Skip to main content
Greinar

Orð geta drepið!

By janúar 14, 2016No Comments
Einar Áskelsson skrifar:

12483634_10208004295532433_1973816706_n (1)

Af hverju erum við með fordóma?

Frábær spurning! Ég hef heyrt, lesið og þykist vita að fordómar skapist af vanþekkingu og reiði. Reiðri manneskju líður illa og er líklegri til að dæma alla skapaða hluti, sérstaklega það sem virðist snerta viðkomandi beint! Það rímar við mína reynslu. Árið 2015 kenndi mér margt um fordóma og dómhörku (er munur á þessum hugtökum?). Sem er kveikjan að þessum pistli.

Að vera eða vera ekki með fordóma fyrir veikindum …

Ég hef farið í skurðaðgerðir á fótum, baki og öxlum. Líkamlega veikur. Man ekki annað en mér hafi verið sýndur skilningur. Enginn gagnrýndi hvers lags ræfill ég væri að fara í aðgerð út af liðþófa í hné! Ég veiktist af andlegum sjúkdóm. Fékk greiningu snemma hausts 2015. Krónísk áfallastreituröskun (Complex Post Traumatic Stress Disorder), sjúkleg meðvirkni, kvíði og höfnunarótti og að auki „burn out“ (kulnun)! Andlega veikur! Hljómar hræðilega. Ég fór til sálfræðings. Ekki bæklunarskurðlæknis. Engin aðgerð. Engar umbúðir. Haltraði ekki. Sást ekki utan á mér að ég væri veikur. Fékk ég sama skilning? Eh … nei, ég get ekki tekið undir það. Reyndar aldrei upplifað aðra eins dómhörku. Eflaust hafa margir lent í því miklu verra en ég. Mér fannst þetta meira en nóg enda ný reynsla. Sálfræðingurinn bað mig að ímynda mér að ég væri með gips á báðum fótum upp að mjöðm til að fá mig til að skynja hversu veikur ég væri! Oft óskaði ég þess ég „væri í gipsi“! Taugakerfið í rúst og orkulaus. Gat ekki sannað það en leið eins og ég þyrfti þess! Ómöguleiki eins og einhver hefði orðað það.

Er ég sjálfur með fordóma?

Ég hef aldrei talað illa um andlega veikt fólk, en fundið til með því. Í hreinskilni þá hef ég alltaf óskað að lenda ekki í þessum hóp. Fordómar? Já, í raun. Til að vera sanngjarn. Þegar #égerekkitabú átakið hófst sl. haust var stofnaður Facebook-hópurinn „Geðsjúk“. Þrjár stúlkur stóðu að þessu og móðir einnar þeirrar „addaði“ mér í hópinn! Fyrstu viðbrögðin mín voru … bíddu, á ég heima hér? Er ekki geðveikur, er með bara með „röskun“! Ég reyndi m.a.s. að rökstyðja það með því að skrifa status á síðuna. Útskýrði vandlega mína greiningu og spurði hvort ég ætti nokkuð heima hér? Ekki stóð á viðbrögðum. Man ekki betur en stúlkurnar þrjár sem ég nefndi, kommentuðu og buðu mig velkominn og ég væri sannarlega á réttum stað! Ég væri andlega veikur og margir sem létu mig vita að þeir glímdu við sama og ég! Fordómar? Já! Segðu! Skömmin rauk upp! Ja há! Ég fór að hugsa. Maður, líttu þér nær! Nú ertu einn af „þeim“!
Að verða hluti af þessum Facebook-hóp varð mér blessun. Hjálpaði mér mikið að losna við skömmina við að vera andlega veikur, stundum kallað geðveiki. Úff … þetta orð. Í dag er ég hreykinn af því að tilheyra þessum hóp. Fyrrnefnd móðir hafði fylgst með mér og leiðbeindi mér af umhyggju í rétta átt. Vissi betur en ég. Eigi hún ævinlega þökk fyrir.


Hvernig er að verða fyrir fordómum?

Á tímabilinu mars til ágúst 2015 versnuðu veikindin hratt og líðanin eftir því. Ég var mjög viðkvæmur fyrir gagnrýni. Vissi aldrei hvort eða hvað væri að mér. Að verða fyrir harðri gagnrýni var mjög erfitt. Það er hægt að kalla heiðarlegan mann lyginn og óheiðarlegan, nógu lengi til að hann fari að trúa því! Þannig leið mér. Að missa sjálfstraustið og sjálfsímyndina, sem dæmi, þýddi að ég átti mjög erfitt með að verja mig. Það komu fyrir nokkur dæmi um yfirgengilega dómhörku. Ímyndaðu þér að einhver sé að tala við þig í síma og ásaka þig um eitthvað, sem er rangt, en þú getur ekki varið þig og lætur yfir þig ganga. Af því þú hefur ekki varnir, orku, dug eða þor í að verja þig. Mitt „burn out“ (kulnun) gerðist undir þannig kringumstæðum. Það var vond lífsreynsla.
Þeir sem hafa lent í dómhörku vita best hvernig er að upplifa það. Fyrir öðrum er erfitt að útskýra. Það er stutt í þennan „aumingjakomplex“ hjá fólki. Ef ekkert sést utan á þér, þá er andleg vanlíðan stundum stimpluð sem væl! Ég fékk skilaboð um að „rífa mig upp“ og „taka á honum stóra mínum“ o.s.frv. Oftast meinti fólk ekkert illt en það var erfitt að meðtaka það. Ég hef fína reynslu í að „rífa mig upp af rassgatinu“ í gegnum tíðina. Núna gat ég það ekki. Að segja einhverjum sem líður illa að „rífa sig upp“ er töluverð dómharka. Það væri t.d. hægt að spyrja viðkomandi hvað veldur vanlíðaninni áður en dómur er felldur? Ég spyr.

