Skip to main content
Fréttir

Grein um Hugarafl

By nóvember 21, 2009No Comments

mynd4

Fyrir rúmri viku skrifaði ég grein í Fréttablaðið sem bar yfirskriftina: Aðbúnaður á geðdeildum Landsspítalans. Þar gagnrýndi ég slæman aðbúnað sem sjúklingar þurfa að búa við inni á geðdeild. Ég þakka góð viðbrögð sem grein þessi hefur vakið og vonast til að forvígismenn LSP geri nú eitthvað í málunum.

Geðdeildin er neyðarúrræði og tekur á málum þeirra sem eru sjálfum sér og öðrum hættulegir en hefur því miður ekki staðið sig í því hlutverki að endurhæfa sjúklingana þannig að þeir komi ekki strax aftur inn á deildina. Það er ljóst að LSP er í vanda með að fylgja sjúklingunum eftir í bata þeirra en því miður hefur spítalinn heldur ekki staðið sig í að benda á önnur úrræði. Ég hef legið þarna af og til í 15 ár en það var ekki fyrr en í fyrravetur að mér var fyrir algjöra tilviljun bent á samtök sem heita Hugarafl og höfðu aðsetur sitt þá í Bolholti. Ég hóf að sækja fundi og ýmsar uppákomur í Hugarafli og get fullyrt að þau hafa hjálpað mér mjög mikið og í raun tekið við þar sem spítalinn brást. Núna er Hugarafl flutt í Mjóddina og hefur stærri og betri aðstöðu en áður. Í Hugarafli starfa þrír fagmenn, tveir iðjuþjálfar og einn sálfræðingur auk tveggja notendafulltrúa í hlutastarfi. Við sem sækjum Hugarafl köllum okkur Notendur og innan raða okkar er Geðfræðslan rekin til að mynda en með henni fræðum við til dæmis nemendur framhaldsskóla um geðsjúkdóma. Við teljum að aukin fræðsla komi í veg fyrir fordóma og útrýming þeirra er eitt af markmiðum okkar.

Hugarafl eru frábær samtök og hafa bjargað mörgum frá einangrun og því að lenda stöðugt inn á spítala. Eins og er, sér Hugarafl um alla endurhæfingu sem sjúklingar fá ekki á LSP, ásamt Geðhjálp og fleiri slíkum samtökum. Þessi samtök hafa í raun myndað brú frá geðdeild og út í lífið en hafa ekki tök á bráðaendurhæfingu sem tæki við eftir bráðainnlögn ef vel ætti að vera. Í dag liggur fjöldi fólks á geðdeild án þess að fá hreyfingu og örvun við sitt hæfi. Þetta fólk er svo útskrifað eftir einhvern x langan tíma og ef það er heppið fréttir það af Hugarafli eða Geðhjálp. Fagmenn innan spítalans vísa ekki á þessi samtök, við hjá Hugarafli komum reglulega með fræðslu inn á deildir og skiljum eftir bæklinga. Þetta er sjálfboðavinna hjá okkur og algjörlega okkar uppfinning. Ef vel ætti að vera myndu læknar vera meira í samvinnu við samtökin og vísa á þau, sérstaklega þegar litið er til þess að eftirfylgni spítalans er mjög ábótavant. Ég hvet heilbrigðisstarfsfólk til að benda sjúklingum sem útskrifast af geðdeildum á Hugarafl. Þessi samtök hafa haldið mér uppi hvort sem um er að ræða góða eða slæma daga og við tökum fagnandi við nýju fólki.

Adda Guðrún Sigurjónsdóttir
Leikskólakennari og Hugaraflsmeðlimur