Skip to main content
Greinar

„Besta heilbrigðiskerfi í heimi“

By desember 12, 2016No Comments

Höfundur: Pétur Heimisson læknir á Austurlandi

Um 30% þeirra sem leita heilsugæslunnar eru taldir gera það vegna geðræns vanda, sem líka er ein algengasta orsök þess vaxandi hlutfalls fólks sem fer á örorku. Nær 20% þjóðarinnar fær þunglyndi á lífsleiðinni og þunglyndi og kvíði geta verið mjög hamlandi í daglegu lífi.

Sjálfsvíg eru meðal algengustu dánarmeina ungs fólks. Svo tíður heilsuvandi sem skerðir lífsgæði og skaðar framleiðni samfélagsins verðskuldar að þörfum þeirra sem við hann kljást sé mætt með skýrri stefnu. Algengt tal stjórnmálaleiðtoga um að hér sé „besta heilbrigðiskerfi í heimi“ stangast á við að engin slík stefna er til og að aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu ákvarðast að stórum hluta af búsetu og efnahag fólks.
Um stóran hluta þunglyndis og kvíða gildir að réttast er talið að bjóða fyrstu meðferð í formi viðtala og þá helst hjá fagaðilum sem kunna vel til hugrænnar atferlismeðferðar. Oft eru lyf þar hvorki nauðsynleg né æskileg. Í „besta heilbrigðiskerfi í heimi“ er nær öll sálfræðiþjónusta hins vegar staðsett á suðvesturhorni landsins og sjaldan niðurgreidd og því dýr. Lyfin eru aftur á móti aðgengileg um land allt og (nær) alltaf niðurgreidd. Þessar þversagnir skýra líklega að hluta til mikla notkun okkar Íslendinga á þunglyndis- og kvíðalyfjum.

Sálfræðiþjónusta loks hluti af heilsugæslunni

Áratugum saman hafa margir bent á að sálfræðiþjónusta ætti að vera hluti af heilsugæslunni. Árið 2016 markar straumhvörf hvað þetta varðar, því stjórnvöld hafa í ár veitt fé, fyrst út á land, í þeim tilgangi að ráða sálfræðinga inn á heilsugæslustöðvar. Þetta er viðhorfsbreyting, í raun bylting sem ber að fagna. Ef byltingin er byrjuð þá er lag að halda henni áfram og gera hana víðtækari. Það var líka bylting þegar fyrstu geðlyfin komu á markað og geðlyf eru og verða mikilvægt úrræði, en bara þar sem þau eiga við.

Vægi lyfjanna er trúlega allt of mikið í dag, vegna lítils aðgengis að öðrum úrræðum. Inntak valdeflingar og fleiri úrræða, sem ekki síst iðjuþjálfar hafa innleitt, verðskulda aukna athygli og mikill fengur væri í iðjuþjálfum sem hluta af starfsliði heilsugæslunnar. Þangað eiga líka fullt erindi félagsráðgjafar, með þekkingu á samtalstækni, allt í þeim tilgangi að fjölga úrlausnum fyrir þá sem líða af kvíða og þunglyndi, eða eiga í einhvers konar tilvistarvanda í flóknu lífi samtímans. Fjölbreytni í lausnamiðuðum, heilsueflandi og aðgengilegum úrræðum gæti dregið úr óeðlilega miklu vægi lyfjameðferðar.

Geðlæknana út á land

Það er alls ekki skýrt hver fer með það hlutverk að tryggja sem jafnast aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Afleiðingin er sú að slíka þjónustu er vart að hafa annars staðar en í Reykjavík og á Akureyri. Gleymum ekki að meirihluti þessarar þjónustu er greiddur af skattfé. Ástæða er til að draga í efa að forgagnsröðun sem lætur þetta viðgangast sé á forsendum allra sem þjónustuna þurfa og eiga tilkall til sameiginlegra sjóða. Það er makalaust að við látum það viðgangast ár eftir ár að þjónusta geðlækna sé ekki aðgengileg og veitt sem víðast þar sem hennar er þörf. Fjölbreytta, lausnamiðaða geðheilbrigðisþjónustu, þar á meðal geðlæknisþjónustu, þarf að skilgreina sem nærþjónustu í þeirri merkingu að hana beri að veita í nærumhverfi fólks, í heilsugæslunni heima í heilbrigðisumdæmi.

Þeir íbúar Austurlands sem sækja geðlæknisþjónustu til Reykjavíkur eiga val um að missa tvo daga úr vinnu með því að aka, eða bara einn dag ef þeir fljúga og greiða fyrir dýrt innanlandsflugið. Akureyrarferð í sama tilgangi tekur daginn. Ferðakostnað endurgerða Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) oft, en hvorki vinnutap né uppihald.

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) hefur beðið í tæplega eitt ár eftir svari við ósk um að fá úthlutað svokölluðum sérfræðieiningum til að standa undir kostnaði við að fá geðlækni reglulega á Austurland. Á sama tíma og „besta heilbrigðiskerfi í heimi“ stendur svona að geðlæknisþjónustu og margri annarri sérfræðilegri læknisþjónustu, þá á heilsugæslan á landsbyggðinni víða erfitt með að fastráða til sín lækna.

Óheppilega hátt hlutfall læknisþjónustu sem í boði er byggist á læknum sem starfa þar í stuttan tíma í senn. Við þær aðstæður er vissulega tryggt að bráðaútkallinu er svarað, en samfellu skortir tilfinnanlega. Fyrir það geldur ýmis þjónusta og ekki síst kemur það illa niður á langveikum, öldruðum með marga sjúkdóma og þeim sem hafa geðrænan vanda, m.a. barnafjölskyldum. Geðheilbrigðisþjónusta virðist meira ætluð sumum en öðrum og búseta fólks og efnahagur ráða þar miklu – stenst það ákvæði stjórnarskrárinnar?

Grein birtist upphaflega á austurfrétt.is