Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi

Lýsing á dagskrárliðum Hugarafls árið 2019

Hópastarf, verkefnavinna og virk þátttaka byggð á valdeflingu, batahugmyndafræði og jafningjagrunni

Boðið verður upp á hópa leidda af einstaklingum með fagmenntun sem og einstaklingum með persónulega reynslu af andlegum áskorunum. Dagskráin samanstendur af 6 vikna lotum með mismunandi hópa í hverri lotu. Lotukerfið varð fyrir valinu til að miðla efnistökunum á hnitmiðaðan hátt, bjóða upp á fjölbreytt starf og gefa tækifæri á myndun og þróun nýrra hópa.

Dæmi um hópa sem verða á boðstólum í Hugarafli árið 2020:

Aðstandendur. Aðstandendahópurinn hefur verið starfræktur frá upphafi Hugarafls. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg, reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast andlegum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir. Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar. Auður Axelsdóttir leiðir þennan hóp.

Bati. Klukkutíma langur hópur sem hittist einu sinni í viku og ræðir batahugmyndafræðina sem er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Hópurinn er leiddur af Auði Axelsdóttur iðjuþjálfa ásamt öðrum og byggir á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur og hugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel í bataferli sínu.

Bókaklúbbur. Bókaklúbbur hittist vikulega og ræðir hina nýútkomnu bók „Drop the disorder“ í um klukkustund. Svava Arnardóttir og Auður Axelsdóttir leiða hópinn. Bókin er á ensku og hver kafli er sjálfstæður. Það er því hægt að koma inn í hópinn hvenær sem er, svo lengi sem viðkomandi hafi lesið þann kafla sem er til umræðu það skiptið

Bragabót. Vikulegur, tveggja klukkustunda hópur leiddur af Braga Sæmundssyni sálfræðingi. Efnistök hópsins eru ýmis konar uppbyggileg atriði úr smiðju sálfræðinnar, m.a. jákvætt sjálfstal, sjálfsmyndarvinna og hugarfar.

Drekasmiðja. Thelma Ásdísardóttir ráðgjafi frá Drekaslóð heldur vikulegar tveggja klukkustunda vinnustofur þar sem þátttakendum gefst færi á að ræða áhrif áfallasögu á sjálfsmynd, samskipti og tengslamyndun. Efnið er sett fram á uppbyggilegan, hvetjandi hátt sem ýtir undir að hver og einn finni sína leið til betri líðanar.

Flow of movement. A group led by Dumitrița Simion. She invites people to an hour of moving freely with music, with the aim of liberating the natural movements of the body and experiencing new ways of being authentic. The guidance from the group leader is only meant to facilitate the connection with one‘s own body, listening to and following its needs and finding joy in the music. No dancing experience or skills are required, there are no ‚right moves‘ being taught, everyone is welcome.

Frjáls verkefnavinna. Líður í stundatöflu þar sem félagsmenn geta fundað og unnið í verkefnum sem koma upp á Hugaraflsfundi.

Gestalt sjálfsvinna. Þessi hópur er lokaður, með takmörkuð pláss og krefst skráningar áður en fyrsti hittingur á sér stað. Hákon Leifsson, kallaður Tumi, býður upp á hóp byggðan á gestalt meðferð. Gestalt er einnig þekkt sem húmanísk meðferð, er skjólstæðingsmiðuð og byggir á því að styðja einstaklinginn til að hjálpa sér sjálfum. Djúp tilfinningavinna og umræða. Hópurinn hittist einu sinni í viku í klukkustund í senn.

Gong slökun. Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á klukkustundarlanga gongslökun einu sinni í viku.

Hugaraflsfundur. Félagar í Hugarafli eru eindregið hvattir til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja stóra viðburði. Hugaraflsfundir eru einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn og gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, halda út og auka einbeitingu, gegna veigamiklu hlutverki auk annarra atriða.

Húsfundur. Félagar í Hugarafli hittast í byrjun vikunar og skipuleggja dagana framundan. Farið er yfir dagskrá, heimsóknir og viðburði á döfinni.

Kundalini yoga. Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á kundalini jógatíma tvisvar sinnum í viku, í 90 mín í senn. Tímarnir eru aðlagaðir að þörfum þátttakenda.

Möntrusöngur. Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á hálftíma möntrusöng ásamt gítarundirleik Árna Ævarrs Steingrímssonar einu sinni í viku.

Raddir, sýnir og skynjanir. Raddir, sýnir og skynjanir. Fanney Björk Ingólfsdóttir og Svava Arnardóttir leiða hóp jafningja sem langar að ræða sínar upplifanir af því að heyra raddir, sjá hluti eða lifa með öðrum skynjunum af heiminum sem ekki öll hafa. Markmiðið er að skapa umræðuvettvang án sjúkdómsstimpla og læknisfræðilegs orðalags, og finna leiðir til að lifa góðu lífi með þessum upplifunum. Hópurinn hittist vikulega í klukkustund en tekur á móti nýju fólki aðra hverja viku.

Sjálfsstyrking. Þessi hópur er lokaður, með takmörkuð pláss og krefst skráningar áður en fyrsti hittingur á sér stað. Bragi Sæmundsson sálfræðingur leiðir hópinn sem hittist vikulega í 90 mínútur í senn. Efnistök hópsins eru fjölbreytt en miða að því að einstaklingurinn öðlist aukið sjálfstraust og trú á eigin getu. Þátttakendur hópsins ákvarða í sameiningu viðfangsefnin í upphafi fyrsta fundar. Val þeirra stendur um ýmis konar uppbyggileg atriði úr smiðju sálfræðinnar, m.a. jákvætt sjálfstal, sjálfsmyndarvinnu og hugarfar.

Skipulag endurhæfingar. Hópurinn hittist vikulega og ræðir þau málefni sem koma upp í tengslum við að þiggja endurhæfingarlífeyri frá TR, vinna markvisst í endurhæfingu sinni og móta eigið bataferli. Auður Axelsdóttir og Svava Arnardóttir iðjuþjálfar halda utan um hópinn og leiða í markmiðasetningu og umræðu um málefni á borð við bataferlið, heilbrigt svefnmynstur, ferilskrárgerð, bjargráð og vanamynstur.

Sköpun í vikulok. Boðið verður upp á hóp sem hittist einu sinni í viku í um 90 mínútur í senn. Hópurinn kannar ólík listform, meðal annars gefst þátttakendum færi á að spreyta sig við söng og spila á hljóðfæri.

Unghugar. Hópurinn er ætlaður ungu fólki á aldrinum 18-30 ára sem vill hitta aðra á svipuðu reiki, ræða líðan og vinna sig úr andlegri krísu. Svava Arnardóttir iðjuþjálfi heldur utan um hópinn og styður í umræðum um hugmyndafræði á borð við bata, valdeflingu og jafningjagrunn. Einnig vinna Unghugar að verkefnum, skipuleggja viðburði, opna umræðu um geðheilbrigðismál og hittast í félagslegum aðstæðum utan funda. Unghugar funda einu sinni í viku í 90 mínútur í senn.

Valdefling. Hópur þar sem valdefling er rædd frá ýmsum sjónarhornum og þátttakendur deila af eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Valdeflingarhugmynda-fræðin kemur frá Judi Chamberlin. Hópurinn er leiddur af Árna Ævarri Steingrímssyni og Páli Ármann og hittist einu sinni í viku í klukkustund í senn.

Yoga nidra. Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á klukkustundarlangan slökunartíma með leiddri hugvekju og ásetningi einu sinni í viku.

Wim Hof öndun. Boðið verður upp á hóp sem hittist einu sinni í viku og fer saman í gegnum Wim Hof öndun.  Heiða Gunnlaugs leiðir þennan hóp en hugmyndafræðin kemur frá Wim Hof sem hefur um árabil kennt fólki öndurnartæki sem hjálpar líkamanum að þola mikinn kulda. Öndunin ásamt kuldanum styrkir ónæmiskerfið ásamt því að minnka streitu og auka einbeitingu. Vísindarannsóknir hafa sýnt fram á að með þessari tækni er hægt hafa áhrif á grunnhitastig líkamans og Wim Hof leggur áherslu á að það sem hann gerir sé rannsakað og stutt vísindalega.Í tímanum prófum við þessa öndunartækni saman (við förum ekki í kuldahluta tækninnar) og hlustum á upptöku þar sem Wim Hof sjálfur leiðir okkur í gegnum öndunina. Þetta er ekki kennsla heldur ber hver ábyrgð á sér í þessari samstund.

Þýðing upplifana. Hópurinn hittist einu sinni í viku, hópstjórar eru Fanney og Svava en þessi hópur er lokaður . Að heyra raddir, sjá sýnir og önnur óhefðbundin skynjun af heiminum geta verið þýðingarríkar upplifanir og ástæðurnar að baki þessari skynjun geta verið margvíslegar. Þessi hópur er ætlaður þeim sem hafa verið að nýta sér hópinn „raddir, sýnir og skynjanir“ á þriðjudögum og vilja vinna dýpra með upplifanir sínar af röddum, sýnum eða öðrum tengdum skynjunum. Stefnt er að því að nota skapandi leiðir til að rýna í eigin upplifanir og leita að þýðingu þeirra, fyrir okkur sjálf og á okkar eigin forsendum.

 

Verkefni sem Hugaraflsfólki býðst að taka þátt í:

Erasmus+ verkefni. Hugarafl tekur þátt í fjölda erlendra verkefna sem hafa hlotið fjárhagslegan styrk frá Evrópusambandinu. Þátttaka í þessum verkefnum hefur meðal annars snúið að því að skipuleggja námskeið með erlendum leiðbeinendum, fara erlendis í þjálfanir, þróa námsefni og borðspil og þátttaka í öðrum viðburðum hérlendis sem erlendis. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Fjólu Kristínu Ólafardóttur verkefnastjóra.

Geðfræðsla Hugarafls. Einstaklingar á vegum Hugarafls fara í efstu bekki grunnskóla og menntaskóla til að fræða ungmenni um reynslu sína, batann, bjargráð og hvað sé mikilvægt að gera ef geðrænar áskoranir eiga sér stað og hvar megi leita stuðnings í umhverfinu. Þessi fræðsla byggir á persónulegri reynslu einstaklingsins og hefur gefið góða raun til að minnka fordóma og opna umræðu um geðheilbrigðismál. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Fjólu Kristínu Ólafardóttur verkefnastjóra.

Klikkið hlaðvarp. Hugarafl gefur út vikulegan útvarpsþátt á netinu, svk. hlaðvarp (e. podcast). Þátturinn miðlar hugmyndafræði Hugarafls og opinni umræðu um geðheilbrigðismál til íslensks samfélags. Áhugasöm eru hvött til að hlusta á nokkra þætti á stundin.is, kjarninn.is eða hugarafl.is og heyra því næst í Árna Steingrímssyni eða Páli Ármanni.

Ritnefnd. Ritnefndin heldur úti heimasíðunni hugarafl.is auk opinni like-síðu Hugarafls á facebook. Ritnefndin miðlar fréttum um geðheilbrigðismál á síðunni en getur einnig skrifað pistla, þýtt efni og skapað myndbönd eftir áhuga og málefni hverju sinni. Áhugasöm geta haft samband við Kristinn Heiðar, Magga, Fjólu eða Auði. Einnig er hægt að senda ábendingu um vefinn á ritnefnd@hugarafl.is

Skipulagning ráðstefna, námskeiða og annarra stakra viðburða í starfsemi Hugarafls. Hugarafl heldur ýmsa stóra viðburði í gegnum árið til að opna umræðu um geðheilbrigðismál og miðla reynslu okkar. Þessir viðburðir eru ræddir á Hugaraflsfundum og ákvarðanir teknar þar. Áhugasömum er bent á að sækja Hugaraflsfundi til að fá upplýsingar um hvað er á döfinni og mögulega grasrótarfundi til að vinna að verkefnunum í kjölfarið.