Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

Mismunun í styrkjum til endurhæfingar geðsjúkra – Öll greinin

By nóvember 9, 2015No Comments

Hugarafli synjað um styrki sem sambærileg félagasamtök fá – Krefja ráðherra svara

Auður Axelsdóttir, forstöðukona Hugarafls, segir að þar á bæ skilji fólk ekki hvers vegna sambærilegir styrkir, og önnur félög sem veita geðsjúkum endurhæfingu, fáist ekki.

Auður Axelsdóttir, forstöðukona Hugarafls, segir að þar á bæ skilji fólk ekki hvers vegna sambærilegir styrkir, og önnur félög sem veita geðsjúkum endurhæfingu, fáist ekki.

Staða Hugarafls varð til þess að Erna Indriðadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, lagði í vikunni fram fyrirspurn á þingi til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Þar er hún krafin svara við því hvernig stæði á þessari mismunun og hvers vegna umsóknum Hugarafls um styrki hafi verið hafnað.

Aðrir fá tugi milljóna

Í greinargerð með fyrirspurninni bendir Erna á að nokkur félagasamtök veiti geðsjúkum endurhæfingu. „Staða þeirra er mjög mismunandi þótt starfsemi þeirra sé sambærileg. Hugarafl fær þannig tvær milljónir frá heilbrigðisráðherra en Geðhjálp, Geysir og Hlutverkasetur fá tugi milljóna í styrki frá velferðarráðuneytinu beint og óbeint. Umsóknum Hugarafls til velferðarráðuneytisins um sambærilega styrki hefur hins vegar verið hafnað.“

Þær upplýsingar fengust hjá Hugarafli að vissulega muni um að samtökin séu í fríu húsnæði. Eiríkur Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Hugarafli, bendir á til samanburðar að á meðan Hugarafl búi við þröngan fjárhagslegan kost þá fái samtök eins og Geðhjálp, sem hann segir vissulega gera ágætis hluti, fullt af peningum. Bendir hann á að samkvæmt ársreikningi hafi þau átt 145 milljónir í eigið fé og keypt húsnæði á rúmar 90 milljónir í febrúar síðastliðnum. Geðhjálp fær 17 milljónir í framlög frá ríkinu á ári og 5 milljónir frá Reykjavíkurborg.

Auður segir að Hugaraflsfólk sé slegið yfir því að vera synjað um styrki og einu styrkveitingar til samtakanna séu tvær milljónir á ári sem sótt sé um árlega hjá heilbrigðisráðherra þegar auglýst er eftir umsóknum.

Fátt um svör frá ráðherra

„Við teljum okkur vera einn virkasta hópinn sem er að starfa í þessu og erum brautryðjandi í bæði batahugmyndafræðinni og valdeflingunni – sem er tískuorð í dag, en við höfum unnið með í þrettán ár.“
Aðspurð segir Auður að þrátt fyrir að fundað hafi verið með félagsmálaráðherra árlega síðan hún tók við embætti hafi engar skýringar fengist á þessari útilokun.

Samkvæmt upplýsingum frá Hugarafli eru samtökin með um 50 þúsund komur á ári og sinna 39 þúsund komustundum. Margir koma vissulega oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

„Við erum að fá 50 krónur á hverja komu meðan aðrir eru kannski að fá 4.000 krónur á komu einstaklings,“ segir Auður. Hún segir að Hugaraflsfólk sem er í bata gefi gríðarmikið af sér til samtakanna og vinni baki brotnu í sjálfboðavinnu. „Það er afskaplega vanmetið.“

Vanmetið starf

Hún kveðst bíða spennt eftir skriflegu svari ráðherra við fyrirspurn Ernu á þingi en það verði ekki endir málsins. „Við munum reyna að átta okkur á þessu og af hverju starf með fólki, þessi endurhæfing, sé svona vanmetin. Starf sem unnið er í samstarfi fagfólks og notenda með reynslu. Og af hverju má endurhæfing ekki taka tíma?“

En hvað er það sem Hugarafl gerir? Auður segir að í einföldu máli þá styðji Hugarafl fólk við að ná bata eftir geðræn veikindi og við að komast aftur út í samfélagið og bæði miðla reynslu fólks sem komist hefur þangað sem og veita faglega þjónustu. Einnig sé unnið mikið hópastarf og boðið upp á margvíslega dagskrá og ótal valmöguleika.

„Það er mikið val sem fólk hefur til að byggja sig upp. Það getur komið hingað og verið eins lengi og það þarf. Það er ekki verið að þrýsta á fólk á einhverjum þremur mánuðum heldur færðu leyfi til að vinna í þinni endurhæfingu sem tryggir svolítið að þú hefur meiri möguleika á að ná bata og meiri möguleika á að komast aftur til starfa eða í skóla eða hvað það er sem þú ert að gera. Síðan vinnum við mikið með fjölskyldunni og það eru fáir hópar sem gera það.“

Greinin birtist upphaflega í DV og má nálgast hér:  https://www.dv.is/frettir/2015/10/24/mismunun-i-styrkjum-til-endurhaefingar-gedsjukra/

Sigurður Mikael Jónsson
mikael@dv.is
06:0023. október 2015