FréttirGeðheilbrigðismál

Deilir reynslu sinni eftir sjálfsvígstilraun

Untitled-2

Hægt er að smella á myndina til að sjá viðtal við Mumma í fréttum RÚV.

Það er hægt að ná bata, segir ungur maður sem reyndi að svipta sig lífi eftir langvarandi vanlíðan. Fjöldi fólks í sömu sporum hefur fengið aðstoð hjá félagasamtökunum Hugarafli sem vinna með heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrir rétt rúmu ári var Guðmundur Hermann Gunnarsson, Mummi, á vondum stað í lífinu. Hann var 23 ára og hafði ungur flosnað upp úr námi. Hann hafði árum saman glímt við vanlíðan og erfiðleika og ekki fengið þá aðstoð sem hann þurfti. 30. apríl árið 2015 reyndi hann að svipta sig lífi.

„Mestu erfiðleikarnir sem komu fram voru að ég var rosalega mikið að drekka og ég á í mjög miklum vandamálum með það. Það dregur að sér neikvæða hugsun og mikið verið að dæma sjálfan sig, svo blandaðist áfengi og töflur saman,“ segir hann.

Mummi var heppinn, tilraunin mistókst. Hann vaknaði á Landspítalanum og fór í áfengismeðferð á Vogi. Fyrir tilviljun heyrði hann um félagasamtök sem heita Hugarafl. Þangað hefur hann komið nokkrum sinnum í viku undanfarið ár og hann segir að það hafi gefið sér tilgang.

„Ég tala við fólk með mismunandi reynslu og deili minni reynslu til að hjálpa öðrum,“ segir hann. Mummi telur þetta úrræði hafa hjálpað sér mjög mikil og segir að það sé hægt að ná bata eftir svona veikindi.

Um fimmtíu manns koma í Hugarafl á hverjum degi. Samtökin eru í nánu samstarfi og deila húsnæði með geðheilsu og eftirfylgd heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar starfar fagfólk en einnig fer fram margskonar fræðsla og starf á jafningjagrundvelli.

Sigrún Halla Tryggvadóttir er verkefnastjóri hjá Hugarafli. „Maður er ekki alltaf að lifa lífinu slétt og fellt. Maður gengur í gegnum alls konar áföll og hérna er fólk að læra að tækla þessa hluti og margir, ég hef séð marga náð góðum bata og fólk sem fer aftur út í lífið, fer í skóla og fer í vinnu og eignast fjölskyldu. Maður hefur séð kraftaverk gerast hérna.“

Í dag voru ungmenni í Hugarafli að undirbúa gönguna úr myrkri í ljósið sem farin verður aðfaranótt laugardags í Reykjavík og samtímis víða um heim. Mummi segir að það skipti miklu máli að tala upphátt um hlutina í stað þess að burðast með þá.

– Hvernig líður þér í dag miðað við það þegar þú varst á botninum?
„Ég gæti mér ekki ímyndað mér…Fyrir ári ef það hefði verið sagt eitthvað svona við mig þá væri ekki séns að ég myndi trúa því,“ segir hann og brosir.

Greinin birtist upphaflega á Ruv.is og þar má sjá umfjöllunina í fréttum sjónvarps.