Skip to main content
Fréttir

Brotið á réttindum þeirra sem veikjast á geði

By janúar 7, 2014No Comments

DV1103102999
Brotið á réttindum þeirra sem veikjast á geði
Fólki skipað í veikindaleyfi- Starfsöryggi geðsjúkra minna – Batamöguleikar góðir en fordómar miklir –
Kristjana Guðbrandsdóttirkristjana@dv.is
05:27 › 7. janúar 2014
„Það er mín reynsla að því er vel tekið á vinnustað að fá faglega aðstoð til að styðja einstakling. Það er mikilvægt að andleg veikindi séu höndluð eins og önnur veikindi. Það eru réttindi fólks.“
Fordómar á vinnumarkaði „Það er mín reynsla að því er vel tekið á vinnustað að fá faglega aðstoð til að styðja einstakling. Það er mikilvægt að andleg veikindi séu höndluð eins og önnur veikindi. Það eru réttindi fólks.“

„Ég var búinn að vera í launalausu leyfi í mánuð þegar mér var sagt upp,“ sagði Sigursteinn Másson um uppsögn sína á Stöð 2 sem hann rifjaði upp í viðtali í helgarblaði DV þann 3. janúar síðastliðinn.
Honum var sagt upp á meðan hann vann að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu árið 1996 og var gert að mæta til vinnu og vinna uppsagnarfrest í þrjá mánuði. Hann mátti hins vegar ekki skrifa fréttir og jafnvel ekki taka símtöl. Hann segist hafa verið brotinn niður á kerfisbundinn máta. Meðan á uppsagnarfrestinum stóð voru æsingartímar á ritstjórninni og út braust eldgos. Á þeim tíma veiktist Sigursteinn og fljótt varð ljóst að stefndi í erfið veikindi.

„Ég hef verið beðinn ­afsökunar á því hvernig að þessu var ­staðið og þykir vænt um það,“ segir ­Sigursteinn og vill ekki nefna tiltekinn yfir­mann á nafn. „Það var þáverandi yfirmaður minn sem gerði það. Ég met það mikils, ég erfi það ekki við neinn og hef alltaf fyrirgefið fordóma vegna geðsjúkdóma. „Ég vappaði um fréttastofuna án þess að gera nokkuð á 11 tíma vöktum. Ég upplifði einnig mikla togstreitu,“ sagði Sigursteinn frá.
„Mín afglöp“

Það var staðið forkastanlega að þessari uppsögn og ábyrgðin er algerlega mín,“ skrifaði þingmaðurinn Elín Hirst á Facebook-síðu sína í gær þar sem hún deildi viðtali DV við Sigurstein Másson þar sem hann greinir frá því þegar honum var sagt upp störfum á Stöð 2. Elín greindi frá því að hún var næsti yfirmaður Sigursteins sem fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar á þessum tíma. „Það er hins vegar dæmigert hversu vel Sigursteinn er innrættur að vilja ekki rifja upp mitt nafn í þessu sambandi,“ skrifaði hún.
Elín bað Sigurstein fyrirgefningar fyrir nokkrum vikum þegar leiðir þeirra lágu saman í þinghúsinu. Hún segist oft hafa hugsað til vinnubragða sinna í gegnum árin. Henni var afar létt þegar í ljós kom að Sigursteinn tók beiðni hennar um fyrirgefningu vel. „Það var þungu fargi af mér létt, að geta sagt við hann augliti til auglitis: „Þetta voru algjörlega mín afglöp í starfi hvernig ég tók á þínu máli.“ Maður lærir af mistökunum, til þess eru þau. Sem betur fer getur maður orðið betri manneskja ef maður gerir mistök og lærir af þeim,“ segir Elín í samtali við blaðamann. „Ég vil alls ekki mæra mig af því að hafa beðið Sigurstein fyrirgefningar. Mig langar ekki að reyna að afsaka mig. Þetta er óafsakanlegt.“
Vinnuveitendur séu vakandi og leiti allra ráða

Elín getur litið í baksýnisspegilinn og skilaboð hennar til vinnuveitenda eru skýr. Vinnuveitendur verða að vera vakandi fyrir heilsu og líðan starfsmanna sinna. Það er svo margt sem getur verið að. Ég myndi í dag leggja vinnu í málið til þess að komast að því hvað væri á seyði og ef til vill leita ráða fagmanna um aðstoð og rétt viðbrögð. Mest er um vert að leggja sig fram um að stuðla að því að sá sem veikist geti náð kröftum sínum aftur.“

Hrannar
Brotið á réttindum geðsjúkra

Fjöldi fólks sem hefur glímt við geðsjúkdóma, bæði tímabundna erfið­leika og langtíma veikindi, hefur lent í erfiðleikum á vinnumarkaði. Algengt er að fólk sé sent í veikindaleyfi, en réttur þess til að velja og hafna hvað það varðar er skýlaus. Þá óttast fólk um afkomu sína og atvinnuöryggi þegar það veikist. Þetta staðfestir Hrannar Jónsson, ­formaður Geðhjálpar, sem segir mikilvægt að fræða atvinnurekendur um geðsjúkdóma og ekki síst batamöguleika fólks sem eru góðir.

