Fréttir

Ganga í Laugardal á sumardaginn fyrsta

By apríl 20, 2016 No Comments
3-IMG_4829

Það voru farin að sjást blóm í Laugardalnum 10. apríl þegar Hugaraflsfólk hittist þar síðast.

Lokað verður í Hugarafli fimmtudaginn 21. apríl, á sumardaginn fyrsta.  En Hugaraflsfólk ætlar að sjálfsögðu að halda upp á þennan merka dag og fyrirhugað er að hittast í Laugardalnum og taka þar léttan göngutúr, borða saman nesti, njóta útiverunnar og gleðjast í góðra vina hópi.  Við ætlum að hittast fyrir utan húsakynni KFUM&KFUK að Holtavegi 28, klukkan 13:00.  Áhugasamir sem óska eftir frekari upplýsingum geta verið í sambandi við Kristinn H. eða Hönnu Írisi.

Samkvæmt Wikipedia er sumardagurinn fyrsti, fyrsti dagur Hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Sumardaginn fyrsta ber alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu frá 19.-25. apríl (það er fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl).

Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Í Sögu daganna – hátíðir og merkisdagar (bls. 50, 2. útg., 1977) eftir Árna Björnsson, þjóðháttafræðing, segir um sumardaginn fyrsta:

Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

Hvort sem vetur og sumar frjósa saman eður ei, þá er ljóst að Hugaraflsfólk ætlar sér að eiga gott sumar saman. Og hvernig er hægt að byrja það betur en með góðum vinum á fyrsta degi sumars í Laugardalnum?