Skip to main content
Greinar

„Hann missti tökin á eigin hugsunum“

By apríl 14, 2016No Comments

 

„Sjálfsvíg eru afleiðing sálarangistar, þunglyndis og kvíða einstaklings sem eru oftar en ekki hulið samferðafólki hans.“

Með þessum orðum hefst pistill Sigríðar Elínar Leifsdóttur, þar sem hún fjallar á opinskáan og einlægan hátt um sjálfsvíg eginmanns síns til 35 ára, en hann hafði barist við þunglyndi og kvíða um árabil.

Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaði Suðurlands.

Einn á viku
Sigríður bendir á að fólk á öllum aldri og af öllum stigum þjóðfélagsins svipti sig lífi, og að á Íslandi missum við einn einstakling á viku í sjálfsvígi. Hún segir hugmyndir fólks um þá sem fremja sjálfsvíg séu oft á villigötum. Sumir hafi ef til vill verið þungir í lund, miklir einfarar, hlédrægir og félagsfælnir, en algengara sé að viðkomandi hafi verið svo þjakaður af kvíða og þunglyndi að svartnættið eitt hafi blasað við. „Hafi fundist sitt nánasta fólk, fjölskylda og vinir betur sett á hans, að hann væri þeim svo mikil byrði með erfiðleika sína og líðan. Sumir halda að þeir sem falla fyrir eigin hendi séu haldnir einhverjum persónulegum veikleika, og veldur því að menn dæma viðkomandi og flokka sem „lúser“. Sá flokkur er ekki til!“

Með mörg áhugamál
Sigríður var gift Leifi í 35 ár. „Hann var af þessum einstaklingum sem var of lifandi til að getað dáið. Hann átti einstaklega auðvelt með að laða að sér fólk, var vinamargur og hafði fjölbreytt áhugamál og tileinkaði sér góða þekkingu á öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var veiðimaður, veiðihundaþjálfari, tónlistaráhugamaður sem spilaði á gítar og hann söng í rokkkór. Hann var myndasmiður, mikill útivistarmaður og hlaupari svo fátt eitt sé nefnt.  Án efa hafa öll þessi áhugamál hjálpað honum og sérstaklega útiveran og hlaupin sem hann sagði „allra meina bót“.“

„Hvernig má þá vera að maður sem er elskaður af ástvinum sínum, hreyfir sig reglulega, á sér fjölmörg áhugamál og er í góðri vinnu tekur upp á því einn daginn að hverfa frá þessu öllu?“ spyr Sigríður.

Sálarangist
„Mörg okkar hafa stöku sinnum upplifað sálarangist, en flest okkar þekkja hana ekki. Hún kemur yfir okkur þegar eitthvað virðist óleysanlegt og aðstæðurnar algjörlega vonlausar. Enginn utan nánustu fjölskyldu Leifs vissi að hann glímdi við alvarlegan kvíða sem ágerðist hin síðari ár. Andleg veikindi Leifs eiga langa forsögu í þungbærum áföllum á lífsleiðinni, þegar ekki var hefð fyrir að karlmenn bæru tilfinningar sínar á torg. Veikindin tóku sér einnig bólfestu í líkama hans, en rótin lá í miklum kvíða og þunglyndi sem hann barðist við af alefli gegn m.a með útivist og hlaupum. En þegar nístandi sálarkvöl verður óbærileg og hyldjúpt vonleysi fyllir hugann verður svartnætti.“

Umræðan
Sigríður bendir á að mörgum reynist erfitt að biðja um hjálp, og umræðan um sálarangist sé ekki nægilega opin. Hún segir karlmenn eiga sérstaklega erfitt með þetta, enda séu þeir meirihluti þeirra sem svipta sig lífi. „Þeir jafnvel skammast sín fyrir slíkar hugsanir og vegna eigin viðhorfa til sjálfsvíga halda þeir tilfinningunum fyrir sig. Sjálfsvígshugsanir eru svo andlega íþyngjandi, að þær geta myndað gjá milli þolenda og hans nánustu. Hinn látni gat ekki deilt angist sinni með öðrum, en vill samt ekki að hans nánustu þjáist vegna missisins. Afar þröngt sjónarhorn (rörsýni) einkennir sjálfsvígshugsanir.“

Forvarnir
Sigríður vill opnari samfélagsumræðu í forvarnaskyni, og segir að þöggun ríki varðandi málið. „Tölum um erfiðar tilfinningar rétt eins og við tölum þráláta verki. Tölum um andlega líðan, sálarangist, depurð, kvíða, vonleysi o.s.frv.“

Hún hvetur lesendur sem kunna að glíma við andleg veikindi að leita sér aðstoðar á næstu heilsugæslustöð, hjá vini eða félagasamtökum sem veita hjálp. Einnig vekur hún athygli á vefslóðum þar sem upplýsingar og hjálp er að finna: www.sjalfsvig.is, www.hugarafl.is, www.gedhjalp.is.

Lífið er í dag
Að lokum ritar Sigríður: „Það er þungbært þegar ástvinur manns tekur eigið líf, spurningarnar hrannast upp og erfitt er að skilja hvað olli svo miklu hugarangri. Huggun mín felst í að andleg veikindi eru alvarleg og þau tóku yfir huga Leifs og hann missti tökin á eigin hugsunum.

Leifur hafði tröllatrú á hreyfingu sem allra meina bót og tók virkan þátt í félagsskap Frískra Flóamanna hér á Selfossi. Hann stuðlaði m.a að því að haldin væri byrjendanámskeið þátttakendum að kostnaðarlausu og er einmitt slíkt námskeið í gangi núna.

Að lokum langar mig sérstaklega til að þakka samferðafólki okkar hér á Selfossi sem hefur stutt mig og fjölskylduna í þessum erfiðu tímum. Nágrönnum mínum í Kálfhólum, samstarfsfólki  í Ráðhúsinu, svo og félögum mínum og Leifs úr leik og starfi vil ég færa mínar bestu þakkir fyrir ómetanlegan stuðning.

Með þakklæti og vinsemd, Sigríður Elín Leifsdóttir.“

Frá Pressan.is