Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi

Í þessu yfirliti er stuttlega farið yfir innihald helstu hópa á vikulegri dagskrá í Hugarafli. Dagskráin birtist reglulega á heimasíðu Hugarafls og er uppfærð reglulega. Athugið að í júlí og ágúst er dagskráin breytt.

Mörg verkefni falla til innan Hugarafls í dagsins önn sem er ekki að finna í hefðbundinni dagskrá. Má þar nefna ýmis verkefni innanhús og utan sem allir geta tekið þátt í eftir getu og framvindu í bataferlinu. Meðal verkefna má nefna Geðfræðsla Hugarafls, Samherjar, þýðingar á ýmsu fræðsluefni erlendis frá, erlent samstarf, umsjón hópastarfs, umsjón svæða eins og eldhúss, símsvörun, húshópur sem sér um daglegt utanumhald og fleira mætti nefna. Þyngd verkefna er mjög mismunandi og er alltaf val hvers og eins. Reynslan er sú að sá sem tekur aukin þátt í verkefnum samhliða dagskrá eykur virkni sína og tilgang með þátttöku sinn í Hugarafli.

Fræðsla og fyrirlestrar

Valdefling: Hópur sem hittist og ræðir daglegt líf og bata út frá 15 valdeflingarpunktum Judi Chamberlin og hvernig hægt sé að notast við valdeflingu í eigin bataferli. Valdefling er í boði einu sinni í viku og er einn punktur tekinn fyrir í hvert sinn. Punkturinn er ræddur og fólk segir frá sinni skoðun og reynslu tengt honum.

Batahorn: Þematengd umræða um batahvetjandi leiðir, viðhorf og gildi. Markmið Batahorns er að verða meðvitaðri um bataleið sína, ábyrgð og valmöguleika.

Drekasmiðja: Thelma Ásdísardóttir frá Drekaslóð heldur ör-námskeið hjá Hugarafli þrjá föstudaga í mánuði  í tvær klukkustundir í senn.  Drekasmiðja gengur út á sjálfstyrkingu, eflingu sjálfsmyndar, samskipti, væntingar, að takast á við áföll/afleiðingar ofbeldis og margt fleira er varðar eflingu geðheilbrigðis. Markmiðið er að fræðast um leiðir í bataferli og að verða færari um að nota þau verkfæri sem henta hverjum og einum á leið til heilsu.

Batasmiðja: Fengnir eru fyrirlesarar bæði innan og utan Hugarafls með tveggja tíma fræðslu um málefni/efnistök sem varða geðheilbrigði. Sálfræðingar, iðjuþjálfar, notendur og gestir sem hafa reynslu eða kunnáttu tengda þessum málaflokki taka að sér þessa tíma. Má þar nefna efnistök eins og valdeflingu, sjálfstraust, að setja mörk, bjargráð í bata, geðræktarkasinn, samskipti, markmiðasetningu, skipulag, fundarsköp,  ofl.

Málin rædd í fundarherbergi
Drekinn Thelma Ásdísardóttir

Stuðningur og skipulag

Fræðsla og stuðningur fara saman
Félagsvist hjá unghugum

Skipulag endurhæfingar: Hópur í umsjá tveggja iðjuþjálfa þar sem einstaklingar á endurhæfinga- eða örorkulífeyri vinna markvisst í bata sínum og stefna aftur í nám eða á atvinnumarkað. Í hverri viku er mismunandi þema tengt sjálfsvinnunni ásamt markmiðasetningu fyrir komandi viku og áætlanagerð.

Unghugar: Ungt fólk 18-30 ára með geðraskanir hittist og ræðir sínar bataleiðir með valdeflingu og bata að leiðarljósi. Einnig deila Unhugar reynslu sinni og kappkosta að vera hvort öðru fyrirmynd í batanum. Unghugar hittast reglulega á vikulegum fundum með Svövu Arnardóttur iðjuþjálfa. Annar fundur vikunnar er ætlaður í í skipulags-og verkefnavinnu. Auk þessa hittist hópurinn reglulega til að styrkja félasleg tengsl og samveru s.s. á spilakvöldum.

