Skip to main content
Fréttir

Evrópskt samstarf: Highway to mental health

Highway to mental health

Í byrjun desember var haldinn annar fundur í sam – evrópska verkefninu Highway to mental health. Auk þeirra þriggja, Dumitritu, Sigurborgu og Fjólu sem voru á síðasta fundi, bættust við þau Hrefna og Magnús, sem er mikill fengur að fá inní verkefnið. Markmið þessa verkefnahóps er að hanna námsefni til að stuðla að bættri andlegri líðan hjá ungmennum á aldrinum 18-30. Lokaafurðir þessa verkefnis eru handbók og vefsíða sem verða  með óhefðbundnu skapandi námsefni sem tengjast ýmsum. Vinnudagarnir voru langir og farið yfir mikið efni en það sem mér fannst standa upp úr hvað varðar vinnuna, þankahríð yfir nokkur grundvallaratriði sem tengjast námsefninu s.s. Hvað er geðheilsa? Þurfa allir að huga að geðheilsu og hvernig fléttast andlegar áskoranir inní geðheilsu? Við í íslenska hópnum höfðum áhyggjur af því að þarna kæmu mögulega fram mjög ólík sjónarmið og mögulega í andstöðu við hugmyndafræði Hugarafls. Þar sem við erum ólíkir einstaklingar, með ólíkan bakgrunn og áherslur hverra samtaka eru mismunandi. En það voru óþarfa áhyggjur þegar öllu var á botninn hvolft þá vorum við mjög sammála um þessi grundvallar atriði.

Á þessum fundi náðum við að kynnast betur spænsku samtökunum, Activament en þau eru mjög róttæk, hafa sterka rödd á Spáni og sjá um geðfræðslu mjög víða í samfélaginu. Síðasta vinnudaginn var okkur boðið í heimsókn á svokallað hostel sem er rétt fyrir utan Varsjá. Hostel er staður fyrir ungmenni sem óska eftir aðstoð vegna andlegra áskorana, yfir daginn eru þau í skólanum en svo sjá þau að mestu um hostelið og taka ábyrgð á ýmsum verkefnum. Þarna vinna fagmenn á jafningjagrunni með ungmennunum sem eru í bataferli. Við hittum íbúana seinnipartinn og um kvöldið elduðu þau fyrir okkur dýrindis kvöldverð.

Þarna upplifði maður mikla hlýju og vináttu milla íbúanna og milla fagmanna og íbúa, tilfinningin var eins og að maður væri að heimsækja eina stóra samheldna fjölskyldu. Á frídeginum nýtti hópurin daginn til að fara á söfn og anda að sér borginni sem er fyrir margar sakir einstök, þar sem komin var desember þá var allt skreytt hátt og lágt og skemmtilegir jólamarkaðir í miðbænum. Pólsku gestgjafarnir voru einstakir og var hugsað vel um okkur allan tímann. Lúkas sem fór fyrir hópnum var einstakur, sagði okkur frá sögu borgarinnar og hvernig borg Varsjá er í dag. Hann hefur einstaklega skemmtilegan frásagnarstíl og er mikill húmoristi. 

Næstu mánuðir verða þétt skipaðir vinnu með þessum einstaka hópi og höfum við fulla trú á að við eigum eftir að búa til góð og mikilvæg verkfæri sem nýta má til að hafa jákvæð áhrif á andlega heilsu.