Skip to main content
Greinar

Grein frá Hugaraflskonu og notanda Geðheilsu – Eftirfylgdar

By október 13, 2017No Comments

Elín Einarsdóttir Hugaraflskona og notandi Geðheilsu Eftirfylgdar

Ég var að horfa á flott viðtal við Auði Axelsdóttur forstöðukonu Geðheilsu – Eftirfylgdar, í þættinum Milli himins og jarðar sem sýndur var á N4 þann 11. okt.  Auður er auk þess ein af þeim fimm sem stofnuðu Hugarafl árið 2003 og hefur lagt mikið af mörkum til geðheilbrigðismála eins og flestum er kunnugt um.  Verandi Hugaraflskona og notandi þjónustu Geðheilsu – Eftirfylgdar vakti þátturinn upp hjá mér allskyns spurningar og vangaveltur og ég skrifaði smá pistil á vegginn minn á Facebook. Viðbrögð félaga minna í Hugarafli urðu svo til þess að ég ákvað að setja aðeins meira kjöt á beinin og skrifa þessa grein.

Það er ekki langt síðan félagsmálaráðherra kom að því að stækka og framlengja samning milli Hugarafls og Vinnumálastofnunar, sem er mikil viðurkenning á því starfi sem fram fer í Hugarafli. En það starf fer ekki fram í tómarúmi. Í öll þau ár sem Hugarafl hefur starfað þá hefur það verið í samvinnu og jafningjavinnu með Geðheilsu – Eftirfylgd, og það er einsdæmi. Teymi fagaðila vinnur þar samhliða notendum og byggir starfið á faglegri þekkingu auk reynslu af bata fjölmargra notenda sem leita til okkar á aðra hæð í Borgartúni 22.

Geðheilsa – Eftirfylgd hefur starfað sjálfstætt undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins allt frá stofnun þess en nú liggur fyrir að leggja eigi teymið niður. Á sama tíma er lagt til að stofna eigi tvö ný geðheilsuteymi og vísað til þess að fyrir sé Geðheilusteymi Breiðholts og að þetta sé gert í framhaldi af ályktun Alþingis um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum frá 2016. Eitt af aðalmálum aðgerðaráætlunarinnar er samfelld og samþætt þjónusta.  Að Geðheilsuteyminu í Breiðholti ólöstuðu þá er staðreyndin sú að Geðheilsa – Eftirfylgd hefur verið starfandi í að verða 15 ár, og leitað var þangað – og í Hugarafl – þegar verið var að koma starfsemi teymisins í Breiðholti af stað. Í frétt sem birtist síðan á vefsíðu heilsugæslunnar um ný geðheilsuteymi er hins vegar hvergi minnst á að Geðheilsa – Eftirfylgd og Hugarafl hafa starfað samkvæmt nákvæmlega þessu módeli sem verið er að lýsa.  Reyndar er þar hvergi minnst á úrræðið Geðheilsa – Eftirfylgd og hægt að skilja það þannig að Geðheilsa – Eftirfylgd sé ekki, og hafi aldrei verið til.

Í dag sitjum við Hugaraflsfólk hugsi og reynum að koma böndum yfir þá þversögn að á einum stað er verið að styrkja þetta einstaka úrræði sem jafningjavinna Hugarafls og Geðheilsu – Eftirfylgdar er, en á öðrum stað er verið að rífa það niður.

Legókubbar sorteraðir eftir lit og lögun

Fólk er ekki eins og legókubbar sem hægt er að flokka eftir lit og lögun og koma fyrir í kössum. Við erum öll einstaklingar og samfélaginu öllu verður gerður mikill óleikur ef jafningjavinna notenda með reynslu og fagaðila eins og henni er sinnt hjá okkur í dag verður slitin í stundur. Vera má að Geðheilsa – Eftirfylgd eigi ekki lengur heima undir hatti Heilsugæslunnar, og að stjórnendur Heilsugæslunnar finni öryggi í að flokka legókubba í kassa.  En þá þarf að tryggja að það fjármagn sem runnið hefur í gegnum Heilsugæsluna frá Ríkinu til Geðheilsu – Eftirfylgdar fylgi teyminu og að því verði áfram tryggður rekstur.

Ég vona að enginn taki því sem svo að ég eða félagar mínir innan veggja Hugarafls séum á móti fleiri geðteymum, þvert á móti. Fleiri úrræði sem eru sniðin að þörfum einstaklinga eru góðar fréttir. En þau eiga ekki að koma á kostnað þeirra sem fyrir eru.