Aðstandendahópur: Hópur aðstandenda sem hittist tvisvar í mánuði ásamt iðjuþjálfa. Farið er yfir stöðu hjá hverjum og einum, veitt eru ráð og samtal fer fram aðstandenda á milli þar sem deilt er reynslu og bjargráðum. Markmið hópsins er að verða meðvitaður um hlutverk sitt sem aðstandanda að læra leiðir til að styðja sinn aðstandanda í bataferli en jafnframt að huga að eigin heilsu. Á árinu leituðu 73 einstaklingar stuðnings í hópnum.

Sjálfstyrking: Sálfræðingur heldur utan um hópavinnu þar sem fram fer öflug fræðsla og  þátttakendum eru kynnt ýmis verkfæri og aðferðir til sjálfseflingar og sjálfsstyrkingar. Þetta er lokaður hópur fyrir 7-8 einstaklinga og stendur hvert námskeið yfir í 7 vikur.

List og verklegt

Teikni og Litahópur: Notast er þar til gerðar litabækur til að slá m.a á kvíða, auka féagsleg tengsl, rætt er um batahvetjandi leiðir á meðan litað/ teiknað er. Allir mega koma með eigin verkefni eða handavinnu kjósi þeir það frekar.

Myndlist: Marteinn Jakobsson Hugaraflsmaður hefur í árabil verið með tilsögn og kennslu í myndlist fyrir áhugasamt Hugaraflsfólk. Tímarnir voru tvisvar í viku fyrri part árs, en var fækkað í einn tíma á viku seinni part ársins. Í hvert sinn mæta um 2-5 einstaklingar.

Jóga: Tvenns konar jóga er í boði þ.e. Kundalini jóga og Jóga Nidra, 4 daga vikunnar. Markið hópsin er að efla hreyfingu og leiðir til að höndla vanlíðan, að vera í núinu og nýta aðferðir jóga til að efla bjargráð í bataferlinu.

Listaverk frá Hugaraflsfólki

Gítarkennsla Árna: Árni Steingrímsson Hugaraflsmaður hefur sinnt gítarkennslu síðan í mars 2015 og hélt því áfram 2016. Hann hjálpar bæði þeim sem eru að byrja í gítarleik og lengra komnir. Hann hefur verið með einkakennslu og í hóp allt eftir því sem áhugin er.

Tónhugar: Tónlistarhópur sem er vettvangur fyrir alla þá sem hafa áhuga á tónlistarsköpun, upptökutækni og hljóðfæraleik þar sem þátttakendur geta skipst á hugmyndum og lært af öðrum um áðurnefnda hluti.  Kennt er hvernig taka skal upp tónlist, bæði söng og hljóðfæraleik, með tölvuforritum, einnig hvernig stilla skal upp græjum fyrir slíkar upptökur.  Þeir sem taka þátt geta skipst á hugmyndum varðandi lagasmíðar, strauma og stefnur, og einnig er hægt að fræðast um hljómafræði, tónfræði, hryn og takt o.s.frv.  Fyrirhugað er að fá utanaðkomandi til að flytja erindi eða að heimsækja alvöruupptökustúdíó.  Þarna er að finna ágætis búnað s.s. hljóðnema, hljóðkort, stúdíómónitora, hljómborð og trommumaskínu. Markmið hópsins er aukið sjálfstraust á sviði tónlistarsköpunar, að efla getu og þor til að stunda sköpun í hópi og að efla þekkingu á tækjabúnaði.

Guðmundur Hrannar Eiríksson hljóðmaður hefur unnið með hópnum í þróun og uppbyggingu, unnið að uppsetningu tækjabúnaðar, einnig haldið utan hópinn vikulega.  Stjórn Hugarafls hefur stutt verkefnið með fjárveitingu og Lionsklúbburinn Fold veitti Tónhugum styrk til tækjakaupa að upphæð 120.000kr.

Tónhugar fóru af stað á haustmánuðum og lofa mjög góðu, bæði fyrir þátttakendur og hressandi áhrifa á allt húsið. Þátttaka eykst jafnt og þétt, sérstaklega hjá unga fólkinu.

Geðveikt eldhús: Sjálfboðaliðar sem hafa boðið sig fram á Hugaraflsfundi, elda hádegismat á föstudögum fyrir virka þátttakendur í húsinu. Hópurinn sér um skipulag, innkaup og eldamennsku. Markmið hópsins er að efla færni í elshúsi og að ýta undir jákvæða samveru félagsmanna á annasömum degi.

Atli Valur og Árni taka lagið
Fjölmennt í eldhúsinu