Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

Alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna 10. september

By september 8, 2015No Comments
 UNGIR KARLAR Í FORGRUNNI
27496_91_preview
Haldið verður upp á Alþjóðadag sjálfsvígsforvarna með fjölbreyttri dagskrá í fjórum byggðarlögum á landinu fimmtudaginn 10. september 2015.

  • Frumsýning og fyrirlestur. Fjölmiðlum og almenningi er boðið á frumsýningu forvarnarmyndbandsins Útmeð’a, forvarnarátaks gegn sjálfsvígum ungra karla, og fyrirlestur á eftir í Þjóðminjasafninu í Reykjavík kl. 15.30 þennan dag.
  • Minningarstundir. Efnt verður til minningarstunda um fórnarlömb sjálfsvíga í Dómkirkjunni í Reykjavík, Akureyrarkirkju, Egilsstaðakirkju og Keflavíkurkirkju kl. 20 sama dag.

Dagskráin í Þjóðminjasafninu hefst með stuttum inngangi Hrannars Jónssonar, formanns Geðhjálpar, um þema dagsins. Því næst verður forvarnarátakið Útmeð’a kynnt.

Átakið er samvinnuverkefni Geðhjálpar, Hjálparsíma Rauða krossins og tólf manna hlaupahóps undir yfirskriftinni Útmeð’a. Með yfirskriftinni eru ungir karlmenn hvattir til að setja erfiðar tilfinningar í orð til að bæta líðan sína. Hlaupahópurinn hljóp hringveginn með viðkomu í Vestmannaeyjum til að safna fyrir kostnaði við gerð myndbandsins fyrr í sumar.

Markmiðið með gerð og dreifingu myndbandsins er að stuðla að fækkun sjálfsvíga á Íslandi, einkum meðal karla í aldurshópnum 18 til 25 ára. Sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök karlmanna í þessum aldurshópi á Íslandi.

Í myndbandinu er tæpt á nokkrum helstu orsökum sjálfsvíga ungra karla og veittar upplýsingar um hvert fólk í sjálfsvígshugleiðingum getur leitað sér hjálpar.

Myndbandinu verður dreift á netinu og styttri útgáfa sýnd í hefðbundnum fjölmiðlum og kvikmyndahúsum. Stefnt er að því að fylgja myndbandinu eftir með fyrirlestrum í framhaldsskólum. Myndbandið er framleitt af Tjarnargötunni ehf.

Eftir frumsýningu myndbandsins mun Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur segja frá eigin reynslu af því að gera tilraun til sjálfsvígs, fjalla um sjálfsvíg í víðu samhengi og þær leiðir sem bættu líðan hans. Eftir erindið munu Steindór og nokkrir sérfræðingar verða til viðtals við fjölmiðla og almenning í hliðarsal. Þar verður boðið upp á kaffi fyrir gesti.

Minningarstundir með hugvekju og tónlist verða haldnar í Dómkirkjunni í Reykjavík, Akureyrarkirkju, Egilsstaðakirkju og Keflavíkurkirkju kl. 20 um kvöldið.

Að dagskránni standa: Þjóðkirkjan, Embætti landlæknis, geðsvið Landspítalans, Ný dögun, Lifa, Rauði krossinn, Hugarafl og Geðhjálp.

Alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna 10. september

DAGSKRÁ Í ÞJÓÐMINJASAFNINU
kl. 15:30 – 17:00

15.30 Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar, flytur inngangsorð.

15.40 Anna G. Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir frá tilurð og markmiði Útmeð’a forvarnarverkefnisins.

15.50 Friðleifur Friðleifsson hlaupari segir frá hringhlaupi Útmeð’a hlaupahópsins og sýnir nokkrar ljósmyndir úr hlaupinu.

16.00 Hjálmar Karlsson, verkefnisstjóri Hjálparsíma Rauða krossins, segir frá uppbyggingu og skilaboðum myndbandsins.

16.10 Myndband Útmeð’a hópsins frumsýnt.

16.15 Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur flytur erindi.

16.30 Fulltrúar verkefnisins og sérfræðingar verða til viðtals fyrir fjölmiðla og almenning í hliðarsal. Þar verður gestum boðið upp á kaffi.

17.00 Dagskrá lokið
Salbjörg Bjarnadóttir
verkefnisstjóri