og algerlega tilfinningalaust eins og ég sé ekki til staðar heldur bara líkami minn. Ég er búinn að ákveða að ég ætli að drepa mig.“

Hann segir fáfræði oft á tíðum ríkja í garð þeirra sem vilja binda endi á líf sitt. „Fólk heldur einmitt oft að þeim sem langar til að taka eigið líf viti ekki betur og hefur ekki upplifað hvernig það er að missa einhvern sem manni er kær en svo er ekki. Þegar ég var 15 ára missti ég mjög góðan vin sem tók eigið líf. Síðustu Þorláksmessu tók systir mín sitt eigið líf. Ég veit nákvæmlega hvernig það er að ganga í gegnum þetta ömurlega ferli að missa einhvern og ég veit upp á hár hvaða afleiðingar það hefur í för með sér.“

„En þegar ég fer í þetta ástand þá get ég ekki séð það. Mér verður alveg sama því ég er búin að missa öll tilfinningaleg gildi við alheiminn. Mig langar bara til þess að frelsast undan ánauð lífsins. Mér hefur verið bjargað frá sjálfsmorði og það er ekki fyrr en björgin hefur verið veitt sem ég „snappa úr“ ástandinu sem ég er í. Ég get ekki með nokkru móti losað mig úr því sjálfur.“

Hann bætir við að það sé enginn sem vaknar einn daginn og ákveður að taka eigið líf uppúr þurru. „Það er margra vikna eða mánaða, jafnvel ára tímabil sem fer í að hugsa um þetta. Fyrstu hugsanirnar koma oftast í reiði. „Fokk hvað ég meika þetta ekki ég vildi að ég væri bara dauður.“ Það þróast svo útí að reyna finna leið þar sem það væri ekki eins mikið áfall fyrir alla eins og til dæmis að vonast til að deyja í slysi. En svo endar maður alltaf á þeirri niðurstöðu að þetta er ekkert flókið. „Ég þarf bara að taka eigið líf og helst við fyrsta tækifæri, skítt með afleiðingarnar því ég verð dauður og get hvort eð er ekkert hugsað þá.“

„En það er ekki fyrr en daginn sem ákvörðunin er tekin sem að það sést virkileg breyting á mér. Þá verð ég eins og ég lýsti í byrjun greinarinnar og það er stórhættulegt að leyfa einstaklingi sem þig grunar að sé í slíku ástandi að fara frá þér.“

Sigurboði segir að oft sé ekki erfitt að koma auga á alvarleika málsins ef að viðkomandi yfirheyrir einstakling í stutta stund:

„Ef þú spyrð hvert manneskjan er að fara og hvað hún er að fara gera færðu oftast mjög lélegar lygar eða útúrsnúninga. Það er í raun ómeðvituð hróp á hjálp og þá er best að biðja viðkomandi um að bíða aðeins með þér og jafnvel hringja í foreldra, vini eða aðra aðstandendur til að koma strax og fylgjast með.“

Að lokum biður Sigurboði fólk um að leita aðstoðar fagfólks ef það sér að einhver náinn þeim sé í hættu. „En það er líka mikilvægt að yfirheyra ekki of mikið eða vera með skammir heldur hlusta og halda ró á aðstæðum. Næsta skref er að koma viðkomandi undir læknishendur þar sem fagmenn taka við málinu. EKKI vera vitur eftirá og hugsa hvað þú hefðir getað gert heldur gerðu eitthvað NÚNA og hjálpaðu ef þú veist um einhvern sem er í vanda.“13. desember 2015

Grein birtist upphaflega á:  http://www.dv.is/folk/2015/12/13/sigurbodi-thad-er-enginn-sem-vaknar-einn-daginn-og-akvedur-ad-taka-eigid-lif-uppur-thurru/