Greinar

Pistill nr. 1 frá Einari Björnssyni Hugarafli v. „Mad in America´s international film festival“

By nóvember 9, 2014 No Comments

1.Hluti

Er eitthvað að mér eða kom eitthvað fyrir mig?

Jæja kæru vinir. Langar að setja í orð það sem ég hef verið að hugsa síðustu vikur. Vona að einhverjir hér lesi þetta, deili og í framhaldinu opni á umræðu um þessi mál. Kem til með að gera þetta í nokkrum bútum.
Ég er að skríða úr púpunni eftir umbreytingar síðustu vikna. Fór ásamt góðu fólki á kvikmyndahátíð í Ameríku og varð fyrir menningaráfalli. Komst að því að ég þurfti að endurskoða afstöðu mína til geðraskana og meðferða við þeim, ekki kannski einfalt mál fyir mig þar sem líf mitt síðustu tuttugu ár eða svo hefur verið byggt upp í kringum það sem ég hélt að ég vissi og þær ályktanir sem ég hafði dregið af því. Ég “veiktist” fyrir 22 árum og var greindur með Geðhvörf. Við tók langt árabil þar sem ég var til meðferðar við þessum sjúkdómi með misjöfnum árangri og síðan tók við langur tími þar sem ég hef lifað með mínum sjúkdómi og jafnvel starfað við að segja frá honum og því hvernig ég náði þeim árangri að geta lifað nokkuð eðlilegu lífi. Mín afstaða til geðraskana hefur byggst á þeirri trú að mín veikindi hafi stafað af ójafnvægi í boðefnabúskap heilans. Það ójafnvægi stafi af einhverjum erfðafræðilegum þáttum sem hafi gert mig veikan fyrir og svo einhverskonar áfalli sem hafi komið veikindunum af stað.

MIA-IFF-Header-v2-818x149

Ég fyrir mitt leyti var svo sem alveg sáttur við þetta, að mestu. Hagaði lífi mínu í samræmi við það og þóttist nú vera bara nokkuð góður í því að ráða við lífið þrátt fyrir minn sjúkdóm. Var kominn á einhvernskonar stall að eigin áliti og þurfti nú ekkert mikið að velta þessu fyrir mér. Fékk mikið útúr því að fara og fræða ungmenni þessa lands um þetta allt saman, held meira að segja að ég hafi stundum verið orðinn dálítið hrokafullur í því að vita nú alveg hvernig ætti að takast á við svona erfiðleika. Taldi að ljósi þess árangurs sem ég hafði náð (12 ár lyfjalaus, 14 ár utan stofnana) þá væri nú ekkert mikið fyrir mig að fræðast um þetta allt saman og ég væri nú bestur bara í því að ausa úr mínum viskubrunni til þeirra sem ekki hefðu náð eins góðum árangri. Vá! Ég hafði rangt fyrir mér!!!