Skip to main content
Mánudagur
Skipulag endurhæfingar
Hópurinn er tvískiptur vegna fjölda – athugið að aðeins annar þeirra er á zoom. Auður og Kristín sjá um hópana.
Hóparnir hittast vikulega og vinna markvisst í endurhæfingu sinni og móta eigið bataferli í takt við áætlun um endurhæfingarlífeyri hjá TR. Ef það verða forföll þá eru þátttakendur beðin að senda tölvupóst á hugarafl@hugarafl.is eða ninna@hugarafl.is fyrir tímann.
Annars hugar
Spjallhópur þar sem heimspekileg málefni eru rædd. Fundirnir byrja á youtube myndböndum og samræðu um þau myndbönd.
Það eru engin skilyrði að vita eitthvað um heimspeki til að taka þátt, heldur þarf bara forvitni og opinn hug.
Hópstjórar eru Alexander og Ágúst.
Verkfærakistan (zoom)
Thelma heldur utan um opinn hóp fyrir öll sem hafa áhuga á verkfæri vikunnar.
Í hverjum tíma verður kynnt eitt verkfæri sem gæti nýst í þeirri sjálfsvinnu sem hvert og eitt okkar er að vinna, alls konar sjálfsstyrkingu eða bara til að gera „andlegar armbeygjur“ til að auka lífsgæði okkar.
Stundum prófum við verkfærið í tímanum og stundum verða tillögur að heimavinnu. En ekki alltaf og það er aldrei þrýstingur eða skylda að taka þátt í neinu. Það er alltaf í boði að koma bara og fylgjast með. Hlakka til að sjá ykkur.
Hinsegin hugar
Hópur fyrir öll sem skilgreina sig hinsegin á einn eða annan hátt til að ræða líðan og geðheilsu, áföll, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Fyrirkomulag hópsins verður unnið í samráði við notendur. Ninna heldur utan um hópinn.
Þriðjudagur
Bati með Guffu (zoom)
Hópur sem ræðir batahugmyndafræðina sem er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Hópurinn er leiddur af Guffu og byggir á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur í geðheilbrigðiskerfinu og batahugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel í bataferli sínu.
Guffa ætlar að blanda saman Bata og Innri sannfæringum (hópur sem hún hefur haft áður) en í þeim hópi fer fram sjálfsvinna og sjálfsskoðun um kjarnaviðhorf og hvernig við lítum á sjálf okkur, til dæmis; hverju trúi ég um sjálfa/n mig og hvers vegna?, hvort það sem virkaði og hentaði áður sé að flækjast fyrir mér núna, hvort það sem ég lærði sem barn sé að henta mér núna, og af hverju við erum að gera það sama núna sem aftrar okkur í bataferlinu. Farið ofan í hlutina um hvers vegna við gerum og hugsum í dag neikvætt um okkur sjálf og hvernig við getum breytt því til betri vegar og líðanar í dag.
Lífskortið (zoom)
Lífskort er verkfæri sem hægt er að nýta sér til að fá yfirsýn yfir lífið. Fá yfirsýn yfir hluti í lífinu sem maður hefur mögulega misst tök á, stór sem smá. Við byrjum lotuna á að hanna okkar eigin lífskort og förum svo dýpra í kortin okkar eftir því sem líður á lotuna með þematengdum tímum. Gott er að hafa með sér skriffæri. Fríða og Ninna eru hópstjórar Lífskortsins.
Unghugar
Hópur sem ætlaður er ungmennum í Hugarafli á aldrinum 18-30 ára. Umsjón hópsins er í höndum Maísólar, Hjartar og Péturs.
Sjósund í Nauthólsvík
Sama hvernig viðrar, það hressir, bætir og kætir að skella sér í sjóinn. Hittumst í stofunni á 1. hæð og sameinumst í bíla. Alexander heldur utan um hópinn.
Miðvikudagur
Kaffispjall og handavinna
Hittumst í stofunni í Síðumúla. Öll sem eru að vinna eitthvað í höndunum, hvort sem það er prjón, hekl, föndur, leikur í símanum eða eitthvað annað, eða langar bara að spjalla og drekka kaffi boðin velkomin. Tilvalin stund til að kíkja í hús. Tinna, Fjóla og Ninna taka vel á móti ykkur.
Listasmiðja
Lovorka heldur utan um listasmiðjuna og hér er hennar lýsing á hópnum:
Let’s have some fun with arts and crafts as we explore drawing, acrylics, watercolor, clay and diamond painting.
All level welcome, feel free to bring your own ideas. We are going to explore different drawing styles from Leonardo da Vinci, manga and other fun books.
