Skip to main content
Fréttir

Nýjustu fréttir frá Hugarafli

By mars 11, 2019No Comments

Í Hugaraflinu erum við að fóta okkur í nýju landslagi. Það eru spennandi tímar framundan og líka næg verkefni handan hornsins sem þarf að vinna til að leiða stjórnvöldum fyrir sjónir mikilvægi samfélagslegrar geðþjónustu eins og þróast hefur hjá okkur undanfarin ár.

Starfssemin í Borgartúni 22 er breytt en afar metnaðarfull og fjölbreytt. Nýliðakynning er haldin í hverri viku og áhugi nýliða er mikill. Endilega kynnið ykkur dagskránna á heimasíðu Hugarafls www.hugarafl.is. Framundan eru flutningar í nýtt húsnæði í Lágmúla. Við látum vita nánar þegar nær dregur og bjóðum ykkur öll að sjálfsögðu velkomin í nýtt húsnæði þegar flutningar eru yfirstaðnir.

Breytt landslag. Útsýnið úr nýju húsnæði Hugarafls sem verið er að standsetja.

Nýr samningur með nýjum tækifærum

Skrifað undir nýjan samning.

Samningur sem gerður var í nóvember á síðasta ári við Félags-og barnamálaráðherra, Ásmund Einar Daðason gerði það að verkum að Hugarafl gat haldið áfram starfi sínu. Eðlilega var það mikill léttir fyrir okkur Hugaraflsfólk en er um leið viðurkenning á starfi samtakanna sem byggir á opnu úrræði, með áherslu á valdeflingu og bata og nánu samstarfi fagmanna og einstaklinga með reynslu af andlegum áskorunum. Unnið er á jafningjagrunni og áhersla lögð á að hver og einn einstaklingur geti valið sér leið í bataferli sínu. Samingurinn byggir einnig á sérstakri áherslu á starf með ungu fólki og aðstandendum. Við undirritun samningsins sagði Ásmundur Einar að þessar áherslur væru afar mikilvægar og hann vildi mikilvægt starf samtakanna áfram í Íslensku samfélagi. Hér væri verið að styðja opna endurhæfingu og þann möguleika yrðum við að hafa í okkar þjónustu. Að sama skapi væri verið að leggja áherslu á að einstaklingar og fjölskyldur geti leitað í opið úrræði án hindrana. Ásmundur Einar ráðherra tjáði okkur að það hefði skipt sköpum að þingheimur og almenningur lét sig varða og hefðu bent honum á mikilvægi starfs Hugarafls. Fjöldi manns hafi haft samband við hann og sagt honum frá sinni reynslu af starfi Hugarafls, bata sínum og þjónustunni.

Mikil eftirsjá í Geðheilsu – eftirfylgd

GET teymið sem við áttum svo farsælt samstarf við var lagt niður 1. september eins og flestum er kunnugt. Það var áfall fyrir okkur og er ennþá. Við finnum að enn eiga margir einstaklingar um sárt að binda og hafa misst mikivæga fagaðila frá GET og þjónustu í bataferlinu. Þessa afleiðingu lítum við mjög alvarlegum augum og munum gera okkar besta til að skýra þessa stöðu fyrir stjórnvöldum og benda áfram á að fjöldi einstaklinga missti samfellu í þjónustu og líður fyrir ákvarðanatöku Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðisráðuneytisins. Þessi samfélagslega geðþjónusta sem þarna þurrkaðist út var afar mikilvæg í okkar samfélagi, hún var hagkvæm og sinnti svo mörgum. Forvörnin var gríðarleg, stuðningur í bataferli opinn og á forsendum notandans, stuðningurinn mátti taka tíma og var á persónulegum nótum. Það mótaðist mikilvægt samstarf notanda og fagmanns sem stuðlaði að bata og auknum möguleikum á virkri þátttöku í samfélaginu. Fagfólk GET var þjálfað til margra ára í valdeflandi nálgun með batann að leiðarljósi og störfuðu á jafningjagrunni með Hugarafli. Samstarfsaðilar okkar í Evrópu og Bandaríkjunum geta engan veginn skilið, frekar en við hvers vegna svo farsæl leið er lögð niður með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum.

Fagteymi GET. Fagþekking og reynsla nýtist áfram í starfi Hugarafls.

Það kemur æ betur í ljós að samstarf GET og Hugarafls var einstakt og hentaði fjölmörgum í bataferlinu, bæði einstaklingum og fjölskyldum. Það er leitað stíft til okkar eftir nákvæmlega þessari nálgun og þjónustu. Það virkar hreinlega þannig að umhverfið „samþykki“ ekki að GET sé horfið af sjónarsviðinu og raunar er reiknað með að Hugarafl sinni þeirri þjónustu sem GET sinnti áður. En því miður er það ekki svo að Hugarafl eitt geti sinnt svo viðamikilli þjónustu, þrátt fyrir að við höfum góðan vilja og finnum þörfina svo sterkt.

Áfram byggt á 15 ára faglegu starfi og notendaþekkingu

Vinna er í fullum gangi við nýtt húsnæði Hugarafls sem tekið verður í notkun í apríl.

Það hefur verið stefna Hugarafls allt frá upphafi að hafa sem flesta einstaklinga í starfi sem þekkja af eigin raun bataferlið eftir andlegar áskoranir.  Sú valdeflandi reynsla og þær öflugu fyrirmyndir eru ómetanlegur þáttur í að færa öðrum von og trú á bata þar sem fólk nær að blómsta, jafnvel eftir mikla vanlíðan og erfið áföll.  Í dag eru 2.25% stöðugildi mönnuð notendum með reynslu og vonandi fáum við tækifæri í framtíðinni til að fjölga þeim stöðugildum.  Í starfshópnum okkar eru jafnframt starfandi 5 fagmenn og hluti þeirra er einnig með þekkingu af andlegum áskorunum.  Nýlega var ráðinn inn sálfræðingur frá Rúmeníu sem heldur utan um erlend samstarfsverkefni m.a. á vegum Erasmus+.  Sjálfboðaliðar Hugarafls leggja svo ávalt mikið af mörkum í starfi samtakanna.

Eftirspurn eftir þjónustu okkar hefur ekki minnkað og við finnum þörfina alla daga. Eftirspurnin er sterkust eftir opnu úrræði og stuðningi í bataferli sem byggir á því að einstaklingur velur að taka þátt og er á eigin forsendum á bataleiðinni. Aðstandendur leita í auknum mæli til okkar, bæði í ráðgjöf og taka einnig þátt í aðstandendahópnum sem hittist reglulega tvisvar í mánuði. Við munum halda áfram að leggja okkar á vogaskálarnar til þess að samfélag okkar finni leið til að mæta einstaklingum og fjölskyldum á þann hátt sem við höfum gert undanfarin 15 ár. Við munum kappkosta að efla starf okkar þannig að við getum mætt þeirri eftirspurn sem við finnum svo augljóslega fyrir núna. En ljóst er að miðað við stöðuna í dag vantar hreinlega fleiri starfsmenn, bæði fagaðila og eins notendur með þekkingu og reynslu til að mæta aukinni eftirspurn eftir þjónustu Hugarafls.  Þjónustu þar sem áfram verður unnið samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem við sjáum að skilar sér vel í úrræði eins og okkar sem er opið og aðgengilegt.

Kærar kveðjur.
Stjórn Hugarafls 11.03.2019