Skip to main content
Fréttir

Blaut tuska frá stjórnvöldum

By apríl 2, 2017No Comments

hugaraflVið í Hugarafli höfum fengið „blauta tusku“ í andlitið undanfarna viku. Heiðurinn eiga stjórnvöld, þ.e. Velferðarráðuneytið. Okkur var tilkynnt í byrjun vikunnar að félagsmálaráðuneyti hafni okkar beiðni um fjárstyrk til félagasamtaka og heilbrigðisrráðherra býður uppá rúmlega eina og hjálfa miljón þetta árið! Hugarafl hefur verið fjársvelt í mörg herrans ár af þessum aðilum en á síðastu tveimur árum studdi Kristján Þór Júlíusson samtökin og veitti aukafjárveitingu svo við gætum haldið okkar öfluga starfi áfram. Hugarafl er brautryðjandi í því að innlima batahugmyndafræði og valdeflingu inn í þjónustu við einstaklinga með geðraskanir. Árangurinn er rómaður víða, líka erlendis og margir aðilar hafa leitað í smiðju samtakanna í gengum árin þegar þróuð hefur verið þjónusta sem á að byggja á bata.

Í Hugarfli er rekin mjög öflug notendastýrð endurhæfing með 60 virknistundum á viku. Í hverjum mánuði koma 177 einstaklingar og njóta þjónustunnar. Starfssemin er sú fjölmennasta sem er að finna á Íslandi utan stofnana og byggir á batamódeli sem styrkir einstaklinga í að komast til fullar þátttöku á ný í samfélaginu eftir veikindi. Hátt í 900 manns fá aðstoð hjá Hugarafli árlega. Bati og valdefling er í fyrirrúmi og persónuleg nálgun er veitt sem þýðir að einstaklingur fer lengra í sinni sjálfsvinnu en ella. Þjónusta samtakanna samræmist allri nútíma stefnumótun og fagmenn og notendur starfa saman á jafningjagrunni við að veita þjónustuna. Sú jákvæða þróun sem hefur í auknum mæli átt sér stað undanfarna mánuði er að unga fólkið streymir til okkar og þetta virðist vera staðurinn sem unga fólkið finnur sig á og vinnur í bata sínum. Þau fara út í samfélagið á ný sterkari og víðsýnni einstaklingar með fulla verkfærakistu af bjargráðum. Vinnumálastofnun gerði samning við samtökin 2016-2017 og Hugarafl gat ráðið iðjuþjálfa sem heldur utan um þann samning sem dugar fyrir stöðugildinu.

Endurhæfingin í Hugarfli er gríðarlega öflug, mikil sjálfboðavinna er innt af hendi Hugaraflsmanna og aðstandendur hittast reglulega til að styðja hvert annað og svona mætti lengi telja. Hugarafl hefur einnig sinnt réttindabaráttu í 14 ár og stuðlað að bættri geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Megnið að þeirri hópastarfssemi sem fyrirfinnst í grasrótinni er að finna hjá okkur. Þar geta einstaklingar unnið í sinni sjálfseflingu og ná kröftum sínum á ný til að takast á við lífið og tilveruna.

Þrátt fyrir allt starfið erum við ódýrasta úrræði sem hægt er að finna á landinu en sjáum ekki alveg fram á að geta lifað á loftinu þrátt fyrir að hugsjón okkar sér mikil. Hver er eiginlega stefna stjórnvalda og þeirra embættismanna sem hér eru að verki?? Ráðherrar hafa talað hver um annan þverann að þeir vilja „endurreisa geðheilbrigðiskerfið“, hvað eru þeir að meina? Ætla þeir að setja fjármagn í aukna stofnanavæðingu og sjúkdómsvæða geðræna erfiðleika fólks sem hægt er að ná bata af? Vilja þeir í raun ekki styðja þennan hóp, er það kannski meiningin að „fela“ vandann? Er þetta aðför að einstaklingum með geðraskanir og aðstandenda þeirra? Er endurhæfing geðsjúkra ekki hátt skrifuð hjá þessum ráðherrum? Mér er sorg í huga, það læðist að mér réttlát reiði og vanlíðan vegna þeirrar niðurlægingar sem er hér í boði fyrir þennan hóp sem þarf á endurhæfingu að halda í umhverfi sem byggir á virðingu og reisn.

Batalíkur þeirra sem eru að kljást við geðræna erfiðleika eru mjög miklar ef vel er á málum haldið. Sem betur fer er að finna mann á þingi sem lætur sig varða um mál Hugarfls en það er Gunnar Hrafn Jónsson þingmaður Pírata. Við áttum gott spjall rétt í þessu sem gefur mér von og segir mér einnig að loks er að finna málsvara á þingi sem mun taka hanskann upp fyrir fólk með geðraskanir. Ég hef mikla trú á að Gunnar Hrafn geri það með hjartanu og sinni einstöku einlægni sem hann hefur sýnt okkur landsmönnum undanfarið með því að opna umræðuna um þessi mál.