Bæn og íhugun
Alla miðvikudaga frá 12:15 – 13:15 býður Bjarni Karlsson prestur upp á samveru í húsnæði Hugarafls í Síðumúla 6.
Öll sem langar að eflast í trú, von og kærleika hvött til að vera með.
Hugaraflsfundur (zoom)
Hugaraflsfundir eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls. Þeir gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allir félagar hafa atkvæðisrétt við ákvarðanatökur. Hugaraflsfólk er eindregið hvatt til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja viðburði.
Fimmtudagur
Valdefling í verki
Hvernig valdeflum við okkur? Það er enginn sem valdeflir okkur heldur valdeflumst við vegna atvika eða við það að takast á við hversdagsleikann. Við ætlum líka að skoða, hverju erum við góð í? Langar okkur að verða ennþá betri í því? Erum við með áhuga á einhverju nýju sem við viljum efla? Hvar getum við nýtt styrkleika okkar í verki og hvernig tökum við skrefin að því?
Valdefling með Fjólu (zoom)
Hópur þar sem valdefling er rædd út frá valdeflingarpunktunum 15 og þátttakendur deila eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Hugmyndafræði valdeflingarinnar kemur frá Judi Chamberlin. Valdeflingarpunktana 15 má skoða hér: http://hugarafl.is/vinnuskilgreining-a-valdeflingu/
Drekasmiðja (zoom)
Thelma Ásdísardóttir heldur vikulegar vinnustofur þar sem þátttakendum gefst færi á að ræða áhrif áfallasögu á sjálfsmynd, samskipti og tengslamyndun. Efnið er sett fram á uppbyggilegan, hvetjandi hátt sem ýtir undir að hvert og eitt finni sína leið að betri líðan.
Frisbí golf með Grétari
Í tilefni þess að það er kominn nýr frisbígolf völlur fyrir aftan húsið okkar ætlar Grétar að halda utan um frisbígolf. Hittumst í stofunni á 1. hæð og förum saman út.
Tónlistardjamm
Spilarðu á hljóðfæri? Eða ekki? Viltu gera meira af því? Við ætlum að hittast í tónlistarherberginu vikulega og „djamma“ saman, hvort sem það er að glamra, semja eitthvað, syngja upp úr Stóru Gítarbókinni eða stofna hljómsveit! Öll velkomin sem hafa áhuga á tónlist. Ninna og Davíð halda utan um hópinn.
Aðstandendafundur
Aðstandendahópurinn hefur verið starfræktur frá upphafi Hugarafls. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg, reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast andlegum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir. Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar. Auður Axelsdóttir leiðir þennan hóp og fær einnig aðstoð frá aðstandendum við utanumhald.
Föstudagur
Kvikmyndaklúbbur
Frida og Lovorka halda utan um kvikmyndaklúbbinn, hér kemur hópalýsing frá Fridu:
Sýndar verða kvikmyndir með valdeflingu að leiðarljósi (titlar verða auglýstir síðar en tillögur eru vel þegnar).
Snakk og umræður í boði. Myndirnar geta verið á ólíkum tungumálum en gert er ráð fyrir enskum eða íslenskum undirtexta.
Movie shows with self-empowerment as a red thread (titles announced later, ideas are welcome). Snacks and discussion available. The movies can contain a variety of languages but will always have English or Icelandic subtitles.
Kynningarfundur (15. mars og 5. apríl)
Áhugasömu fólki sem hefur haft samband við Hugarafl og óskað eftir að gerast meðlimir eða til að fá kynningu á starfsemi Hugarafls, er boðið á kynningarfund í Síðumúla.
Það þarf ekki að skrá sig á fundinn. Fjóla og Ninna sjá um kynninguna þar sem starfsemi og hugmyndafræði Hugarafls er kynnt og rædd við fundargesti. Að því loknu geta þau sem hafa áhuga á að nýta sér starfsemi Hugarafls skrifað undir félagsaðildarsamning.
Förðun með Guðnýju
Sjálfseflandi sjálfsumhyggjuhópur þar sem við munum eiga kósý stund saman, farða okkur og fá meiri sjálfstraust í því að farða okkur. Guðný mun nota þá þekkingu sem hún hefur sem förðunarfræðingur til að hjálpa við að ná ýmsum förðunum sem áhugi er á og jafnvel taka af og til góða dekurstund saman. Endilega takið með þær förðunarvörur sem þið eigið heima.
Kvennafundur
Umræða fyrir þær sem skilgreina sig sem konur til að ræða um líðan og geðheilsu, áföll, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Hópurinn er í umsjá Fjólu og NinTin.
Karlafundur
Grétar Björnsson heldur utan um hópinn. Umræða fyrir alla karla til að tala um líðan og geðheilsu, tengjast öðrum og bæta eigin hag