Skip to main content
Greinar

jónustan færð nær notendum.txt

By febrúar 20, 2014No Comments

„Það býr svo miklu meira heilt í hverjum einstaklingi en við höldum,“ segir Héðinn Unnsteinsson

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is „ÞETTA er mjög jákvætt. Í Evrópu er þróunin sú að þjónustan við geðsjúka er að færast frá stóru sjúkrahúsunum til nærsamfélagsins og heilsugæslunnar, nær borgurunum.

„ÞETTA er mjög jákvætt. Í Evrópu er þróunin sú að þjónustan við geðsjúka er að færast frá stóru sjúkrahúsunum til nærsamfélagsins og heilsugæslunnar, nær borgurunum. Þetta er angi af víðtækari þróun sem er sú að þjónustan er víða að færast frá ríki til sveitarfélaga. Mér finnst þetta hluti af opnu lýðræði, þar sem borgurunum er gert mögulegt að hafa áhrif á þjónustuna af því að hún er nær þeim.“

Þetta segir Héðinn Unnsteinsson, sérfræðingur í stefnumótun á geðheilbrigðissviði, um þá ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar að koma upp sambærilegri þjónustu við þá sem glíma við geðraskanir í borginni og boðið hefur verið upp á á Akureyri undanfarin ár. Í „Akureyrarmódelinu“, eins og það er gjarnan kallað, er lögð áhersla á að veita þverfaglega þjónustu á einum stað í samvinnu sjúkrahússins, félagsþjónustunnar og heilsugæslunnar. Í ljósi þess að Reykjavík er fjölmennara svæði segir Héðinn að samþætta þurfi þjónustu fleiri aðila. Og góðir hlutir taki tíma. „Þetta er svona eins og að snúa olíuflutningaskipi, við þurfum að hafa þolinmæði og umburðarlyndi, en þetta tel ég vera hluta af ákveðnu ferli sem þegar er komið í gang.“

Héðinn bendir á að æskilegt sé að sem flestir sem á þurfi að halda, hvort sem það eru vímuefnaneytendur, fatlaðir eða geðsjúkir, fái þjónustu í sínu nærsamfélagi. „Áskorunin er sú að við náum blöndun í samfélaginu, að fólk sem glímir við sjúkdóma sé ekki tekið úr umferð, og áttum okkur á því að það býr svo miklu meira heilt í hverjum einstaklingi en við höldum. Við megum ekki flokka fólk og meta það út frá þeirri sjúkdómsgreiningu sem það hefur fengið.“

Þjónustan verði hreyfanlegriAuður Axelsdóttir, iðjuþjálfi og forstöðumaður hjá Geðheilsu – eftirfylgd innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, fagnar ákvörðun borgarinnar. Hún segir að á Akureyri sé m.a. lögð áhersla á að fylgja fólki betur eftir út í samfélagið en slíkt starf hafi einnig verið unnið hjá heilsugæslunni í nokkur ár með góðum árangri. Mikilvægt sé að veita þjónustuna í nærumhverfi notendanna og gæta þess að klæðskerasauma hana að hverjum og einum. „Þjónustan þarf að vera hreyfanleg. Við þurfum að gera meira af því að vinna með fólki á vettvangi þess, hvort sem það er heima, í skóla eða á vinnustað. Það höfum við þegar prófað með góðum árangri.“
Auður segir það verða mjög til bóta að samræma þjónustu við geðsjúka í Reykjavík. Nokkuð skorti í dag upp á samvinnu milli félags- og heilbrigðiskerfisins. „En það er þegar unnið að úrbótum og samræmingu,“ segir hún, „þannig að ég held að við séum ágætlega þenkjandi en getum auðveldlega notað okkur það sem reynst hefur vel, eins og fyrir norðan. Við þurfum einnig að horfa á það sem t.d. heilsugæslan hefur verið að gera með aukinni þjónustu við geðsjúka og fjölskyldur þeirra og efla það starf enn frekar.“

Kunna að nýta tækifærin í umhverfinu„Akureyrarbær hefur ráðið til sín starfsfólk sem er sérmenntað í færni, hvernig eigi að efla hana sem og sjálfstæði fólks með geðraskanir og það er það sem skilar árangri fyrir norðan,“ segir Elín Ebba Ásmundsdóttir, forstöðuiðjuþjálfi á Landspítala og lektor við Háskólann á Akureyri. „Starfsfólkið kann að nýta sér tækifærin sem eru í nánasta umhverfi fólksins til að efla það.“
Margir iðjuþjálfar koma að þjónustu við geðsjúka á Akureyri og er iðjuþjálfun kennd við HA. „Menntunin skilar sér þarna í betri þjónustu,“ segir Elín Ebba. Hún bendir á að fleiri þættir hafi einnig átt þátt í góðum árangri nyrðra. Samfélagið sé lítið og auðveldara sé að samþætta þjónustuna fyrir vikið. Nú hafi veri ákveðið að nýta reynslu Akureyringa í Reykjavík og það sé vel. „Það hafa orðið hugmyndafræðilegar breytingar, breytingar sem byggjast á því að efla styrk og færni fólks. Það hefur nú sýnt sig að slík nálgun skilar árangri.“