„Það er mjög misjafnt hvernig fyrir­tæki taka á því þegar starfskraftur veikist á geði. Hins vegar myndi ég segja að það sé sammerkt með fólki sem glímir við geðraskanir að það lætur meira yfir sig ganga en margir aðrir. Það hefur laskaða sjálfsmynd. Hefur oft átt í erfiðleikatímabilum, glímt við ofbeldi og áföll af ýmsu tagi. Það festir sig í farvegi sem það þarf að losa sig úr. Það á í sjálfu sér sömu réttindi og aðrir sem veikjast á vinnumarkaði. Það sem mestu máli skiptir er að atvinnurekendur viti að allir geti veikst og að langflestir geti náð sér að fullu. Að veikjast á geði er ekki dómur. En stuðningur skiptir mjög miklu máli, allir sem veikjast þurfa á mannlegri nærveru og hlýju að halda.“

Hrannar segir stóran hóp glíma við geðræn veikindi af ­einhverjum toga hverju sinni á vinnumarkaði. „Fyrir utan alla þá sem eru utan vinnumarkaðar, sem er stór ­hópur, þá er talið að fjórðungur allra á vinnumarkaði glími á hverjum tíma við andleg veikindi. Þetta er stór hópur, að auki má nefna að 10 prósent Íslendinga taka þunglyndislyf á hverjum degi, sem gefur ákveðna vísbendingu.“+
Laskaður hópur

Hrannar telur að þeir sem glíma við geðræn veikindi þurfi að finna röddina sína. Efla sjálfsmyndina og verja réttindi sín. „Það hjálpar ­mikið í bata að finna röddina sína. Að úttala sig og koma út úr skápnum og berjast fyrir réttindum sínum. Það er partur af því að vera manneskja. Það þarf að efla sjálfsmynd þeirra sem veikjast því ég tel að geðsjúkir glími við fordóma á vinnumarkaði. Þeir njóta síður starfs­öryggis og upplifa ótta. Þá má líka spyrja sig: Af hverju er stór hluti öryrkja með geðraskanir? Það er vísbending. Þróunin bendir til þess að hópurinn sé laskaður og fái ekki að taka þátt í samfélaginu.“

Fordómar á vinnumarkaði

Auður Axelsdóttir hjá Hugarafli ­segist finna fyrir afturför á vinnumarkaði hvað varðar fordóma og starfsöryggi þeirra sem glíma við geðsjúkdóma. „Þó að við teljum okkur fordómalaust þjóðfélag þá held ég að við séum enn hrædd við að ræða hlutina á opin­skáan hátt. Umburðarlyndið ­hefur minnkað síðustu ár. Með auknum hraða og auknum kröfum gefum við okkur ekki tíma til að hlusta á fólk.“
Auður segir fólk ekki treysta sér til þess að segja frá vandanum og stundum aðstoðar hún fólk við að segja frá veikindum á vinnustað.
„Það er gegnumgangandi að fólk treystir sér ekki til að segja frá veikindum sínum.
Ég reyni að bakka fólk upp í að láta á það reyna. Það er skylda samfélagsins að staðinn sé vörður um sjálfsagðan rétt fólks. Það er slæmt að geta ekki verið á vinnustað hvort sem að heilsan er slæm eða góð.

Fólk er ennþá hrætt við að segja frá og hræðist helst að njóta ekki jafnra tækifæra og aðrir greini það frá vandanum. Ef fólk sem glímir við geðraskanir nýtur síðri tækifæra þá er það mikil þröngsýni af vinnustaðarins hálfu. Við getum gert þetta betur.“

Meiri fræðslu þörf

Lausnin er falin í því að fræða vinnuveitendur jafnt sem starfsfólk um sjálfsögð réttindi. En að auki um eðli geðrænna veikinda. Til að mynda þá staðreynd að langflestir þeirra sem veikjast hafa góðar batalíkur. Batalíkurnar aukist reyndar eftir því sem stuðningurinn sé meiri og eftir því sem samskiptin séu opinskárri.

„Kannski reynir á okkur sem er um að vinna í þessum geira að vera duglegri að kenna og hjálpa til. Það er mikilvægt að leita allra leiða á vinnustaðnum og finna þau bjargráð sem eru í umhverfinu sjálfu. Það er mín reynsla að því er vel tekið á vinnustað að fá faglega aðstoð til að styðja einstakling. Það er mikilvægt að andleg veikindi séu höndluð eins og önnur veikindi. Það eru réttindi fólks.“
„Fyrir utan alla þá sem eru utan vinnumarkaðar, sem er stór hópur, þá er talið að fjórðungur allra á vinnumarkaði glími á hverjum tíma við andleg veikindi,“ segir Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar, um fjölda þeirra sem kljást við geðræn veikindi á vinnumarkaði á hverjum tíma.
Fjórðungur glímir við geðræn veikindi „Fyrir utan alla þá sem eru utan vinnumarkaðar, sem er stór hópur, þá er talið að fjórðungur allra á vinnumarkaði glími á hverjum tíma við andleg veikindi,“ segir Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar, um fjölda þeirra sem kljást við geðræn veikindi á vinnumarkaði á hverjum tíma. Mynd: Sigtryggur Ari