Skip to main content
Fréttir

Nýr alþjóðlegur samstarfsaðili Hugarafls

By maí 3, 2016No Comments

1Dagana 11. til 16. apríl var stigið stórt skref hjá okkur í Hugarafli í alþjóðlegu samstarfi.  Við fengum nýja vini í heimsókn.  Dumitritia Simeon og Paula Densia fulltrúar Minte Forte í borginni Cluj-napoca í Rúmeníu komu og kynntu starfsemi sinna samtaka og hugmyndir sínar að samstarfi.  Við í Hugarafli kynntum sömuleiðis okkar starf og hugmyndir.  Við komumst að því að þó langt sé á milli okkar í landfræðilegum skilningi deilum við sömu hugsjónum og hugmyndafræði, sáum að við gátum unnið saman að verkefnum sem við teljum mikilvæg og mynduðum grunn að vonandi áralöngum vinskap og samvinnu.

Þær stöllur Dumitritia og Paula kynntu fyrir okkur starfsemi Minte Forte og deildu með okkur sinni sýn á geðheilbrigðismál.  Minte Forte byggir sína starfsemi á svipaðri hugmyndafræði og Hugarafl og má þar fyrst nefna valdeflingu og jafningjagrunn.  Þau hafa lagt áherslu á óformlega þjálfun, virkni og að eyða fordómum.  Við í Hugarafli kynntum fyrir þeim sérstaklega Unghuga, Geðfræðsluverkefnið okkar og Andlegt hjartahnoð (eCPR).

2Niðustaða þessarar heimsóknar þeirra Dumitritiu og Paulu varð sú að við höfum sótt um Erasmus styrk til að hefja vinnu við mótun námsefnis fyrir þá sem starfa með ungu fólki 14 til 18 ára með sérstaka áherslu á geðheilbrigði.  Um er að ræða samvinnuverkefni fjögurra evrópulanda sem auk Íslands og Rúmeníu eru Spánn og Portúgal.  Ef umsókn okkar verður samþykkt hefst verkefnið nú í haust og mun standa í tvö ár.  Einnig erum við að skipuleggja frekara samstarf t.d. ungmennaskipti og Geðfræðsluverkefni.