Skip to main content
Fréttir

Minn­ist góðu stund­anna með bróður sín­um

By september 11, 2014No Comments

Inn­lent | Morg­un­blaðið | 11.9.2014 | 20:15

Minn­ist góðu stund­anna með bróður sín­um

Árlega deyja mun fleiri í sjálfs­víg­um hér á landi en í um­ferðinni. Á bil­inu 33 til 37 falla að meðaltali fyr­ir eig­in hendi á hverju ári sem er ótrú­lega há tala sem gott væri að sjá lækka. Í gær var Alþjóðadag­ur sjálfs­vígs­for­varna og voru kyrrðar­stund­ir haldn­ar víða. Ung­ur knatt­spyrnumaður, Krist­inn Freyr Sig­urðsson, missti bróður sinn í sjálfs­vígi átján ára gam­all og ætl­ar að segja sögu sína.

Stund­um virðist vera óskráð regla að ræða ekki um sjálfs­víg. Eins og það sé eitt­hvað sem beri að hafa hljótt um og ekki nefna upp­hátt. Krist­inn Freyr Sig­urðsson er í dag tutt­ugu og tveggja ára og er sann­færður um að fátt sé verra en þögn­in þegar ein­hver ná­kom­inn hef­ur tekið eigið líf. Bróðir hans, Guðmund­ur Þór Sig­urðsson, framdi sjálfs­víg 6. sept­em­ber 2010, tutt­ugu og þriggja ára gam­all og þá missti Krist­inn Freyr ekki bara bróður sinn held­ur einn af sín­um bestu vin­um.

Ekki reiður út í hann

Krist­inn Freyr er yngst­ur í fjög­urra bræðra hópi. Guðmund­ur var næstyngst­ur og þeir tveir voru nán­ir. Elstu bræðurn­ir tveir voru flutt­ir að heim­an en þeir yngri bjuggu í for­eldra­hús­um. Það var mikið reiðarslag fyr­ir alla fjöl­skyld­una þegar Guðmund­ur dó og ýms­ar til­finn­ing­ar gerðu vart við sig. „Ég varð ekki reiður, því hann var bú­inn að segja við mig að hann vildi deyja. Ég hafði vitað það í smá tíma og hann hafði reynt sjálfs­víg áður en hon­um tókst það,“ seg­ir Krist­inn Freyr. „Fyrst var ég nátt­úr­lega bara gríðarlega sorg­mædd­ur og svo kom eft­ir­sjá yfir að hafa ekki getað gert meira en ég gerði,“ seg­ir hann. Það er nokkuð al­gengt að þeir sem horfa á eft­ir ást­vini í dauðann með þess­um hætti ásaki sjálfa sig fyrst í stað og velti fyr­ir sér hvort eða hvernig þeir hefðu getað komið í veg fyr­ir sjálfs­vígið.

Það sem hef­ur hjálpað Kristni Frey mikið við úr­vinnslu til­finn­ing­anna og í sorg­ar­ferl­inu er að hafa alltaf náð að tala op­in­skátt um hvað gerðist. „Ég myndi ekki mæla með því að fólk reyndi að fela sann­leik­ann því það þarf að tala um þetta,“ seg­ir hann.

Umræðu er þörf

Í gær, 10. sept­em­ber, var Alþjóðadag­ur sjálfs­vígs­for­varna en dag­ur­inn er hald­inn til að heiðra minn­ingu þeirra sem fallið hafa fyr­ir eig­in hendi. Sér­stak­ar kyrrðar­stund­ir voru haldn­ar í Dóm­kirkj­unni í Reykja­vík, Ak­ur­eyr­ar­kirkju og Eg­ilsstaðakirkju. Krist­inn Freyr sagði sögu sína í Dóm­kirkj­unni. Það er ekki auðvelt að standa fyr­ir fram­an fjölda fólks og ræða til­finn­ing­arn­ar sem bær­ast innra með manni og rifja upp erfiða at­b­urði. En það er samt nauðsyn­legt þó að erfitt sé og því deildi Krist­inn Freyr reynsl­unni með viðstödd­um. „Það er nauðsyn­legt að tala um sjálfs­víg því að sjálfs­vígstíðni á Íslandi er gríðarlega há. Að meðaltali fremja þrjá­tíu og þrír til þrjá­tíu og sjö Íslend­ing­ar sjálfs­víg á hverju ári en samt virðist umræðan ekki vera meiri en hún er. Það finnst mér mjög skrýtið,“ seg­ir hann.

Mik­ill styrk­ur í for­eldr­un­um

Hóp­ur fólks sem vill efla umræðuna um þessi mál hef­ur nú sam­ein­ast og mun á næst­unni vera með fræðslu og stuðning fyr­ir þá sem misst hafa ást­vini vegna sjálfs­víga. Hóp­ur­inn held­ur úti vefsíðunni www.sjalfs­vig.is. For­eldr­ar Krist­ins Freys hafa verið öt­ul­ir í starfi hóps­ins sem að síðunni stend­ur og hafa hjálpað son­um sín­um og öðrum við að vinna úr sorg­inni. „Ég hef farið til sál­fræðings og talað við prest en ein­hvern veg­inn hef­ur mér alltaf fund­ist best að tala við for­eldra mína. Þau hafa hjálpað mér mikið,“ seg­ir Krist­inn Freyr.

Hon­um er mikið í mun að opna umræðuna til að hægt sé að lækka sjálfs­vígstíðnina hér á landi. Við þá sem eru í svipuðum spor­um og hann var sjálf­ur fyr­ir fjór­um árum þegar hann missti bróður sinn vill hann segja að það skipti sköp­um að leita sér hjálp­ar og tala við ein­hvern. „Því það er betra að tala um þetta og mik­il­vægt að tala þá við ein­hvern sem maður treyst­ir al­gjör­lega og helst ein­hvern sem veit hvernig þetta er. Það var þess vegna sem mér fannst best að tala við mömmu og pabba því þau vissu ná­kvæm­lega hvernig mér leið,“ seg­ir hann og bæt­ir í lok­in við því sem að hans mati skipt­ir einna mestu máli: „Það sem hef­ur hjálpað mér gríðarlega mikið er að hugsa um góðu stund­irn­ar. Þótt oft komi upp í hug­ann eitt­hvað nei­kvætt eða eitt­hvað sem ég hefði getað gert bet­ur þá ætti maður alltaf að reyna að hugsa um það góða sem maður átti með mann­eskj­unni. Ekki hugsa um „hvað ef“ og „ef ég hefði“ þó að það sé hæg­ara sagt en gert verður maður að reyna eft­ir bestu getu að hafa það þannig,“ seg­ir Krist­inn Freyr Sig­urðsson að lok­um.

Malín Brand
mal­in@mbl.is
Morgunblaðið