Skip to main content
Greinar

Hvernig er staðan á íslenskum geðdeildum í dag?

By júní 30, 2016No Comments

SIGRÍÐUR MARGRÉT ÖRNÓLFSDÓTTIR SKRIFAR

Aðili sem ég hitti nýlega og starfa sinna vegna kemur oft inn á geðdeildir með fólk í allavega ástandi tjáði mér að hann upplifði ástandið þar hafa versnað. Þar sæi hann fólk sem erfitt væri að ná augnsambandi og eiga samræður við.

Eru þetta lyfjaáhrif?

Það eru 20 ár síðan ég fékk greininguna schizophrenia, ofheyrnir og ofsjónir í kjölfar áfalls. Sex fyrstu árin, innlagnir á geðdeild, ýmis meðferðarúrræði og lyfjagjöf. Síðastliðin rúm 14 ár utan geðbatterísins á lygnum sjó. Reynsla mín og saga svo margra annarra er kveikjan að þessari grein.

Þann 15. júní sl. var haldið málþing á vegum Geðhjálpar sem margir stóðu að. Hefur okkur borið af leið? Þar flutti bandarískur geðlæknir, Allen Frances, fyrirlestur. Umfjöllunarefnið ofgreiningar og ofneysla lyfja. Þetta er löngu tímabært og hristir vonandi ærlega upp í kerfinu.

14. júní er grein í Fréttablaðinu um málþingið. Þar kemur Þórgunnur Ársælsdóttir geðlæknir fram með margt gott og segir framþróun hafa orðið varðandi lyf sem geti gagnast við alvarlegum geðröskunum. Eru til samantektir eða rannsóknir sem styðja þessa fullyrðingu eða er þetta huglægt mat?

Gífurleg ábyrgð

Ábyrgð geðlækna er gífurleg miðað við það huglæga mat sem ákvarðar greiningu og meðferð sjúklings. Líf og heilsa fólks er undir.

Við stofnun Hugarafls 2003 komu ferskir vindar inn í umræðuna um geðheilbrigðismál og samtökin hafa komið mörgum með geðraskanir til aðstoðar. Auður Axelsdóttir, ein af frumkvöðlunum og forstöðumaður Hugarafls, spurði spurninga, fékk fyrirlesara, hélt málþing og kynnti nýjungar, m.a finnsku aðferðina, og vakti það litla hrifningu meðal margra geðlækna. Finnska aðferðin gengur út á að virkja fjölskyldu og fagaðila og mynda stuðningsnet um sjúkling. Samtöl notuð. Lyf notuð í undantekningartilfellum. Rannsóknir hafa sýnt fram á umtalsverðan árangur. Af hverju ekki að gefa þessu gaum?

Ef ég hefði notið finnsku aðferðarinnar, e.t.v. án lyfja, hefði ég losnað við sex mismunandi aukaverkanir. Rúmlegu að mestu vegna þreytu og máttleysis í rúm tvö ár. Og hugsanlega ofbeldi og nauðungarvistanir. Lyf hafa aldrei haft áhrif á skynjanir mínar. Ég set spurningarmerki við fikt með lyfjanotkun sem á að hafa áhrif á á heilastöðvar og boðskipti. Hvað liggur þar að baki? Í mínu tilfelli komu samt róandi áhrif lyfja stundum að gagni.

Ég er langt komin með lestur bókarinnar Saving Normal eftir áðurnefndan geðlækni, Allen ­Frances. Vona að sem flestir innan geðheilbrigðiskerfisins kynni sér efni þessarar bókar og nýti í störfum sínum. Breytt viðhorf, starfsaðferðir og verklag þarf ekki að kosta mikla peninga. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.
29. JÚNÍ 2016