Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

Samtal og Andlegt hjartahnoð „eCpr“ á Egilsstöðum!!

By október 19, 2018No Comments

Frábærir dagar á Egilsstöðum dagana 12-14 október!!

Egilsstaðir skörtuðu sínu fegursta þegar Hugaraflsmenn komu í heimsókn og fallegir haustlitirnir gáfu svolítið tóninn fyrir dagana sem í hönd fóru. Tilgangurinn var að eiga samtal með heimabyggð um geðheilbrigðismál, skiptast á reynslu og skoðunum og rýna í tækifæri sem er að finna á svæðinu.

Heimamenn tóku stórkostlega á móti okkur og við erum ákaflega þakklát öllum sem komu að undirbúningi, öllu skipulagi og ekki síst þátttöku heimamanna í samtalinu sem fór fram á föstudeginum undir yfirskriftinni „Batnandi fólki er best að lifa“.

Um helgina fór síðan fram námskeið í Andlegu hjartahnoði(Emotional CPR (eCPR)) og þátttakan var frábær! Þjálfararnir Auður Axelsdóttir og Málfríður Hrund Einarsdóttur sáu um þjálfunina og Svava Arnardóttir var lærlingur. Námskeiðið fór vel fram í alla staði og það skapaðist mögnuð stemning, tengsl og kærleikur.

Námskeiðið var haldið í Ásheimum sem er geðræktarmiðstöð á Egilsstöðum. Í Ásheimum er stefnt að því markmiði að vinna gegn félagslegri einangrun og skapa aðstæður fyrir fólk til að byggja sig upp andlega. Starfsemi Ásheima mótast að miklu leyti af óskum og þörfum notenda hverju sinni.

Hvað er andlegt hjartahnoð? Þetta er þjálfun í samskiptum til að geta tengst og verið til staðar fyrir fólk þegar það upplifir tilfinningalegt uppnám. Nálgunin tekur mið af áfallasögu og byggir á tengslum, valdeflingu og endurlífgun/endurfæðingu.

Hugaraflsmenn fóru heim með góða tilfinningu fyrir stemningunni á staðnum og fundu fyrir allri þeirri reynslu og því góða frumkvæði sem er að finna á staðnum. Við fundum einnig ríkan vilja heimamanna til að efla þjónustu á svæðinu með valdeflingu að leiðarljósi.