Skip to main content
FréttirGreinarMælt með

Erum við samansafn geðgreininga?

By mars 29, 2017apríl 22nd, 2018No Comments

woman-954785_960_720Í núverandi geðheilbrigðiskerfi er almennt gerð sú krafa að fólk kynni sig með greiningum til að fá þjónustu. Slíkar vinnuaðferðir miðast við læknisfræðilegt módel þar sem ákveðin greining skilar því að viðkomandi fær tiltekna þjónustu, lyf eða meðferð. Við í Hugarafli setjum spurningarmerki við af hverju svo sé.

Í Hugarafli þarf ekki að kynna sig með greiningum til að fá þjónustu. Til að gerast félagi í Hugarafli þarft þú ekki að hafa neina yfirlýsta greiningu, og þú þarft ekki að tilkynna okkur um slíkt. Við sleppum því að kynna okkur sem sjúkling og veikindasögu, og leggjum áherslu á einstaklinginn, styrkleika hans og lífssögu. Við gegnum öll ólíkum hlutverkum á borð við foreldri, nemanda, heimilishaldara, gæludýraeiganda – og höfum fjölda styrkleika sem nýtast í bataferlinu.

Þessar vangaveltur snúast ekki um það að við skömmumst okkar fyrir greiningarnar. Við erum hinsvegar orðin langþreytt á því að vera sífellt beðin um að kynna okkur með greiningarstimplum, við erum miklu meira en bara einhverjar greiningar. Við erum manneskjur fyrst og fremst.

Valdefling er dýrmætt verkfæri í batavinnu og hefur reynst fjölda fólks vel til að ná betri líðan. Eitt lykilatriði valdeflingar felur í sér endurskilgreiningu jákvæðrar sjálfsmyndar. Í sjálfsvinnunni finnum við á nýjan leik hver við erum og hvað við getum gert. Eftir að bataferlið er komið vel á leið viljum við jafnvel kasta af okkur öllum stimplum eða endurskilgreina hvað felst í þeim.

Við viljum geðheilbrigðiskerfi þar sem lögð er aukin áhersla á styrkleika einstaklingsins, lífssögu hans, hlutverk, áhugasvið, væntingar og drauma. Við viljum geðheilbrigðiskerfi sem blæs okkur von í brjósti. Næst þegar við verðum beðin um að kynna okkur, þá ætlum við að segja frá menntuninni okkar, fjölskylduaðstæðum, styrkleikum og áhugamálum – og sleppum jafnvel að minnast á greiningarstimplana. Við skorum á ykkur að gera slíkt hið sama!