Skip to main content
Greinar

Borðum meiri fisk – hollustunnar vegna

By desember 28, 2015No Comments

oil-315528_640Hólmfríður Þorgeirsdóttir fjallar um fiskneyslu:

„Í ráðleggingum Lýðheilsustöðvar/manneldisráðs um mataræði er lögð áhersla á að fiskur sé á borðum að minnsta kosti tvisvar í viku sem aðalréttur og gjarnan oftar.“

Hér á árum áður var mikil og almenn fiskneysla eitt megineinkenni á mataræði Íslendinga. Árið 1990 mældist hún hærri en í nokkru öðru Evrópulandi og var soðin eða bökuð ýsa algengasti réttur á borðum landsmanna, samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði sem þá fór fram. Árið 2002 var svo komið að fiskneyslan var aðeins 40 grömm á dag, sem er 30% minnkun frá 1990. Fiskneyslan hefur því nálgast það sem gengur og gerist í mörgum löndum Evrópu. Minnst var hún meðal unglingsstúlkna sem borðuðu einungis sem svarar einum munnbita á dag – enda hefur pítsan nú rutt sér til rúms sem þjóðarréttur ungra Íslendinga.

Góð uppspretta næringarefna
Lengi hefur verið tröllatrú á fiski hér á landi, ekki bara það að með auknu fiskáti komi gáfurnar, heldur hafa margir leitt að því líkum að það sé einmitt fiskinum og lýsinu að þakka hversu heilsuhraust og langlíf þjóðin hefur verið. Fiskur er einfaldlega hollur matur jafnt fyrir líkama og sál. Næringargildi fiskmetis einkennist af ríkulegu magni próteina í hæsta gæðaflokki og óvenjumiklu magni af snefilefnum, sérstaklega seleni og joði. Feitur fiskur er einnig auðugur af D-vítamíni og löngum ómega-3-fitusýrum sem eru einstakar en þessi næringarefni eru í fáum öðrum matvælum en sjávarfangi. Lítil fiskneysla er því talsvert áhyggjuefni enda eru joð og lífsnauðsynlegar ómega-3-fitusýrur af skornum skammti í fæði þeirra sem minnst borða af fiski og allir þurfa á þessum efnum að halda heilsunnar vegna.

Áhrif á heilsu
Rannsóknir á heilsufarsbætandi áhrifum sjávarfangs hafa einkum beinst að ómega-3-fitusýrum en jákvæð áhrif fiskneyslu á hjartasjúkdóma eru að miklu leyti rakin til fiskifitunnar. Rannsóknir hafa sýnt að ómega-3-fitusýrur hafa góð áhrif á ýmsa þætti líkamsstarfsemi, meðal annars á blóðfitu, þlóðþrýsting og samloðun blóðflagna. Eins benda rannsóknir til að fiskifita geti haft áhrif á bólgu- og ónæmissvörun líkamans. Lýsi veitir stærstan hluta langra ómega-3-fitusýra í fæði Íslendinga en magnið er einnig talsvert í feitum fiski. Það hefur hins vegar sýnt sig að bæði feitur og magur fiskur virðist hafa jákvæð áhrif á heilsuna og það eru trúlega fleiri en eitt innihaldsefni þar að verki. Þess vegna er æskilegt að borða bæði feitan og magran fisk.

Fiskneysla og ungt fólk
Í ráðleggingum Lýðheilsustöðvar/manneldisráðs um mataræði er lögð áhersla á að fiskur sé á borðum að minnsta kosti tvisvar í viku sem aðalréttur og gjarnan oftar. Þar fyrir utan er harðfiskur ásamt áleggi og salötum úr fiski góður kostur. Ungar stúlkur borða fisk sjaldnar en einu sinni í viku. Það þarf því sérstaklega að beina spjótum sínum að ungu fólki í áróðri fyrir aukinni fiskneyslu. Í gangi er viðamikið samstarfsverkefni, á vegum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Félagsvísindastofnunar, Rannsóknastofu í næringarfræði o.fl., sem hefur það að markmiði að stuðla að aukinni neyslu sjávarafurða með sérstakri áherslu á ungt fólk. Gott aðgengi að ferskum og góðum fiski og góðir fiskréttir, sem er auðvelt að útbúa og höfða til smekks unga fólksins, skipta þar meðal annars miklu máli. Ýmsar skemmtilegar uppákomur hafa verið að undanförnu sem miða að því að auka fiskneyslu, svo sem fiskveisla Hátíðar hafsins, Fiskidagurinn á Dalvík og Fiskerí. Allt sem er til þess fallið að vekja athygli og áhuga landans á fiski er af hinu góða.
Markmiðið er að gera fiskinn aftur að þjóðarrétti Íslendinga á öllum aldri.

Höfundur er verkefnisstjóri næringar hjá Lýðheilsustöð.