Skip to main content
Fréttir

Ný aðferð linar sársauka.

By janúar 24, 2014No Comments

innlent | mbl | 24.1.2014 | 19:26
Ný aðferð linar sársauka

Auður Axelsdóttir, forstöðumaður Geðheilsu – eftirfylgdar, samfélagsgeðþjónustu innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, vill þróa nýjar aðferðir til að taka á geðrænum vandamálum. mbl.is/Golli
mbl.is Kristinn Ingi Jónsson – kij@mbl.is

Auður Axelsdóttir, forstöðumaður Geðheilsu – eftirfylgdar, samfélagsgeðþjónustu innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, vill að þróaðar verði nýjar aðferðir til að taka á alvarlegum geðrænum vandamálum. Eiga þurfi opið samtal við einstaklinga í geðrofi og aðstandendur þeirra.

Á málþingi Geðhjálpar, sem haldið var á Grand Hótel Reykjavík í gær, kynnti hún aðferð sem þróuð hefur verið í vesturhluta Lapplands í Finnlandi undanfarna þrjá áratugi.

Í samtali við mbl.is segir Auður að hún hafi unnið með aðstandendum þeirra sem glíma við geðræn vandamál undanfarin tíu ár og prófað sig áfram með nokkrar aðferðir, þar á meðal finnsku aðferðina.

Teymi til taks allan sólarhringinn

Auður segir að aðferðin, sem hún fjallaði um á málþinginu, heiti „opið samtal“ og gangi út á að aðstoða fólk í geðrofi. Geðrof er sturlunarástand sem einkennist af ofskynjunum og ranghugmyndum og stafar af skertum raunveruleikatengslum. Upplifir sá sem er í geðrofi eins konar stjórnleysi á aðstæðum.

Hún útskýrir að aðferðin gangi út á það að til taks sé teymi fagfólks, sem hægt sé að nálgast á öllum tímum sólarhringsins, og þegar upp komi bráðaástandi mæti starfsmenn teymisins strax á vettvang og stýri umræðum með sjúklingi og aðstandendum hans.

„Þar hefst þetta opna samtal.

Allir aðilar sem koma að viðkomandi setjast þá niður og ræða saman opinskátt um hvað sé á ferðinni, hvort eitthvað hafi komið upp á og svo framvegis. Fagfólkið leiðir samtalið en einstaklingurinn í geðrofinu er alltaf hafður með. Engin umræða fer fram eða ákvarðanir teknar nema viðkomandi taki þátt í því, þrátt fyrir veikindin,“ útskýrir Auður.

„Það er ekkert rætt á bak við hurðir.“

Hefur skilað góðum árangri

Að sögn Auðar geta margir komið að samstarfinu, svo sem fjölskylda, vinir, ættingjar, fagfólk og fleiri. „Allir hafa einhverjar upplýsingar um stöðu mála og þá hafa flestir einhverjar hugmyndir um hvernig megi leysa hlutina og styðja viðkomandi,“ segir hún.

Einnig geti komið upp á yfirborðið einhver mynstur innan fjölskyldunnar sem hafi reynst henni erfitt og leitt til veikinda.

Auður segir að finnska aðferðina svonefnda hafi skilað afar góðum árangri. 86% einstaklinga í fyrsta geðrofi, sem fara í gegnum meðferðina, fari aftur út í samfélagið. „Það er gríðarlega góður árangur,“ segir hún.

Munur á afstöðu til geðrofs

„Annað sem er einnig einkennandi fyrir þessa aðferð er munurinn á afstöðu hennar til geðrofs og því sem við þekkjum hér á landi,“ bætir Auður við.

Það sé ekki litið á geðrofið sem eitthvert sjúkdómseinkenni sem verði að slökkva, heldur sem afleiðingu af einhverju öðru. Mögulega sé líkami, sem og sálin, kominn í þrot, einhverra hluta vegna, og þess vegna komi geðrofið til.

„Og það er ekki byrjað á því að slökkva það með lyfjum, heldur er verið að hlusta eftir því hvað gerist í geðrofinu, hvað einstaklingurinn sjálfur segir,“ útskýrir hún.

Hefur færst í vöxt

„Ástæðan fyrir því að ég hef mikinn áhuga á þessu er sú að það hefur færst í vöxt að fólk sé að leita til okkar í bráðaaðstæðum. Fjölskyldur eru í mikilli neyð þegar svona kemur upp. Það er erfitt að taka ákvarðanir og það er erfitt að þurfa að leita til bráðaþjónustunnar. Þannig að við höfum farið heim til fólks og stutt það í öllu ferlinu.“

Auður segir að eitt af markmiðunum með aðferðinni sé að grípa til skjótra viðbragða til að koma í veg fyrir innlögn. „Það er það dýrmætasta, að aðferðin getur hindrað innlagnir og að vandinn verði verri en hann er,“ nefnir hún.

Linar sársaukannHugarafl_fundur

Að mati Auðar er stundum of fljótt gripið inn í aðstæður, þó svo að oft þurfi sannarlega að gera það.

„En þessi aðferð, þar sem farið er heim til fólks og rætt um vandann, linar sársauka fjölskyldunnar og þess sem er veikur. Hún normalíserar líka aðstæður af því að sá sem er veikur endar oft upp sem einn á móti öllum,“ segir hún.

„Það er allsendis ómögulegt að upplifa sig í þessum aðstæðum sem algjörlega valdalausan og einan á móti öllum.“

Aðspurð segir Auður að hún hafi prófað sig áfram með þessar aðferðir hér heima. „Við höfum verið að fikra okkur áfram með þessi prinsipp sem Finnarnir styðjast við, eins og að vinna í heimahúsum, vera alltaf til taks og styðja aðstandendurna.

Það gerir þessar aðstæður allar miklu léttari.“