Skip to main content
Greinar

Hollusta af fiskneyzlu ótvíræð

By febrúar 20, 2014No Comments

FISKIFÉLAG Bandaríkjanna, The National Fisheries Institute (NFI) og sölusamtök framleiðenda sjávarafurða hafa gefið út veggspjald, sem sýnir hvaða áhrif neyzla sjávarafurða hefur á hina ýmsu líkamshluta og starfsemi líkamans og hvernig mataræði sem inniheldur sjávarafurðir getur gert líkamanum og heilsu fólks gott. Það sýnir meðal annars hvaða jákvæðu áhrif omega3-fitusýrurnar hafa á líkamshluta eins og heilann, augun, hjartað, lungun og liðamótin. Fari fólk eftir ráðleggingum Manneldisráðs Bandaríkjanna um að borða fisk að minnsta kosti tvisvar í viku, getur fólk bætt heilsu sína, segir NFI Geta dregið úr þunglyndi Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að prótein, vítamín, steinefni og omega3-fitusýrur geta dregið úr áhættunni á hjartasjúkdómum og hjartaáföllum og geta bætt heilsu okkar og líf með því að sporna gegn áhrifum Alzheimer-sjúkdómsins og draga úr geðsjúkdómum eins og þunglyndi. NFI leggur til að fólk fari að þessum leiðbeiningum allt árið til þess að tryggja sem jákvæðust áhrif af neyzlu sjávarafurðanna. Hjartavernd Bandaríkjanna segir að omega3-fitusýrurnar, sem finnast í fiski, séu líka góðar fyrir hjartað í heilbrigðu fólki, en umfram allt séu þær jákvæðar fyrir fólk sem er í hættu að fá hjartasjúkdóma, til dæmis vegna ættarsögu, og fyrir fólk, sem hefur verið greint með slíka sjúkdóma. Rannsóknir sýna að meðal eldra fólks dregur neyzla á túnfiski og grilluðum fiski úr líkum á hjartaáföllum. Leggja til neyzlu á kaldsjávarfiski Alzheimer-samtökin leggja einnig til neyzlu á kaldsjávarfiski, sem inniheldur omega3-fitusýrur eins og lúðu, makríl, laxi, silungi og túnfiski. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að neyzla á feitum fiski hefur miklu meiri jákvæð áhrif, en hugsanleg neikvæð áhrif vegna innihalds þrávirkra eiturefna eins og PCB og díoxíns. Innihald slíkra efna er í nánast öllum tilfellum langt undir þeim viðmiðunarmörkum sem manneldisráð í Bandaríkjunum og Evrópu setja, sem hættuleg heilsu manna. Rannsóknir hér við land sýna til dæmis að eiturefni af þessu tagi í fiski veiddum við landið eru mjög langt undir hættumörkunum. Þannig má segja með nokkrum sanni að fiskur veiddur við Ísland sé einhver hollasti matur, sem fáanlegur er í veröldinni.