Skip to main content
Fréttir

Deilur um lyfjanotkun Íslendinga

By júní 14, 2018No Comments

Mikil notkun þunglyndislyfja á Íslandi er ekki áhyggjuefni að mati sérfræðings. Formaður Hugarafls er á öðru máli og segir þunglyndislyf ein og sér ekki vera neina töfralausn.

Prófessorinn Elias Erikson hefur rannsakað gagnsemi þunglyndislyfja um nokkurt skeið. Í Hörpu í dag talaði hann um nauðsyn þunglyndislyfja og margra ára deilur manna um umrædd lyf.

„Menn hafa deilt um lyfin í um 10-15 ár. Sumir segja að lyfin, sem eru notuð af 7-10% þjóðarinnar í vestrænum heimi, séu árangurslaus. Á hinn bóginn segja aðrir að lyfin séu mjög árangursrík. Þá tel ég slæmt að þunglyndissjúklingar sem þurfa að notast við þunglyndislyf fái stöðugt þau skilaboð í gegnum fréttir að lyfin séu skaðleg,“ segir Elias Erikson prófessor.

Elias hefur rannsakað lyfin og segir að það komi skýrt fram að þau séu stórlega vanmetin. En sjálfur telur hann lyfin mun árangursríkari en fólk hélt á árum áður.

Þá segir hann lyfin alls ekki fullkomin, en ekki séu til fullkomin lyf í þessum heimi. Ekki bregðist allir sjúklingar við lyfjunum. Margir fá miklar aukaverkanir og virkni lyfsins er lengi að hafa áhrif á líðan sjúklings.

En hefur hann áhyggjur af mikilli notkun Íslendinga?

„Nei, það eru vissulega margir á lyfjunum sem þurfa mögulega ekki á þeim að halda, þar sem þeir eru leiðir en ekki þunglyndir. Þeim vanda þarf að taka á. En það væri mun meiri vandi ef að þunglynd manneskja fengi ekki lyfin,“ segir Elias.

Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls er á öðru máli.
„Já mikil notkun lyfja á Íslandi er áhyggjuefni. Við hjá Hugarafli erum ekki á móti lyfjum en við teljum að þau eigi einungis að nota til skammtíma. Tryggja þarf að sjúklingur viti hvaða áhrif lyfin hafa og hver fráhvörfin verði að noktun lokinn.“

Hún telur að ein ástæða mikillar notkunar lyfja hér á landi sé vegna hraða samfélagsins. Að hennar sögn vilji fólki líða betur strax og fer það því til lækna í þeim tilgangi að fá aðgang að slíkum lyfjum. Auka þarf fræðslu þunglyndis og fá fólk til að staldra við og nýta aðra þætti til bata.

„Ég hef sjálf þá reynslu að lyf séu engin töfralausn, þó þau hjálpi oft til skamms tíma. En til lengri tíma litið þarf önnur úrræði.“

Grein birtist upphaflega á visir.is