Skip to main content
Fréttir

Áréttun varðandi málflutning um “andleg veikindi” í fréttum um Krabbameinsfélagið

By september 9, 2020No Comments

Reykjavík, 8. september 2020
Krabbameinsfélag Íslands hefur beint þeim tilmælum til Hugarafls að því sé komið til skila að upplýsingar um andlegt heilbrigði starfsmanns þeirra hafi ekki komið frá félaginu. Því er hér með komið á framfæri en eftirfarandi er um leið áréttað fyrir hönd Hugarafls:

Krabbameinsfélagi Íslands bar að stöðva strax þann málflutning sem varð raunin í fyrstu fréttum af málinu þ.e. að um andlega vanheilsu starfsmanns hefði verið að ræða. Hér hefði viðmælandi félagsins getað gripið inn í og hindrað skaðann. Viljum við hér nefna Kastljósþátt þann 3. september sem dæmi. Fréttamaður varpar því fram í upphafi að starfsmaður hafi verið andlega veikur og Ágúst Ingi Ágústsson sviðstjóri leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins, mótmælir því ekki á nokkrum tímapunkti viðtalsins. Við teljum að hér hafi gróflega verið brotið á starfsmanninum og í raun látið liggja í loftinu allan þáttinn, að andleg vanheilsa hefði verið orsök mistakanna sem gerð voru, en samt ekki. Við teljum það brotlegt að veikindi skuli nokkru sinni hafa verið nefnd og viðkomandi kyngreindur svo fátt eitt sé nefnt. Hér virðist okkur einnig vera um óöruggan málflutningi að ræða og næg tækifæri til að ”lesa á milli lína”.

Við hörmum að helstu fjölmiðlar hafi í raun lagt ofuráherslu á að ræða um andlegt vanheilbrigði starfsmannsins og að okkar mati sett fram í ”æsifréttastíl” hvað eftir annað undanfarna daga. Sú áhersla er okkur fullkomlega óskiljanleg og virðist til þess ætluð að leiða málið í aðra átt. Orðræðan sem einkennt hefur fréttir af málinu getur engan veginn talist fjölmiðlum til sóma og til þess fallin að auka fordóma og gefa skakka mynd af geðrænum veikindum.

Í desember 2018 setti heilbrigðisráðherra starfshóp á laggirnar sem hafði að verkefni að vinna að viðmiðum til fjölmiðla um hvernig draga megi úr fordómafullri umræðu um geðheilbrigðismál í fjölmiðlum. Hópurinn skilaði af sér skýrslu í ágúst 2019 sem var send á helstu fjölmiðla til leiðbeiningar. Það eru því mikil vonbrigði að mati okkar í Hugarafli að ekki hafi tekist betur að ná til fjölmiðla og veita þeim það aðhald og leiðbeiningu sem stefnt var að. Ef tilætluð markmið starfshópsins hefðu gengið eftir og viðmiðin höfð í heiðri hjá fjölmiðlum, hefði verið hægt að koma í veg fyrir svona ferli og þá orðræðu sem við höfum orðið vitni að síðustu daga.
Hugur okkar er hjá þeim einstaklingum og fjölskyldum sem hafa liðið vegna þeirra mistaka sem gerð hafa verið hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Hugur okkar er einnig hjá þeim starfsmanni sem um hefur verið rætt opinberlega á þann ófaglega og ómannúðlegahátt eins og raunin hefur verið. Nú hefur starfsmaðurinn sýnt þann ótrúlega kjark að koma fram opinberlega og Krabbameinsfélagið jafnframt beðið viðkomandi afsökunar. Viðviljum að lokum árétta mikilvægi þess að Krabbameinsfélagið taki fulla ábyrgð á öllu ferlinu.

Með bestu kveðju frá stjórn Hugarafls;
Málfríður Hrund Einarsdóttir formaður
Árni Steingrímsson
Auður Axelsdóttir
Fanney Björk Ingólfsdóttir
Fjóla Kristín Ólafardóttir
Sigurborg Sveinsdóttir