Eigum við að taka smá dæmi?

Í janúar 2014 var ég óheiðarlegur. Ég leyndi sambýliskonunni að ég hafði ekki gert upp sameiginlegt lán okkar. Gerði upphaflega ekkert rangt en bankinn ætlaði að sjá um að gera upp lánið með millifærslu. Voru til peningar fyrir því. Það urðu mistök og/eða orðið misskilningur sem varð til þess að lánið var ekki gert upp. Peningurinn fór að stórum hluta í sjálfkrafa greiðslu á öðru (var yfir áramót). Í stað þess að leiðrétta, sem hefði verið lítið mál, fór ég í fár. Fékk heiftarlegt ofsakvíða- og panikkast. Gekk út úr bankanum án þess að gera neitt. Líkt og hugurinn hafi ákveðið að ég gerði eitthvað rangt. Af ótta við höfnun þorði ég svo ekki að segja frá. Leyndi þessu sem var óheiðarlegt. Á því bar og ber ég fulla ábyrgð. Hef sannarlega þurft að axla hana.

Að fordæma!

Út frá þessu dæmi væri auðvelt að mynda sér skoðun á mér sem manneskju. Svo sem að dæma mig óheiðarlegan, lyginn og ekki treystandi. Alls ekki taka þá með í reikninginn að ég hafði aldrei fyrr gerst óheiðarlegur á mínum 22 allsgáðu árum. Né athuga hvort eitthvað væri að hjá mér! Að þetta hafi verið út úr karakter! Þetta er val sem fólk hefur til að mynda sér skoðun og leggja dóm á persónu. Það sem ég er að ýja að er að fólki hættir til að heyra sögu um einhvern og fordæma strax. Spá ekkert í ástæður, aðstæður o.s.frv. Þetta finnst mér vera einn stærsti bresturinn í mannfólkinu. Í eðlilegu jafnvægi hefði ég aldrei gerst óheiðarlegur. Það fullyrði ég. Ég er ekki í grunninn þannig manneskja. Það veit ég. Mér verður á og geri mistök. Ekki síst í veikindum. Eins og þú. Hversu langt ert þú tilbúinn að ganga í að dæma manneskju, sem er með tilfinningar eins og þú og ég, án þess að hafa þekkingu á því sem þú ert að dæma? Spáðu í það. Þótt þú hafir ekki þekkingu eða reynslu af andlegum sjúkdómum þá er það þitt val að fordæma veikt fólk.

Hvað gat ég gert?

Ég varð svo feginn þegar sálfræðingurinn minn hafði greint mig og útskýrt hvað væri að mér. Svo fór ég að hugsa um hvað hafði verið sagt og gert. Öll gremjan og reiðin sem ég hafði hlaðið inn sprakk út. Ég hef aldrei á ævinni orðið eins reiður. Þarna áttaði ég mig á dómhörkunni sem ég hafði setið undir! Hvað gat ég gert? Jú, ég hef val ef ég verð fordæmdur. Hljómar eins og einföld klisja. Ég ber ábyrgð á mér en hef enga stjórn á hvað aðrir gera eða segja. Þó mér finnist ég eiga afsökunarbeiðni skilið, er óvíst að ég fái hana. Besta ráðið er að fyrirgefa viðkomandi aðilum. Til að losna við reiðina. Til að láta þessi atvik hætta að stjórna daglegri líðan. Ekki létt og tekur tíma. Hinn aðilinn upplifir jafnvel atburðarás á annan hátt! Þetta var það sem sálfræðingurinn ráðlagði mér. Ef ég ætlaði mér að ná bata við mínum sjúkdóm þá gæti ég ekki gengið á reiði og gremju. Nauðugur viljugur fór ég að vinna í að fyrirgefa. Náð góðum árangri en er enn að vinna í fyrirgefningunni. Truflar samt ekki mitt daglega líf í dag.

Má ég ráðleggja?

Er samt ekki sérfræðingur. Ef þú heyrir „drastíska“ sögu um einhvern. Hvernig væri að spyrja hvort viðkomandi hafi séð eða heyrt, verið á staðnum og/eða hvernig hann fékk þessar upplýsingar? Að draga ályktun getur nefnilega orðið að rógburði. Rógburður getur skemmt mannorð viðkomandi. Oft nefnt mannorðsmorð. Mannorðsmorð getur því miður leitt til sjálfsmorðs. Gengur sjaldan svo langt en hefur því miður gerst. Hugsaðu áður en þú ályktar í upphafi. Ágæt regla.


Má ég að lokum varpa fram skoðun?

Nánast „punchline“! Segi það og skrifa. Af fenginni reynslu er dómharka það erfiðasta sem ég hef umborið í fari fólks. Sérstaklega ef fólk upphefur sig á kostnað annarra. Traðkar öðrum um tær. Ég f….. þoli það ekki! Það finnst mér vera hrein mannvonska. Já! Vissulega verður okkur á og gerum svona líkt í ógáti. En … já. Tek fram að þetta er mín skoðun.

Burtu með fordóma! Ágætt að setja sig í spor annarra áður en sleggjunni er reitt til höggs. Prófaðu. Komdu nákvæmlega eins fram við náungann eins og þú vilt að hann komi fram við þig.

Takk fyrir.

Grein birtist upphaflega á vef kvennablaðisins.