Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

„Glímum við meinbugi hins mannlega ástands“

By október 12, 2016No Comments

Dylan á tónleikunum í gær sem voru hreint út sagt frábærir. Mynd: Kristinn H

Fólk með andleg veikindi verður ekki bara fyrir fordómum heldur líka misrétti, segir írska söngvaskálið Dylan Tighe. Hann vill að dregið sé úr því að fólk sé skilgreint veikt eða ekki, nær væri að tala um fólk sem tekst á við kreppu mannlegs ástands.

Dylan Tighe er vel þekktur í heimalandi sínu og víðar. Í kvöld heldur hann tónleika á Café Rosenberg, en hann er hér á vegum Hugarafls.

Fyrir meira en áratug greindist Dylan með geðhvarfasýki. Þegar hann var göngudeildarsjúklingur og var á lyfjum byrjaði hann að nýta sér reynslu sína og upplifun sem yrkisefni. Með því  segist hann hafa kafað dýpra ofan í reynslu sína og það hafi hjálpað honum að skilja betur það ástand og þá upplifun sem hann var að kljást við. Enda veiti listin dýpri og víðari skilning. Árangurinn hefur bæði komið út á hljómdiski og birst á leiksviði. Hann segir fólk með geðræn vandamál enn þurfa að kljást við, ekki bara fordóma, heldur einnig misrétti.

„Að miklu leyti tel ég að sjúkdómsgreining og allt þetta greiningarkerfi stuðli að mismunun vegna þess að það raðar fólki í aðskilin hólf. Það getur verið skaðlegt og ég sjálfur vil að við segjum skilið við þetta kerfi og hættum að aðgreina svokallaða sjúklinga og aðra. Ég vil frekar að við horfum á okkur öll, við glímum við meinbugi á hinu mannlega ástandi og það getur haft áhrif á hvern sem er við vissar aðstæður,“ segir Dylan Tighe.

RUV.is