Skip to main content
Fréttir

Opið bréf frá formanni Hugarafls

By desember 30, 2017janúar 11th, 2018No Comments

Formaður Hugarafls, Málfríður Hrund Einarsdóttir skrifar opið bréf sem sent verður m.a. til allra þingmanna og ráðherra.

Reykjavík 20.12.2017

Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins hefur ákveðið að rjúfa samstarf og samning sem nú er í gildi við teymi Geðheilsu-eftirfylgdar(GET) og félagið sem ég veiti formennsku, Hugarafli.
Í upphafinu árið 2003, var að beiðni Heilsugæslu höfuborgasvæðis ákveðið að Geðheilsa-Eftirfylgd (GET) yrði hýst  þar á bæ og myndi Heilsugæslan einnig hýsa starfsemi Hugarafls.  Þar sem leggja á það flotta teymi niður sjáum við fram á að verða húsnæðislaus um mitt næsta ár.  Þetta tel ég vera samningsrof við GET og Hugarafl og það bakland sem Heilsusgæslan átti að vera hefur algjörlega brugðist.

Þetta hefur gríðarlega þýðingu fyrir félagið.  Mánaðarlega sækja rúmlega 200 manns þjónustu og komur í Hugarafl um 1200 talsins. Samanlagt koma til GET og Hugarafls um 300 einstaklingar á mánuði.
Auk húsnæðisleysis mun okkar fólk enn og aftur þurfa að leita fagaðstoðar á nýjum stað.  Að einhverju leiti mun okkar fólk geta leitað til nýrra teyma innan Heilsugæslunnar, en því miður verður það ekki nema lítill hluti okkar hóps. Teymin nýju munu starfa samkvæmt póstnúmerum og tilvísunum og munu þar að auki fara hægt af stað. Ekki verður um virnkidagskrá Hugarafls að ræða þar og því fer hún forgörðum hjá meginþorra hópsins.

Það tekur alltaf tíma að mynda traust og byrja góða vinnu til að taka á geðheilsuvanda og verða því margir á byrjunarreit hvað það varðar. Þá spyr ég mig hvað verði um það fólk sem ekki tilheyrir ekki þessum póstnúmerum og passar ekki inn í þá þjónustu? Geðsjúkdómar leggjast ekki á fólk eftir póstnúmerum!

GET og Hugarafl hafa öll þessi ár aðstoðað fólk sama hvaðan af landinu sem er. Sumir hafa komið til okkar, dvalið í höfðuborginni á meðan hugmyndafræðin okkar og starfið fer í blóðrásina og snúið svo til síns heima með fullt af verkfærum til að lifa. Þá sýnist mér enn og aftur verið að flækja hlutina með því að þurfa tilvísun á teymin frá heimilislæknum, sem eru ekki á hverju strái og geðgreiningar í pokann sinn til að komast að. Hvurslags vinnubrögð eru þetta? Hingað til hefur hver sem hefur við geðrænan vanda að glíma komið milliliðalaust í þjónustu til Hugarafls og GET, hvort sem viðkomandi nýti sér báða aðila eða ekki. Þá þarf ekki tilvísanir eða geðgreiningar heldur aðeins vilja til að ná heilsu á ný. Við höfum lagt áherslu á forvarnir, að grípa einstaklinga strax en ekki hindra með flöskuhálsum. Þetta þykir mér dapurlegt og lýsir einungis skilningsleysi á slíkum vanda eins og geðvanda, því hvert skref til að leita aðstoðar er gríðarlega þungt og stórt. Stór hluti Hugaraflsfólks er með sínar endurhæfingaráætlanir í samvinnu við GET og munu þær áætlanir verða í uppnámi eftir að teymið hættir. Þá sé ég okkar fólk fara inn í hátíðar ljóss og friðar með mikinn kvíða og reiði, yfir óvissunni um húsnæðismál sinnar endurhæfingar, óvissu um framfærslu sína og óvissu um hvar það geti fengið þá fagaðstoð sem hingað til hefur verið á staðnum.  Þetta er ljótur leikur!

Einnig má taka fram þann lykilhóp sem gjarnan gleymist í allri vinnu með geðræna erfiðleika, en það eru aðstandendur.  Síðastliðin 15 ár hefur verið starfræktur hópur fyrir aðstandendur hjá GET og Hugarafli, en þeir eru helsti stuðningur þeirra sem veikjast. Auk þess er mikil fjölskylduvinna unnin hjá teyminu í  bataferli einstaklinganna og tengslanetið virkjað. Nú er sá hópur í uppnámi og mun fara með teyminu. Er ekki nóg komið af þessari hunsun í garð aðstandenda?  Langar okkur að framleiða geðvanda með svona vinnubrögðum? Vegna álags!

Undirritaðri þykir umhugsunarvert að millistjórnendur geti upp á sitt eindæmi lagt niður starfsemi sem GET er og taka má fram að forstöðumaður þess, Auður Axelsdóttir, fékk nýlega æðstu viðurkenningu þjóðarinnar, Fálkaorðuna. Er þetta stéttapólitík eða einkahagsmunagæsla sem hér er verið að iðka á kostnað lífsgæða fólks með geðrænan vanda?

Þá langar mig að enda þetta á að segja frá því að undirrituð fór til USA í ágúst s.l. á stóra ráðstefnu til einmitt að fara með erindi um þetta flotta „concept“  sem GET og Hugarafl er, samstarf fagfólks og notenda.  Þetta þótti gríðarlega flott og leit fólk þar ytra á Ísland sem fyrirmynd í þessum efnum. Þegar þetta fór fram hafði ég heyrt að þetta væri búið spil, að teymið skyldi lagt niður og samstarfið í hættu. Ég hafði ekki orð á því ytra þar sem ég hreinlega trúði ekki að af yrði, auk þess sem ég hafði óbragð í munni vegna þess að mér fannst þetta hræsni og eins og að pukur hafi átt sér stað í þessari ákvarðanatöku.

Með innilegri kveðju inn í hátíð ljóss og friðar,
Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls.