Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi

Lýsing á dagskrárliðum Hugarafls árið 2019

Hópastarf, verkefnavinna og virk þátttaka byggð á valdeflingu, batahugmyndafræði og jafningjagrunni

Boðið verður upp á hópa leidda af einstaklingum með fagmenntun sem og einstaklingum með persónulega reynslu af geðrænum áskorunum. Dagskráin samanstendur af 6 vikna lotum með mismunandi hópa í hverri lotu. Lotukerfið varð fyrir valinu til að miðla efnistökunum á hnitmiðaðan hátt, bjóða upp á fjölbreytt starf og gefa tækifæri á myndun og þróun nýrra hópa.

Dæmi um hópa sem verða á boðstólum í Hugarafli:

Batasögur. Klukkutíma langur, vikulegur hópur sem byggir á einstakri reynslu fólks af andlegum áskorunum. Ólíkir einstaklingar miðla sínum bataleiðum, bataverkfærum og hvaða aðferðir hentuðu þeim til að ná bata. Hópnum er bæði ætlað að vekja upp batavon þátttakenda en einnig skapa vettvang fyrir einstaklinga til að miðla af eigin persónulegu reynslu til góðs.

Bati. Klukkutíma langur hópur sem hittist einu sinni í viku og ræðir batahugmyndafræðina sem er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Hópurinn er leiddur af Auði Axelsdóttur iðjuþjálfa ásamt öðrum og byggir á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur og hugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel í bataferli sínu.

Bragabót. Vikulegur, tveggja klukkustunda hópur leiddur af Braga Sæmundssyni sálfræðingi. Efnistök hópsins eru ýmis konar uppbyggileg atriði úr smiðju sálfræðinnar, m.a. jákvætt sjálfstal, sjálfsmyndarvinna og hugarfar.

Drekasmiðja. Thelma Ásdísardóttir ráðgjafi frá Drekaslóð heldur vikulegar tveggja klukkustunda vinnustofur þar sem þátttakendum gefst færi á að ræða áhrif áfallasögu á sjálfsmynd, samskipti og tengslamyndun. Efnið er sett fram á uppbyggilegan, hvetjandi hátt sem ýtir undir að hver og einn finni sína leið til betri líðanar.

Ég. Hafrún Kr. Sigurðardóttir leiðir vikulegan hóp sem ræðir saman í tæpa klukkustund hvert sinn. Hópurinn styður hvert og eitt okkar til að finna og móta okkar viku og setja okkur markmið. Við hefjum hverja viku með því að ákveða hvert ferðalaginu skal heitið og brjóta niður leiðina í smærri viðráðanlegar einingar.

Gestalt sjálfsvinna. Þessi hópur er lokaður, með takmörkuð pláss og krefst skráningar áður en fyrsti hittingur á sér stað. Hákon Leifsson, kallaður Tumi, býður upp á hóp byggðan á gestalt meðferð. Gestalt er einnig þekkt sem húmanísk meðferð, er skjólstæðingsmiðuð og byggir á því að styðja einstaklinginn til að hjálpa sér sjálfum. Djúp tilfinningavinna og umræða. Hópurinn hittist einu sinni í viku í klukkustund í senn.

Gong slökun. Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á klukkustundarlanga gongslökun einu sinni í viku.

Grasrótin. Tveggja klukkustunda langur hópur sem hittist einu sinni í viku til að vinna að fjölda verkefna sem koma upp í starfsemi Hugarafls. Hópurinn er opinn öllum og hefst á yfirliti yfir vikuna þar sem ólík verkefni eru reifuð, t.a.m. greinaskrif, undirbúningur stórs viðburðar, starfsemin í húsinu og þýðingar. Einstaklingar mynda smærri hópa um stök verkefni sem þeir kjósa að vinna í það skiptið. Hópurinn býður með þessum hætti upp á tækifæri til valdeflingar, nota reynslu og þekkingu til góðs og tilheyra hóp.

Hugaraflsfundur. Félagar í Hugarafli eru eindregið hvattir til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja stóra viðburði. Hugaraflsfundir eru einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn og gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, halda út og auka einbeitingu, gegna veigamiklu hlutverki auk annarra atriða.

Kaffispjall. Langar þig að hitta aðra Hugaraflsmeðlimi, kynnast í rólegum og notalegum aðstæðum og rjúfa einangrun? Þessi hópur hittist vikulega í eldhúsi Hugarafls í um 45 mínútur. Hér gefst tækifæri til að ræða daginn og veginn, mynda tengsl og hitta aðra í svipuðum aðstæðum.

Kundalini yoga. Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á kundalini jógatíma þrisvar sinnum í viku, í 90 mín í senn. Tímarnir eru aðlagaðir að þörfum þátttakenda.

Making waves. Dumitrița er sálfræðingur og lærð í óformlegum kennsluaðferðum. Hún leiðir okkur vikulega í gegnum 1.5 klukkustunda hópæfingar til að finna okkar leiðir til að hafa áhrif út fyrir okkur sjálf. Hópurinn fer fram á ensku. Notast er við virka þátttöku og ýmis konar æfingar til að kynnast því hver við erum sem manneskjur og byggja upp sjálfstraust, taka eftir þörfunum í kringum okkur, láta til okkar taka og skapa jákvæðar breytingar.

Meðvirknihópur. Magnea Rivera Reinaldsdóttir leiðir umræður og heldur úti vikulegum hópi þar sem unnið er með meðvirkni og setja mörk. Samtalið varir í klukkustund í senn.

Möntrusöngur. Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á hálftíma möntrusöng ásamt gítarundirleik Árna Ævarrs Steingrímssonar einu sinni í viku.

Rhythm within. Klukkutíma langur, vikulegur hópur þar sem Dumitrița, sálfræðingur og lærð í óformlegum kennsluaðferðum, leiðir okkur í gegnum hreyfingar með tónlist. Hópurinn er til þess að auka líkamsvitund og tengingu okkar við líkamann auk þess sem við náum að leysa úr læðingi náttúrulega hreyfingu sem hvert og eitt okkar býr yfir.

Rýnt í geðveiki. Svava Arnardóttir iðjuþjálfi leiðir vikulegan hóp sem hittist í um klukkustund í senn. Hópurinn byggir á erlendu lesefni þar sem þátttakendum gefst færi á að rýna í viðteknar venjur í geðheilbrigðiskerfinu, geðheilsu, fordóma og valdahlutverk. Þátttaka í hópnum krefst þess að einstaklingar séu reiðubúnir að kynna sér efni á ensku og eiga uppbyggilegar umræður í kjölfarið.

Sjálfsstyrking. Þessi hópur er lokaður, með takmörkuð pláss og krefst skráningar áður en fyrsti hittingur á sér stað. Bragi Sæmundsson sálfræðingur leiðir hópinn sem hittist vikulega í 90 mínútur í senn. Efnistök hópsins eru fjölbreytt en miða að því að einstaklingurinn öðlist aukið sjálfstraust og trú á eigin getu. Þátttakendur hópsins ákvarða í sameiningu viðfangsefnin í upphafi fyrsta fundar. Val þeirra stendur um ýmis konar uppbyggileg atriði úr smiðju sálfræðinnar, m.a. jákvætt sjálfstal, sjálfsmyndarvinnu og hugarfar.

Skipulag endurhæfingar. Hópurinn hittist vikulega og ræðir þau málefni sem koma upp í tengslum við að þiggja endurhæfingarlífeyri frá TR, vinna markvisst í endurhæfingu sinni og móta eigið bataferli. Auður Axelsdóttir og Svava Arnardóttir iðjuþjálfar halda utan um hópinn og leiða í markmiðasetningu og umræðu um málefni á borð við bataferlið, heilbrigt svefnmynstur, ferilskrárgerð, bjargráð og vanamynstur.

Sköpun í vikulok. Boðið verður upp á hóp sem hittist einu sinni í viku í um 90 mínútur í senn. Hópurinn kannar ólík listform, meðal annars gefst þátttakendum færi á að spreyta sig við söng og spila á hljóðfæri.

Sterkir hugar. Fjóla Ólafardóttir og Fanney Ingólfsdóttir leiða hópinn í gegnum óformlegar æfingar í bata. Hópurinn hittist vikulega og fer í nýja æfingu í hvert skipti og stendur yfir klukkutíma í senn. Hér gefst tækifæri á að stíga út fyrir þægindaramma og prófa öðruvísi aðferðir til að auka sjálfstraust, kynnast tilfinningum sínum og auka samskiptahæfileika.

Trommuhringur. Sigurboði Grétarsson leiðir þátttakendur í taktfast ferðalag opið öllum, einu sinni í viku í klukkustund í senn. Hann kemur með fjöldann allan af ólíkum trommum sem hægt er að prófa og æfa sig í sameiningu að finna takt. Töfrum líkast!

Unghugar. Hópurinn er ætlaður ungu fólki á aldrinum 18-30 ára sem vill hitta aðra á svipuðu reiki, ræða líðan og vinna sig úr andlegri krísu. Svava Arnardóttir iðjuþjálfi heldur utan um hópinn og styður í umræðum um hugmyndafræði á borð við bata, valdeflingu og jafningjagrunn. Einnig vinna Unghugar að verkefnum, skipuleggja viðburði, opna umræðu um geðheilbrigðismál og hittast í félagslegum aðstæðum utan funda. Unghugar funda einu sinni í viku í 90 mínútur í senn.

Valdefling. Hópur þar sem valdefling er rædd frá ýmsum sjónarhornum og þátttakendur deila af eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Valdeflingarhugmynda-fræðin kemur frá Judi Chamberlin. Hópurinn er að mestu leyti leiddur af Árna Ævarri Steingrímssyni og hittist einu sinni í viku í klukkustund í senn.

Valdeflingarrýnihópur. Svava Arnardóttir iðjuþjálfi leiðir þennan hóp sem hittist einu sinni í viku í eina klukkustund í senn. Þessi hópur er fyrir þau sem þekkja hugmyndafræði valdeflingar vel, hafa setið valdeflingartíma Hugarafls og eru vön að ræða valdeflingarpunktana. Við komum saman og deilum hvaða atriði koma vanalega upp í umræðu um hvern punkt fyrir sig og hvað væri gott að ræða í tengslum við hvern punkt. Stefnt er að því að nota þessa innsýn í frábærum, nýjum ítartexta fyrir valdeflinguna sem byggir á reynslu okkar af því að vinna með valdeflingu síðasliðin 15 ár.

Yoga nidra. Unnur Guðrún Óskarsdóttir jógakennari býður upp á klukkustundarlangan slökunartíma með leiddri hugvekju og ásetningi einu sinni í viku.

 

Verkefni sem Hugaraflsfólki býðst að taka þátt í:

Erasmus+ verkefni. Hugarafl tekur þátt í fjölda erlendra verkefna sem hafa hlotið fjárhagslegan styrk frá Evrópusambandinu. Þátttaka í þessum verkefnum hefur meðal annars snúið að því að skipuleggja námskeið með erlendum leiðbeinendum, fara erlendis í þjálfanir, þróa námsefni og borðspil og þátttaka í öðrum viðburðum hérlendis sem erlendis. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Fjólu Kristínu Ólafardóttur verkefnastjóra.

Geðfræðsla Hugarafls. Einstaklingar á vegum Hugarafls fara í efstu bekki grunnskóla og menntaskóla til að fræða ungmenni um reynslu sína, batann, bjargráð og hvað sé mikilvægt að gera ef geðrænar áskoranir eiga sér stað og hvar megi leita stuðnings í umhverfinu. Þessi fræðsla byggir á persónulegri reynslu einstaklingsins og hefur gefið góða raun til að minnka fordóma og opna umræðu um geðheilbrigðismál. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Fjólu Kristínu Ólafardóttur verkefnastjóra.

Klikkið hlaðvarp. Hugarafl gefur út vikulegan útvarpsþátt á netinu, svk. hlaðvarp (e. podcast). Þátturinn miðlar hugmyndafræði Hugarafls og opinni umræðu um geðheilbrigðismál til íslensks samfélags. Áhugasöm eru hvött til að hlusta á nokkra þætti á kjarninn.is eða hugarafl.is og heyra því næst í Árna Steingrímssyni eða Páli Ármanni.

Ritnefnd. Ritnefndin heldur úti heimasíðunni hugarafl.is auk opinni like-síðu Hugarafls á facebook. Ritnefndin miðlar fréttum um geðheilbrigðismál á síðunni en getur einnig skrifað pistla, þýtt efni og skapað myndbönd eftir áhuga og málefni hverju sinni. Áhugasöm geta haft samband við Kristinn Heiðar, Harry eða Auði.

Skipulagning ráðstefna, námskeiða og annarra stakra viðburða í starfsemi Hugarafls. Hugarafl heldur ýmsa stóra viðburði í gegnum árið til að opna umræðu um geðheilbrigðismál og miðla reynslu okkar. Þessir viðburðir eru ræddir á Hugaraflsfundum og ákvarðanir teknar þar. Áhugasömum er bent á að sækja Hugaraflsfundi til að fá upplýsingar um hvað er á döfinni og mögulega grasrótarfundi til að vinna að verkefnunum í kjölfarið.

Tenglar og Samherjar. Einstaklingum með persónulega reynslu af geðrænum áskorunum gefst færi á að nýta hana á uppbyggilegan hátt með þessum tveimur hlutverkum. Tenglar styðja nýtt Hugaraflsfólk í fyrstu skrefunum innanhúss og hvetja þau áfram til að prófa dagskrárliði og kynnast starfseminni. Samherjar veita einstaklingssamtöl þar sem þeir eru beðnir um að miðla af eigin reynslu, bata og von til einstaklings sem hefur óskað eftir stuðningi á eigin batavegferð. Samtölin eiga ekki að veita ráðgjöf né meðferð, þau eru spjall á milli tveggja jafningja. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Elínu (Ellu) Einarsdóttur.

Fræðsla og fyrirlestrar

Valdefling: Hópur sem hittist og ræðir daglegt líf og bata út frá 15 valdeflingarpunktum Judi Chamberlin og hvernig hægt sé að notast við valdeflingu í eigin bataferli. Valdefling er í boði einu sinni í viku og er einn punktur tekinn fyrir í hvert sinn. Punkturinn er ræddur og fólk segir frá sinni skoðun og reynslu tengt honum.

Batahorn: Þematengd umræða um batahvetjandi leiðir, viðhorf og gildi. Markmið Batahorns er að verða meðvitaðri um bataleið sína, ábyrgð og valmöguleika.

Drekasmiðja: Thelma Ásdísardóttir frá Drekaslóð heldur ör-námskeið hjá Hugarafli þrjá föstudaga í mánuði  í tvær klukkustundir í senn.  Drekasmiðja gengur út á sjálfstyrkingu, eflingu sjálfsmyndar, samskipti, væntingar, að takast á við áföll/afleiðingar ofbeldis og margt fleira er varðar eflingu geðheilbrigðis. Markmiðið er að fræðast um leiðir í bataferli og að verða færari um að nota þau verkfæri sem henta hverjum og einum á leið til heilsu.

Batasmiðja: Fengnir eru fyrirlesarar bæði innan og utan Hugarafls með tveggja tíma fræðslu um málefni/efnistök sem varða geðheilbrigði. Sálfræðingar, iðjuþjálfar, notendur og gestir sem hafa reynslu eða kunnáttu tengda þessum málaflokki taka að sér þessa tíma. Má þar nefna efnistök eins og valdeflingu, sjálfstraust, að setja mörk, bjargráð í bata, geðræktarkasinn, samskipti, markmiðasetningu, skipulag, fundarsköp,  ofl.

Málin rædd í fundarherbergi
Drekinn Thelma Ásdísardóttir

Stuðningur og skipulag

Fræðsla og stuðningur fara saman
Félagsvist hjá unghugum

Skipulag endurhæfingar: Hópur í umsjá tveggja iðjuþjálfa þar sem einstaklingar á endurhæfinga- eða örorkulífeyri vinna markvisst í bata sínum og stefna aftur í nám eða á atvinnumarkað. Í hverri viku er mismunandi þema tengt sjálfsvinnunni ásamt markmiðasetningu fyrir komandi viku og áætlanagerð.

Unghugar: Ungt fólk 18-30 ára með geðraskanir hittist og ræðir sínar bataleiðir með valdeflingu og bata að leiðarljósi. Einnig deila Unhugar reynslu sinni og kappkosta að vera hvort öðru fyrirmynd í batanum. Unghugar hittast reglulega á vikulegum fundum með Svövu Arnardóttur iðjuþjálfa. Annar fundur vikunnar er ætlaður í í skipulags-og verkefnavinnu. Auk þessa hittist hópurinn reglulega til að styrkja félasleg tengsl og samveru s.s. á spilakvöldum.

Aðstandendahópur: Hópur aðstandenda sem hittist tvisvar í mánuði ásamt iðjuþjálfa. Farið er yfir stöðu hjá hverjum og einum, veitt eru ráð og samtal fer fram aðstandenda á milli þar sem deilt er reynslu og bjargráðum. Markmið hópsins er að verða meðvitaður um hlutverk sitt sem aðstandanda að læra leiðir til að styðja sinn aðstandanda í bataferli en jafnframt að huga að eigin heilsu. Á árinu leituðu 73 einstaklingar stuðnings í hópnum.

Sjálfstyrking: Sálfræðingur heldur utan um hópavinnu þar sem fram fer öflug fræðsla og  þátttakendum eru kynnt ýmis verkfæri og aðferðir til sjálfseflingar og sjálfsstyrkingar. Þetta er lokaður hópur fyrir 7-8 einstaklinga og stendur hvert námskeið yfir í 7 vikur.

List og verklegt

Teikni og Litahópur: Notast er þar til gerðar litabækur til að slá m.a á kvíða, auka féagsleg tengsl, rætt er um batahvetjandi leiðir á meðan litað/ teiknað er. Allir mega koma með eigin verkefni eða handavinnu kjósi þeir það frekar.

Myndlist: Marteinn Jakobsson Hugaraflsmaður hefur í árabil verið með tilsögn og kennslu í myndlist fyrir áhugasamt Hugaraflsfólk. Tímarnir voru tvisvar í viku fyrri part árs, en var fækkað í einn tíma á viku seinni part ársins. Í hvert sinn mæta um 2-5 einstaklingar.

Jóga: Tvenns konar jóga er í boði þ.e. Kundalini jóga og Jóga Nidra, 4 daga vikunnar. Markið hópsin er að efla hreyfingu og leiðir til að höndla vanlíðan, að vera í núinu og nýta aðferðir jóga til að efla bjargráð í bataferlinu.

Listaverk frá Hugaraflsfólki

Gítarkennsla Árna: Árni Steingrímsson Hugaraflsmaður hefur sinnt gítarkennslu síðan í mars 2015 og hélt því áfram 2016. Hann hjálpar bæði þeim sem eru að byrja í gítarleik og lengra komnir. Hann hefur verið með einkakennslu og í hóp allt eftir því sem áhugin er.

Tónhugar: Tónlistarhópur sem er vettvangur fyrir alla þá sem hafa áhuga á tónlistarsköpun, upptökutækni og hljóðfæraleik þar sem þátttakendur geta skipst á hugmyndum og lært af öðrum um áðurnefnda hluti.  Kennt er hvernig taka skal upp tónlist, bæði söng og hljóðfæraleik, með tölvuforritum, einnig hvernig stilla skal upp græjum fyrir slíkar upptökur.  Þeir sem taka þátt geta skipst á hugmyndum varðandi lagasmíðar, strauma og stefnur, og einnig er hægt að fræðast um hljómafræði, tónfræði, hryn og takt o.s.frv.  Fyrirhugað er að fá utanaðkomandi til að flytja erindi eða að heimsækja alvöruupptökustúdíó.  Þarna er að finna ágætis búnað s.s. hljóðnema, hljóðkort, stúdíómónitora, hljómborð og trommumaskínu. Markmið hópsins er aukið sjálfstraust á sviði tónlistarsköpunar, að efla getu og þor til að stunda sköpun í hópi og að efla þekkingu á tækjabúnaði.

Guðmundur Hrannar Eiríksson hljóðmaður hefur unnið með hópnum í þróun og uppbyggingu, unnið að uppsetningu tækjabúnaðar, einnig haldið utan hópinn vikulega.  Stjórn Hugarafls hefur stutt verkefnið með fjárveitingu og Lionsklúbburinn Fold veitti Tónhugum styrk til tækjakaupa að upphæð 120.000kr.

Tónhugar fóru af stað á haustmánuðum og lofa mjög góðu, bæði fyrir þátttakendur og hressandi áhrifa á allt húsið. Þátttaka eykst jafnt og þétt, sérstaklega hjá unga fólkinu.

Geðveikt eldhús: Sjálfboðaliðar sem hafa boðið sig fram á Hugaraflsfundi, elda hádegismat á föstudögum fyrir virka þátttakendur í húsinu. Hópurinn sér um skipulag, innkaup og eldamennsku. Markmið hópsins er að efla færni í elshúsi og að ýta undir jákvæða samveru félagsmanna á annasömum degi.

Atli Valur og Árni taka lagið
Fjölmennt í eldhúsinu