Skip to main content
Fréttir

Hugarafl sækir Ísafjörð heim

By maí 20, 2018No Comments

Hugaraflsfólk ásamt þátttakendum á námsskeiðinu á Ísafirði.

Ísafjörður skartaði sínu fegursta þegar Hugarafl sótti Ísfirðinga heim dagana 10.-13.maí í boði bæjarins og öflugra brautryðjenda m.a. frá Vesturafli, Starfsendurhæfingunni og Rauða krossinum. Hugarafl hélt tvær vinnusmiðjur sem fjölluðu um samfélagsgeðþjónustu annars vegar og hins vegar var valdefling kynnt og farið yfir starf með ungu fólki sem gengið hefur í gegnum geðræna erfiðleika og vinnur að bata sínum. Fræðarar frá Geðfræðslu Hugarafls héldu fræðslu í grunnskólanum og hittu einnig kennara framhaldsskólans. Móttökur voru vægast sagt frábærar, hugsjónir og vilji til verka geislaði af frumkvöðlunum og þeim gestum sem sóttu Geðfræðsluna og vinnusmiðjurnar.

Dagana 11.-13.maí var Ísfirðingum síðan boðið á námskeið í eCpr eða andlegu hjartahnoði lsem var leitt af þremur þjálfurum frá Hugarafli, Auði Axelsdóttur, Einari Björnssyni og Málfríði Hrund Einarsdóttur formanni Hugarafls. Það eru einungis fjórir einstaklingar sem hafa lokið þjálfun eCpr í Evrópu.

Námskeið í eCpr kennir nálgun í samskiptum sem byggir á því að einstaklingar tengjast í gegnum hjartað og tenging verður þannig sterkari og jafnframt vænlegri til að verða verkfæri þess einstaklings sem gengur í gegnum erfiðleika.  Fram fer samtal/nánd sem byggir á tengingu við tilfinningar og nýtist vel einstaklingum sem eru að ganga í gegnum tilfinningalegt álag. Einstaklingi er mætt með nánd, samlíðan og samveru á jafningjagrunni.

Námskeiðið var vel sótt, gleði og kærleikur ríkti og þátttakendur lögðu sig alla fram af mikilli einlægni. Þátttakendur fóru ánægðir heim eftir annasama helgi og þægilega þreyttir. Rík samstaða og samkennd skapaðist yfir helgina og menn ákveðnir í að hittast aftur í haust til að halda áfram samstarfi og tengingu á milli Hugarafls og Ísafjarðar. Það er gaman að geta þess að Vesturafl var stofnað af tveimur Hugaraflskonum sem vildu efla þjónustu í sinni heimabyggð við einstaklinga sem ganga í gegnum geðrænan vanda.

Hópur Hugarflsmanna fór glaður heim og það var sannarlega gott að fá þvílíkar mótttökur og hvatningu í þeirri baráttu sem Hugarafl hefur háð undanfarna mánuði.

Ummæli frá þátttakanda: ”það er ekkert dýrmætara en sú hugsjón að manneskjur sem hafa glímt við geðsjúkdóm og sjálfskaða og aðrar erfiðar áskoranir í lífinu séu tilbúnir að deila reynslu sinni og valdefla aðra, sem við vitum að hefur hjálpað svo mörgum, það er Hugarafl fyrir mér. Hugarafls vinir mínir komu á Ísafjörð á síðustu helgi og voru með málstofur og námskeið,mig langar bara svo að þakka þessu yndislega fólki fyrir þeirra framlag og svo að lokum, ”GET og HUGARAFL má ekki hætta landsbyggðin þarfnast ykkar”. Davíð Björn Kjartansson

Það var vel tekið á móti Hugaraflsfólki á Ísafirði